Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   fös 28. júlí 2017 15:30
Magnús Már Einarsson
Gleymdist að skrá Hallgrím í hóp - Fór í fýluferð til Rússlands
Hallgrímur Jónasson.
Hallgrímur Jónasson.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Hallgrímur Jónasson, varnarmaður Lyngby, fékk ekki að spila með liðinu gegn Krasnodar frá Rússlandi í Evrópudeildinni í gærkvöldi. Skila þarf leikmannalista til UEFA fyrir hverja umferð í Evrópudeildinni og Lyngby gleymdi að setja nafn Hallgríms á þann lista fyrir leikinn.

„Það var algjört sjokk þegar ég komst að þessu inni í klefa fyrir upphitun. Það gleymdist að skrá mig á listann fyrir þessa umferð þó að ég hafi verið á listanum í síðustu tveimur umferðum," sagð Hallgrímur við Fótbolta.net í dag.

„Þetta var svipað mikið högg í andlitið og þegar maður fékk að vita að maður færi ekki með á EM. Það er erfitt að lýsa tilfinningunum. Það var ekkert hægt að gera í þessu svo ég settist bara upp í stúku og horfði á leikinn."

Krasnodar skoraði sigurmarkið á lokasekúndunum í vibótartíma en lokatölur urðu 2-1.

„Það þurfti að gera hrókeringar á liðinu. Það kom annar strákur inn í liðið og það þurfti að breyta þremur stöðum. Þeir sem komu inn stóðu sig ótrúlega vel. Það kom bakvörður inn í hafsent af því að það eru tveir aðrir hafsentar meiddir. Við áttum skilið meira úr þessum leik. Við erum samt í ágætis séns. Það er nóg að vinna 1-0 í síðari leiknum."

Síðari leikurinn fer fram í Danmörku eftir viku en Hallgrímur má líklega ekki spila hann heldur þar sem hann er ekki skráður í Evrópuhópinn. „Þeir ætla að reyna að fara með þetta mál lengra en reglurnar eru þannig að ég get örugglega ekki verið í hóp," sagði Hallgrímur.

Lyngby var í toppbaráttunni í dönsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en nýtt tímabil hófst á dögunum.

„Við erum búnir að vera að keppa á tveimur vígstöðum í svolítinn tíma. Við unnum tíu leiki í röð áður en við töpuðum sanngjarnt gegn Horsens í síðasta deildarleik. Við höfum nánast ekki misst neitt fyrir utan einn ungan strák (Jens Odgaard) sem var keyptur til Inter. Við erum með reynslumikið og gott lið. Ég held að þetta stefni í annað gott tímabil."

„Það er erfitt að keppa þrjá leiki í viku og vera á öllum vígstöðum og þá er spurning hversu sterkir hóparnir eru. Það verður gaman að sjá hvernig það gengur með okkar hóp. Það hefur gengið vel hingað til og vonandi heldur það áfram,"
sagði Hallgrímur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner