Joao Pedro í forgangi hjá Liverpool - Man Utd setur verðmiða á Rashford - Real Madrid missir vonina gagnvart Davies
   fös 08. maí 2009 07:30
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 9. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í níunda sæti í þessari spá var KS/Leiftur sem fékk 85 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um KS/Leiftur.


9. KS/Leiftur
Búningar: Bláir treyja, bláar stuttbuxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.siglo.is/ks og http://www.leiftur.is

Sameinað lið KS/Leifturs leikur í 2. deild þetta árið eftir að hafa fallið úr 1.deildinni á síðustu leiktíð. Sú deild virtist vera of stór biti fyrir liðið en það endaði lang neðst með aðeins 12 stig og féll nokkuð örugglega. Framan af móti sýndi liðið hins vegar áægits takta en það féll ekkert með liðinu og tapaði liðið til að mynda aðeins einu sinni með meira en einu marki þegar komið var fram í lok ágústmánaðar. Átta sinnum tapaði liðið með minnstum mun og það virtist sem liðið væri gjörsamlega dæmt til að falla.

Nú bíður liðsins afar erfitt og krefjandi verkefni. Margir leikmenn liðsins hafa horfið á braut og blóðtakan er mikil fyrir jafn fámennan hóp og KS/Leiftur hefur yfir að ráða. Þórður Birgisson mun leika með HK í sumar en hann hefur verið máttarstólpi í liði KS/Leifturs þegar hann hefur verið heill.

Tveir ungir lánsmenn frá Breiðabliki koma ekki aftur en þeir Guðjón Gunnarsson og Hrafn Ingason léku með liðinu í fyrra. Jóhann Örn Guðbrandsson hefur æft og leikið með Víkingi og mun hann væntanlega ekki snúa aftur norður. Oliver Jaeger, Orri Rúnarsson og Sandor Forizs hafa einnig ákveðið að söðla um og leika annarsstaðar. Orri mun leika með Hvöt en Sandor gekk í raðir KA nú á dögunum. Stór skörð hafa verið hoggin í annars fámennan hóp og nú reynir á leikmenn sýni samstöðu í sumar.

Til að styrkja sveit sína hefur Ragnar Hauksson fengið til sín nokkra leikmenn. Benis Krasnigi mun leika með liðinu í sumar en hann æfði með nokkrum liðum á höfuðborgarsvæðinu í vetur en fékk ekki samning. Hann gæti reynst liðinu dýrmætur í sumar. Gamla brýnið Róbert Jóhann Haraldsson hefur fengið félagaskipti frá Tindastóli og ekki er loku fyrir það skotið að hann leiki með liðinu í sumar. Sigurbjörn Hafþórsson mun einnig spila með liðinu í sumar en hann kom sem lánsmaður á síðustu leiktíð frá Keflavík. Að endingu hefur liðið einnig klófest Dalibor Lazic sem lék með Hamri á síðustu leiktíð.

Hið sameinaða lið frá Fjallabyggð er nokkurt spurningamerki fyrir sumarið. Árangur liðsins í Lengjubikarnum var slakur en liðið hlaut aðeins eitt stig og það í lokaleiknum gegn Víði. Þau úrslit ættu kannski að ýta undir sjálfstraustið hjá liðinu og jafnvel að liðið sé á réttri braut svona rétt fyrir mót.

Styrkleikar: Heimavöllur liðsins hefur ávallt verið sterkur og verður þeirra höfuvígi í sumar. Siglufjarðarvöllur hefur sérstaklega þótt erfiður heima að sækja og ætli liðið sér ekki að sogast í erfiða fallbaráttu þarf heimavöllurinn að vera þeim drjúgur í sumar.

Veikleikar: Breiddin er lítil sem engin hjá liðinu. Enginn Ólafsfirðingur er nánast eftir í liðinu en þeir eru flestir flúnir inn til Akureyrar. Yngri strákar fá tækifærið í sumar en þá skortir reynslu og geta hæglega brotnað niður við mikið mótlæti.

Þjálfari: Ragnar Hauksson þjálfar liðið sem fyrr en hann fær það skemmtilega verkefni að byggja upp nánast nýtt lið frá undanförnum árum. Ragnar hefur sýnt að hann er klókur þjálfari en það gæti einnig reynst liðinu gífurlega mikilvægt leiki hann með liðinu.

Lykilmenn: Agnar Þór Sveinsson, Ragnar Hauksson og Sigurbjörn Hafþórsson.

Komnir: Benis Krasnigi frá HK, Dalibor Lazic frá Hamar, Hörður Helgason frá Dalvík/Reyni, Ragnar Adolf Árnason frá Neista H. Róbert Haraldsson frá Tindastóli.

Farnir: Guðjón Gunnarsson í Breiðablik, Hrafn Ingason í Breiðablik, Jóhann Guðbrandsson í Víking R. Milos Tanasic í Njarðvík, Oliver Jaeger til Sviss, Orri Rúnarsson í Hvöt, Sandor Forizs í KA, Róbert Örn Óskarsson í FH, Þórður Birgisson í HK.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. KS/Leiftur 85 stig
10. BÍ/Bolungarvík 83 stig
11. ÍH/HV 63 stig
12. Hamar 51 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner