Þrír orðaðir við Man City - Chelsea og Liverpool á eftir Kerkez - Fer Vlahovic til Arsenal?
   mið 06. maí 2009 07:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 11. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Sigga Leifs
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í ellefta sæti í þessari spá var ÍH/HV sem fékk 63 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um ÍH/HV.


11. ÍH/HV
Búningar: Appelsínugul treyja, hvítar stuttbuxur.
Heimasíða: http://www.hamrarnir.bloggar.is

Lið ÍH og Hamrana/Vina eru sameinuð í eina sæng og leika undir nafni ÍH/HV í sumar. Hamrarnir/Vinir unnu 3. deildina með stæl í fyrra og komu skemmtilega óvart en ákváðu á haustmánuðum að sameinast ÍH sem féll úr 2. deildinni í fyrra eftir að hafa tapað kærumáli og þar af leiðandi hélt Hamar sæti sínu í deildinni. ÍH/HV mæta því til leiks í sumar sem nokkuð óskrifað blað.

Það verður forvitnilegt að sjá hvað hið nýja sameinað lið gerir í sumar. Árangur liðsins í Lengjubikarnum var heilt yfir nokkuð góður ef litið er til þess að um spánýtt lið er að ræða. Riðill liðsins var sterkur en þrátt fyrir það bitu þeir frá sér. Sigrar gegn KS/Leiftri og Víði er eitthvað til að ýta undir sjálfstraust liðsins.

Varnarleikur liðsins var öflugur og fékk liðið næst fæst mörk á sig í riðlinum. Að undanförnu hefur liðið ná fínum úrslitum í æfingaleikjum og það er því á kristaltæru að ÍH/HV getur vel bitið frá sér í sumar. Liðið hefur leikið gegn 1. Deildarliðum upp á síðkastið og meðal annars lagði liðið Víking Ólafsvík að velli en tapaði naumlega gegn Haukum og Leikni.

ÍH/HV mun byggja á þeim mannskap sem fyrir er enda töluverður fjöldi leikmanna sem liðin tvö gátu sameinað. Úr því ætti að geta komið ágætis blanda. Til að styrkja þessa vösku sveit hefur Mikael Nikulásson, þjálfari liðsins, fengið nokkra leikmenn til félagsins. Fyrstan ber að nefna Sigurð Skúla Eyjólfsson sem kemur frá KA. Sigurður lék á árum áður með U19 ára landsliði Íslands og ætti því að vera góður styrkur fyrir hið sameinað lið. Aðrir leikmenn sem gengið hafa í raðir félagsins eru nokkurn veginn óskrifað blað.

Nokkrir leikmenn sem léku með báðum þessum liðum í fyrra hafa aftur á móti horfið á braut. Pétur Heiðar Kristjánsson sem var einn af lykilmönnum Hamrana/Vina er flúinn land og leikur nú í Noregi. Guðmundur Kristinn Kristinsson sem lék flesta leiki liðsins á síðustu leiktíð er einnig farinn frá liðinu en hann gekk í raðir sinna gömlu félaga í Dalvík.

Styrkleikar: Nýtt lið kallar á nýjar áherslur og með nýju liði koma nýjir leikmenn. Allir leikmenn liðsins verða nú að sanna sig og berjast fyrir tilverurétti sínum í hinu nýja sameinaða liði. Ef liðið fær góðan meðbyr í byrjun móts er ljóst að stemningin gæti fleytt liðinu ansi langt. Í gegnum tíðina hefur ÍH verið mikið stemningslið og ekki ætti það að minnka við komu norðanmanna.

Veikleikar: Áður fyrr þótti ansi erfitt að mæta liði ÍH en á undanförnum árum virðist eins og stemningin í kringum klúbbinn hafi minnkað. Nú er komið nýtt sameinað lið og það gæti því tekið einhvern tíma að púsla saman öflugri liðsheild. Ef liðið verður sundurleitt í byrjun móts gæti sumarið verið ansi erfitt en miðað við úrslit í vorleikjum er ekki nein ástæða til annars fyrir leikmenn liðsins að vera bjartsýnir fyrir komandi sumar.

Þjálfari: Mikael tók við hinu sameinaða liði en hann hefur þjálfað ÍH undanfarin ár með misjöfnum árangri. Hefur verið spilandi þjálfari undanfarin ár en mun væntanlega eingöngu stýra liðinu í sumar og það ætti að geta hjálpað honum að einbeita sér að þjálfun liðsins.

Lykilmenn: Daníel Einarsson, Sigurður Skúli Eyjólfsson, Birgir Rafn Birgisson.

Komnir: Ásgeir Harðarson úr Fylki Sigurður Skúli Eyjólfsson frá KA,

Farnir: Guðmundur Kristinn Kristinsson í Dalvík/Reyni, Guðmundur Freyr Pálsson í Hauka, Hallgrímur Dan Daníelsson í HK, Nik Anthony Chamberlain til Bandaríkjanna, Magnús Jónsson í KFG, Pétur Heiðar Kristjánsson til Noregs, Sindri Örn Steinarsson í Hauka, Sigurður Heiðar Baldursson í Hvöt, Stefán Ólafur Sigurðsson til Noregs, Sæþór Jóhannesson í KFS.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ÍH/HV 63 stig
12. Hamar 30 stig
Athugasemdir
banner