Liverpool berst við spænsku risana um Wharton - Nkunku orðaður við Liverpool - Rodrygo í enska boltann?
   mið 06. maí 2009 08:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 5.sæti
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjötta sætinu í þessari spá voru Selfyssingar sem fengu 145 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Selfoss


5.sæti: Selfoss
Búningar: Vínrauð treyja, hvítar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.umfs.is/

Selfyssingar voru skrefi frá því að komast upp í úrvalsdeildina á síðasta tímabili en þeir voru þá á sínu fyrsta ári í 1. deild eftir fjórtán ára fjarveru. Liðið sló heldur betur í gegn í fyrra og stemningin í bæjarfélaginu var mikil. Það verður mjög erfitt fyrir Selfoss að fylgja eftir þeim árangri enda hefur orðið meira umrót í liðinu en menn voru að vona. Þeim er spáð fimmta sætinu á komandi tímabili.

Gunnlaugur Jónsson er mættur sem spilandi þjálfari en hann mun fylla skarðið sem Dusan Ivkovic skyldi eftir sig í hjarta varnarinnar. Ivkovic var valinn í lið ársins í deildinni í fyrra en auk þess voru í því liði þeir Henning Eyþór Jónasson og Sævar Þór Gíslason sem báðir eru áfram hjá liðinu. Sævar Þór íhugaði að leggja skó sína á hilluna en sem betur fer fyrir Selfyssinga heldur hann áfram enda varð hann markakóngur í deildinni.

Viðar Örn Kjartansson er þó horfinn á braut en hann var valinn efnilegasti leikmaður 1. deildar í fyrra. Viðar er stokkinn yfir til Vestmannaeyja og leikur með ÍBV í Pepsi-deildinni. Það eru því nokkur stór skörð hoggin í leikmannahóp Selfyssinga og kemur það í hlut þeirra sem eftir standa að taka á sig meiri ábyrgð.

Það leynir sér ekki að mjög metnaðarfullt starf hefur verið unnið á Selfossi síðustu ár og vel haldið um böndin. Félagið hóf til að mynda í vetur samstarf við sænska úrvalsdeildarliðið IFK Gautaborg. Verið er að endurbæta aðalvöll Selfyssinga og mun liðið leika á gervigrasvelli sínum til að byrja með í sumar en síðan færa sig yfir á æfingsvæðið þar sem búið er að gera keppnisvöll.

Í Lengjubikarnum vann Selfossliðið ekki leik en það hefur verið að finna betri takt síðustu vikur. Í lokaleik sínum í Lengjubikarnum gerði það jafntefli gegn Fram og vann svo Val í æfingaleik fyrir skömmu. Í röðum Selfyssinga eru nokkrir ungir og spennandi leikmenn en þar má nefna Guðmund Þórarinsson og Jón Daða Böðvarsson sem báðir eru fæddir 1992. Báðir eru þeir sóknarþenkjandi leikmenn en Guðmundur er örvfættur og er bróðir og samherji Ingólfs Idol-stjörnu.

Styrkleikar: Selfyssingar hafa nokkuð líkamlega sterkt lið og þá er drjúgt að hafa menn eins og Sævar Þór Gíslason sem kann svo sannarlega listina að skora. Umgjörðin í kringum liðið er virkilega góð og í fyrra komst það langt á samheldni og góðum anda. Selfoss getur spilað virkilega flottan fótbolta á góðum degi og er með mjög góða beinagrind.

Veikleikar: Breiddin í leikmannahópi Selfyssinga er mun minni í fyrra og liðið má varla við skakkaföllum. Þetta fræga annað ár í deildinni hefur oft reynst liðum erfitt og ljóst að hugarfarið þarf að vera hárrétt. Þjálfari liðsins er einnig að spila og spurningamerki hvernig honum tekst að höndla bæði hlutverk.

Þjálfari: Gunnlaugur Jónsson er að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokksþjálfun en hann var ráðinn þjálfari Selfyssinga síðastliðið haust eftir að Zoran Miljkovic hætti með liðið. Gunnlaugur ætlar einnig að leika í vörninni hjá Selfyssingum í vetur þessi margreyndi leikmaður hefur leikið með KR og ÍA hér á landi við góðan orðstír.

Lykilmenn: Gunnlaugur Jónsson, Henning Eyþór Jónasson og Sævar Þór Gíslason.


Komnir: Gunnlaugur Jónsson frá KR.

Farnir: Dusan Ivkovic til Serbíu, Viðar Örn Kjartansson í ÍBV, Boban Jovic í Völsung, Arnar Þór Úlfarsson í Fylki, Ásgeir Börkur Ásgeirsson í Fylki, Kristján Óli Sigurðsson í Reyni S.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Selfoss 145 stig
6. Haukar142 stig
7. Þór 132 stig
8. ÍR 109 stig
9. Leiknir R. 81 stig
10. Afturelding 61 stig
11. Fjarðabyggð 52 stig
12. Víkingur Ólafsvík 44 stig
Athugasemdir
banner
banner