Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 11. maí 2009 11:44
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 6. sæti
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Tindastóll
Mynd: Tindastóll
Mynd: Víkurfréttir - Jón Björn
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjötta sæti í þessari spá var Tindastóll sem fékk 127 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Tindastól.


6. Tindastóll
Búningar: Hvít treyja, svartar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.tindastoll.is/

Tindastóll sigldu nokkuð lygnan sjó á síðustu leiktíð um miðja deild og ef spá fyrirliða og þjálfara gengur eftir er ljóst að liðið mun sigla á nýjan leik nokkuð lygnan sjó þetta árið. Breytingar hafa orðið í brúnni en Róbert Jóhann Haraldsson hætti þjálfun liðsins og við starfi hans tóku þeir Sævar Pétursson, fyrrum leikmaður Breiðabliks og Bjarki Már Árnason sem hefur verið lykilmaður liðsins undanfarin ár.

Tindastóll stillir annars upp nokkur óbreyttu liði frá því á síðustu leiktíð en ekki hafa verið miklar mannabreytingar á liðinu. Ungir leikmenn fá sína eldskírn í sumar en 3. flokkur félagsins fór alla leið í úrslitum Íslandsmótsins í fyrra og efniviðurinn er því svo sannarlega til staðar í Skagafirði. Nokkrir leikmenn hafa yfirgefið herbúðir liðsins en helstan ber að nefna Halldór Jón Sigurðsson sem lék stórt hlutverk síðasta sumar en hann gekk í raðir ÍA. Kristján Páll Jónsson sem kom að láni í fyrra frá Leikni mun leika á heimaslóðum í sumar og þá munu þeir Róbert Jóhann Haraldsson og Saso Durasovic ekki leika með liðinu í sumar.

Til að fylla upp í þessi skörð hafa þeir Sævar og Bjarki fengið Guðmund Kristinn Vilbergsson frá Hvöt. Einnig hefur Sævar Pétursson leikið með liðinu á undirbúningstímabilinu þannig að hann getur brugðið sér í gömlu takkaskóna frá Hemma Gunn ef því er að skipta. Síðastur en þó alls ekki sístur í þessari upptalningu er ísbjarnartemjarinn úr Skagafirðinum. Yfirlögregluþjónninn á Sauðarkróki, Stefán Vagn Stefánsson, sem er þekktari fyrir afskipti sín af indælum ísbjörnum í Skagafirði en knattspyrnuiðkun en hann mun vera varamarkvörður Tindastóls í sumar. Eflaust verður hann þó á bakvakt ef ske kynni að fleiri ísbirni reki á land í firðinum.

Árangur liðsins og spilamennska í Lengjubikarnum var með miklum ágætum. Liðið hafnaði í 2. sæti sins riðils í B-deildinni á eftir Gróttu og lögðu meðal annars þrjú 2. deildarlið að velli í riðlinum. Víðir, KS/Leiftur og ÍH/HV voru lögð að velli sem ætti að gefa liðinu byr undir báða vængi fyrir komandi sumar. Sá árangur tryggði liðinu sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins þar sem liðið þurfti að bíða lægri hlut fyrir Fjarðabyggð.

Það verður gaman að fylgjast með liði Tindastóls í sumar. Margir ungir og efnilegir leikmenn munu fá sína eldskírn og verður sérstaklega gaman að fylgjast með þeim Fannari Erni Kolbeinssyni, Árna Árnasyni og Birni Antoni Guðmundssyni. Allir eru þetta kornungir strákar sem voru hluti af hinu öfluga 3. flokksliði félagsins en þeir eru fæddir 1992 og 1993.

Styrkleikar: Styrkur Tindastóls í sumar verður án efa sú staðreynd að liðið er að byggja að mestu leyti upp lið á uppöldum leikmönnum. Menn sem eru tilbúnir að berjast og leggja sig fram fyrir félagið. Það getur fleytt liðinu langt í sumar.

Veikleikar: Þrátt fyrir að hafa reynslubolta eins og Bjarka Má Árnason og Gísla Eyland Sveinsson er ljóst að reynsluleysið gæti hrjáð liðinu eitthvað í sumar. Í lokaleik liðsins í Lengjubikarnum gegn Gróttu voru sjö leikmenn fæddir á árunum 1992 og 1993. Það verður hlutverk eldri leikmanna liðsins að draga vagninn á erfiðum stundum og þegar mótlætið bjátar á.

Þjálfari: Sævar Pétursson og Bjarki Már Árnason stíga nokkurn veginn sín fyrstu spor sem þjálfarar í sumar. Þeir ættu að geta þétt varnarleik liðsins án nokkurra vandkvæða með alla sína reynslu og þekkingu. Það verður að teljast líklegt að aðeins annar spili í einu og það verði því hlutverk Sævars að stjórna liðinu í sumar

Lykilmenn: Gísli Eyland Sveinsson, Bjarki Már Árnason og Árni Einar Adolfsson.

Komnir: Guðmundur Kristinn Vilbergsson frá Hvöt, Kristmar Geir Björnsson frá Hamar, Sævar Pétursson tekur skóna af hillunni.

Farnir: Guðni Þór Einarsson til Danmerku, Halldór Jón Sigurðsson í ÍA, Kristján Páll Jónsson í Leikni R., Róbert Jóhann Haraldsson í KS/Leiftur, Saso Durasovic til Serbíu.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. Tindastóll 127 stig
7. Höttur 126 stig
8. Magni 100 stig
9. KS/Leiftur 85 stig
10. BÍ/Bolungarvík 83 stig
11. ÍH/HV 63 stig
12. Hamar 51 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner