Man Utd vill fá Watkins - Helmingslíkur á að Ten Hag verði áfram - PSG hefur áhuga á Mateta
banner
   mán 29. apríl 2024 14:12
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ívar mögulega alvarlega meiddur - Vongóður um að hafa sloppið
Ívar draghaltur.
Ívar draghaltur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ívar Örn Jónsson, byrjunarliðsmaður í liði HK, þurfti að fara af velli vegna hnémeiðsla í leik liðsins gegn Vestra á laugardaginn.

„Ívar örn liggur niðri eftir tæklingu, leikurinn stopp. Þetta var ekki gróf tækling en mér sýnist Ívar hafa snúið upp á ökklann. Ívar neyðist til að fara af velli vegna meiðsla," skrifaði Kári Snorrason í textalýsingu frá leiknum rétt eftir að fyrri hálfleikur var hálfnaður. Staðan er þó þannig að Ívar meiddist ekki á ökkla heldur á hné.

„Hann er draghaltur og fékk slink á hnéð, hann er vel bólginn núna," sagði Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, í viðtali við Fótbolta.net eftir leikinn.

Fótbolti.net hafði samband við Ívar og var hann spurður út í stöðuna.

„Staðan er svolítið óljós ennþá, mikil bólga í þessu. Það kemur betur í ljós á næstu dögum en ég er vongóður um að hafa sloppið við eitthvað alvarlegt," segir Ívar.

„Ég veit það ekki alveg nógu vel. Öll test sem voru gerð úti á velli komu ágætlega út en ég fer í frekari skoðun og sennilega í myndatöku til að skera úr um það," segir bakvörðurinn aðspurður hvort að mögulega sé um brot eða slit að ræða.

Hann er þrítugur vinstri bakvörður sem uppalinn er hjá HK og hóf meistaraflokksferilinn þar árið 2011. Hann hefur einnig leikið með Víkingi og Val á sínum ferli en sneri aftur í HK um mitt sumar 2020.
Athugasemdir
banner