Man Utd vill fá Watkins - Helmingslíkur á að Ten Hag verði áfram - PSG hefur áhuga á Mateta
   sun 02. júlí 2023 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Möltu
Gísli gat ekki spilað áfram á Ítalíu út af niðurstöðu úr hjartalínuriti
Gísli Gottskálk Þórðarson.
Gísli Gottskálk Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Gísli í leik með Víkingum.
Gísli í leik með Víkingum.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Gísli Gottskálk Þórðarson gekk í raðir Víkinga frá Bologna á Ítalíu í maí á síðasta ári. Gísli hafði farið út til Ítalíu seint árið 2020 en hann segir að skiptin til Víkinga hafi borið brátt að.

„Mér líður mjög vel, það er mjög gaman í Víkingi þessa stundina. Það er geggjað að fá að æfa með þessum gæjum sem eru þarna og fá að læra af þeim. Ég nýt þess mjög mikið og tel þetta vera lærdómsrík tvö ár sem ég er búinn að fara í gegnum núna," sagði Gísli í samtali við Fótbolta.net í gærkvöldi.

Var erfitt að koma aftur heim eftir að hafa farið út?

„Það var erfiðast því það var aldrei í myndinni. Ég kom heim á skrítnum forsendum. Það var erfitt að breyta um umhverfi aftur þegar maður var búinn að venjast hinu, en maður var fljótur að venjast þessu. Eftir stuttan tíma var ég orðinn sáttur við að koma til baka. Það var geggjað að fá að koma í Víking þar sem ég var partur af meistaraflokknum tiltölulega snemma."

Það var þannig að Gísli fór í hjartaskoðun og það komu í ljós truflanir út frá þeirri skoðun. Í kjölfarið var það ekki í boði fyrir hann að spila áfram á Ítalíu.

„Ég get eiginlega ekki kallað þetta meiðsli. Ég fór í hjartalínurit og fékk skringilegt út úr því. Ítalinn er helvíti strangur á því. Þetta gerist á svipuðum tíma og þegar (Christian) Eriksen er að reyna að fá leyfi hjá Inter. Hann má ekki spila á Ítalíu en má spila á Englandi. Þetta var svipað dæmi hjá mér. Þetta gerðist rosalega hratt og ég bjóst ekki við þessu, en ég er mjög sáttur í dag. Ekkert til að kvarta yfir," segir Gísli en hann segir stöðuna á sér góða í dag.

„Það er allt í góðu núna. Eins og ég segi, þá eru Ítalarnir mjög strangir á svona. Ég fór á fullt í Víkingi."

Gísli, sem er fæddur árið 2004, er mjög ánægður í Víkingi þar sem hann fær að læra af eldri og reynslumeiri leikmönnum liðsins.

„Mér finnst geggjað að vera partur af hópnum í Víkingi. Ég er miðjumaður og þetta eru ekkert eðlilega góðir leikmenn; mér finnst ég vera að læra eitthvað nýtt á hverjum degi. Ég lít ekki á þetta sem rosalega mikla samkeppni því eldri leikmennirnir eru að leiðbeina manni svo mikið og eru að hjálpa mér á hverjum degi. Það er geggjað, mjög lærdómsríkt og gaman," sagði þessi efnilegi leikmaður að lokum en hægt er að sjá viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.

Gísli er hluti af U19 landsliði Íslands sem hefur keppni í lokakeppni Evrópumótsins á þriðjudag.
Gísli Gottskálk: Við fyrstu sýn var ég smá stressaður
Athugasemdir
banner