Kevin De Bruyne og Varane til Saudi Arabíu - Solanke til West Ham - Chelsea vill Ramsdale frá Arsenal
   lau 09. maí 2009 11:56
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 8. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Valgeir Kárason
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í áttunda sæti í þessari spá var Magni sem fékk 100 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Magna.


8. Magni
Búningar: Svört og hví treyja, svartar buxur, svartir og rauðir sokkar.
Heimasíða: http://www.magnigrenivik.is/

Magni frá Grenivík voru magnaðir á síðustu leiktíð og náðu frábærum árangri þegar uppi var staðið. Liðinu var spáð falli á síðustu leiktíð en leikmenn liðsins blesu aldeilis á þær hrakspár og endaði liðið í 5. sæti deildarinnar öllum að óvörum eftir frábært tímabil. Fyrirliðar og þjálfarar telja að Magni geti ekki leikið þetta eftir í ár og spá liðinu 8. sæti. Hvort árangur síðasta tímabils var einungis einnar nætur gaman skal ósagt látið en leikmenn liðsins vilja væntanlega byggja ofan á glæsilegan árangur síðasta tímabils.

Undirbúningstímabilið hefur verið upp á ofan en liðið hafnaði í 4. sæti í sínum riðli í Lengjubikarnum en aðeins Huginn og Leiknir Fáskrúðsfirði voru fyrir neðan liðið. Kannski er það ástæðan fyrir því að liðinu er ekki spáð betra gengi í ár en núna rétt fyrir mót steinlá liðið gegn Völsungi 5-1 í síðasta leik liðsins í Lengjubikarnum. Það er spurning hvernig þetta stórtap hefur áhrif á sjálfstraust Magnamanna svona rétt fyrir mót.

Ýmsar breytingar hafa átt sér á Grenivík frá því á síðustu leiktíð. Atli Már Rúnarsson er hættur þjálfun liðsins eftir farsælt starf og við starfi hans er tekinn Hlynur Svan Eiríksson. Hann þarf að fylla upp í stór spor Atla sem gerði góða hluti með liðið en með nýjum mönnum koma nýjar áherslur og hefur Hlynur væntanlega mikinn metnað til að fara lengra með liðið. Hlynur hefur fengið nokkra unga og spræka stráka til að styrka og stækka hópinn. Flestir koma þeir frá Þór eða fjórir talsins en einnig hefur liðið fengið leikmenn frá Snerti, Dalvík/Reyni og KA. Allt eru þetta ungir og sprækir leikmenn sem eru aftur á móti nokkuð óskrifað blað enda með litla reynslu í að spila með meistaraflokki.

Liðið hefur aftur á móti missti þrjá afar sterka leikmenn sem léku stórt hlutverk á síðustu leiktíð. Atli Már Rúnarsson varði mark liðsins en hann er nú snúinn aftur til Þórs. Atli var algjör lykilmaður á síðustu leiktíð og það verður því stórt skarð sem Logi Ásbjörnsson þarf að fylla upp í. Eiríkur Páll Aðalsteinsson er genginn í raðir Þórs en hann spilaði 20 leiki á síðasta tímabili. Einnig hefur Gunnar Sigurður Jósteinsson gengið í raðir sinna gömlu félaga í Völsungi en hann lék 19 leiki á síðustu leiktíð og skoraði í þeim fimm mörk.

Styrkleikar: Karakterinn og samheldnin virðist vera einn helsti styrkleiki Magna. Liðið sýndi á síðustu leiktíð að allt er hægt og árangur liðsins á útivöllum var einnig afar góður. Liðið halaði þar inn fleiri stigum en á heimavelli í erfiðum útileikjum.

Veikleikar: Heimavöllur Magna verður að gefa meira af sér en á síðustu leiktíð en liðið fékk aðeins 13 stig af 33 mögulegum á Grenivík. Slíkt er óásættanlegt fyrir lið eins og Magna en ÍH sem féll úr deildinni var með sama árangur á heimavelli. Varnarleikur liðsins hefur ekki verið sannfærandi á undirbúningstímabilinu og það
gæti reynst þeim dýrkeypt í sumar.

Þjálfari: Hlynur Svan Eiríksson er Þórsari sem lék með liðinu í Símadeild karla í kringum aldamótin. Reynlumikill með eindæmum og mun eflaust koma til með að miðla sinni þekkingu og reynslu til sinna manna. Hann hefur verið þjálfari 2. flokks karla hjá Þór með afar góðum árangri en árið varð liðið bikarmeistari undir hans stjórn og vann sér sæti í A-deild.

Lykilmenn: László Szilágyi, Ingvar Már Gíslason og Jónas Halldór Friðriksson.

Komnir: Andri Heiðar Ásgrímsson frá Þór, Davíð Jón Stefánsson frá Þór, Frans Veigar Garðarsson frá Þór, Guðni Kárason frá Snerti, Hjörtur Geir Heimisson frá Þór, Númi Stefánsson frá KA, Sinisa Pavlica frá Dalvík/Reyni og Steinar Logi Rúnarsson frá Þór.

Farnir: Atli Már Rúnarsson í Þór, Eiríkur Páll Aðalsteinsson í Þór, Gunnar Sigurður Jósteinsson í Völsung, Laszlo Siket til Ungverjalands.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. Magni 100 stig
9. KS/Leiftur 85 stig
10. BÍ/Bolungarvík 83 stig
11. ÍH/HV 63 stig
12. Hamar 51 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner