Real vill Trent - Man Utd mun ekki reyna við Southgate - Aston Villa býr sig undir að keppa um Williams
   mið 12. júní 2024 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Messi ætlar að enda ferilinn hjá Inter Miami
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Argentínska goðsögnin Lionel Messi segist ætla að enda ótrúlegan fótboltaferil sinn hjá Inter Miami í bandarísku MLS deildinni.

Messi, sem verður 37 ára seinna í mánuðinum, er samningsbundinn Inter í eitt og hálft ár til viðbótar.

„Inter Miami verður síðasta félagið mitt. Ég elska ennþá að spila fótbolta, ég elska það ennþá meira núna þegar ég veit að það styttist óðfluga í að ég þurfi að hætta. Eins og staðan er í dag þá nýt ég þess mjög mikið að spila fótbolta," sagði Messi við ESPN í dag.

„Ég er ekki tilbúinn til að yfirgefa fótboltaheiminn strax. Ég hef gert þetta alla mína ævi og ég elska þetta enn þann dag í dag. Ég elska að spila fótbolta, ég elska að mæta á æfingar og ég elska flest annað sem tengist þessu lífi."

Óljóst er hvort Messi muni framlengja samning sinn við Inter á næsta ári, en miðað við þessi orð hans mun hann ekki snúa aftur í argentínska boltann til að spila með uppeldisfélaginu sínu Newell's Old Boys.

Messi er einn af allra bestu fótboltamönnum sögunnar og hefur unnið ógrynni titla og einstaklingsverðlauna í gegnum árin. Hann undirbýr sig þessa dagana fyrir Copa América, þar sem Argentína reynir að verja titilinn sinn frá því fyrir þremur árum - sem var sá fyrsti síðan 1993.
Athugasemdir
banner
banner
banner