Kane, Rashford, Osimhen, Guehi og Alonso eru meðal þeirra sem koma við sögu í slúðrinu
banner
   þri 05. maí 2009 07:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 12. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M. Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M. Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M. Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tólfa og neðsta sæti í þessari spá var Hamar sem fékk 51 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Hamar.


12. Hamar
Búningar: Blá treyja, bláar buxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.hamarsport.is

Hamar úr Hveragerði þreytir sitt annað tímabil í 2. deild þetta árið eftir dramatískan endasprett. Liðið lagði Hött að velli í lokaumferðinni í fyrra en það dugði liðinu þó ekki til að halda sæti sínu í deildinni þar sem úrslit annarra leikja voru óhagstæð. Eins manns dauði er aftur á móti annars brauð og eftir að ÍH tapaði kærumáli hélt Hamar sæti sínu í deildinni.

Það var gífurlega mikilvægt fyrir lið Hamars að halda sæti sínu í deildinni. Erfitt hefði verið að falla niður um deild og byrja frá grunni. Nú er ljóst að liðið getur byggt ofan á þá reynslu sem liðið fékk á síðustu leiktíð. Boban Ristic hefur látið af þjálfun liðsins og réð liðið Jón Aðalstein Kristjánsson í hans stað. Jón þjálfaði 2. flokk Fram á síðustu leiktíð en hefur áður þjálfað Skallagrím og ÍH. Hann fær nú það erfiða verkefni að byggja upp öflugt lið á komandi árum.

Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Hamars frá því á síðustu leiktíð og Jóns Aðalsteins bíður því krefjandi verkefni að móta nýtt lið fyrir komandi sumar. Nokkrir af sterkari leikmönnum liðsins hafa horfið á braut og í þeirra stað komir ungir og óreynir leikmenn. Ágúst Örlygur Magnússon gekk í raðir Örsta í Noregi, Milan Djurovic söðlaði um og mun leika með Aftureldingu, Predrag Milosavljevic er genginn í raðir Víkings Ólafsvíkur en hann þekkir vel til þar á bæ. Þessir þrír léku stórt hlutverk hjá liðinu á síðustu leiktíð og blóðtakan því mikil.

Margir ungir og efnilegir piltar hafa gengið í raðir liðsins en Jón Aðalsteinn tók með sér marga pilta úr öflugum 2. flokki Fram sem var í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Ómar Ingi Guðmundsson gæti reynst liðinu drjúgur en hann kemur frá Ými. Hann hefur skorað grimmt fyrir Ými en verður þó væntanlega í öðru hlutverki aftar á vellinum hjá Hamar.

Liðið virðist vera á ágætu róli svona rétt fyrir mót en árangur liðsins í Lengjubikarnum var talsvert betri í ár en fyrra. Þrátt fyrir að hafa aðeins hlotið fjögur stig sýndi liðið klærnar í fyrstu fjórum leikjum liðsins áður en liðið fékk skell gegn KV. Naumt tap gegn Hvöt og Reyni Sandgerði og jafntefli gegn BÍ/Bolungarvík sýndu að liðið getur vel bitið frá sér. Að endingu vann liðið góðan sigur á Berserkjum. Leikmenn liðsins ætla án nokkurs vafa að blása á þessar hrakspá og til þess að það takist þarf liðsheildin að vera í góðu lagi hjá hinu unga liði Hamars.

Styrkleikar: Það getur bæði virkað sem kostur og ókostur að hafa á mjög ungu liði að skipa. Ef liðið fær meðbyrinn í byrjun er ljóst að ungu leikmennirnir fá blóð á tennurnar og greddan mun fleyta þeim yfir erfiðustu hjallana. Heimavöllur liðsins gaf einungis 12 stig af 33 mögulegum en liðið gerði ekkert jafntefli á heimavelli. Jafnir leikir féllu liðinu ekki hag og úr því verður liðið að bæta í sumar.

Veikleikar: Eins og áður er ljóst að það getur einnig verið ókostur að hafa á jafn ungu liði að skipa og Hamar. Lítið má út af bregða og menn fljótir að detta niður þegar mótlætið skellur á af fullum þunga. Lið Völsungs fékk að kenna á því í fyrra og Jóns Aðalsteins bíður því erfitt verkefni að halda sínum mönnum við efnið ef illa gengur. Reynsluleysið getur hrjáð liðinu í sumar.

Þjálfari: Jón Aðalsteinn Kristjánsson tók við liði Hamars í byrjun ársins og er þetta í fyrsta sinn sem hann þjálfar lið í 2.deild. Jón hefur áður þjálfað ÍH og Skallagrím í 3.deild auk þess sem hann var aðstoðarþjálfari hjá Aftureldingu árið 2006 á sama tíma og hann þjálfaði 2.flokk þar. Í fyrra gerði Jón góða hluti með 2.flokkslið Fram en liðið endaði í öðru sæti á Íslandsmótinu og var í baráttunni um titilinn fram í síðasta leik.

Lykilmenn: Kjartan Sigurðsson, Milos Milojevic, Ómar Ingi Guðmundsson.

Komnir: Arnar Dóri Ásgeirsson frá Fram, Atli Sigurðsson frá Val, Bjarni Hannes Kristjánsson úr Haukum, Davíð Snæhólm Baldursson úr Haukum, Ellert Finnbogi Eiríksson úr Val, Erling Reynisson úr KR, Guðmundur Dagur Ólafsson frá Fram,
Jón Kári Ívarsson frá KR, Jón Þorgeir Aðalsteinsson frá Fram, Kjartan Sigurðsson frá Fram, Kristinn Ingi Halldórsson frá Fram, Marteinn Sindri Svavarsson frá Fram, Milos Milojevic frá Ægi, Ómar Ingi Guðmundsson frá Ými, Skarphéðinn Magnússon frá Stjörnunni, Vigfús Geir Júlíusson frá Fram, Vífill Traustason frá ÍH, Þorbjörn Þór Sigurðarson frá KB.

Farnir: Ágúst Örlygur Magnússon til Örsta, Dalibor Lazic í KS/Leiftur, Gunnar Ásgeirsson í Hauka, Kristófer Ari Te Maiharoaí Árborg, Kristmar Geir Björnsson Tindastóll, Milan Djurovic í Aftureldingu, Predrag Milosavljevic í Víking Ó, Sveinn Þór Steingrímsson í Grindavík, Rögnvaldur Helgason í Stjörnuna, Stefán Daníel Jónsson í Stjörnuna.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11.
12. Hamar 51 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner