Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 15. maí 2009 11:40
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 1. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Á morgun hefst keppni í annarri deildinni og því er ekki seinna vænna en að birta tvö efstu liðin í spánni. Í fyrsta sæti í þessari spá var Grótta sem fékk 229 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Gróttu.


1. Grótta
Búningar: Blá treyja, bláar buxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.grottasport.is

Gróttu er spáð efsta sætinu í deildinni af fyrirliðum og þjálfurum deildarinnar. Pressan verður öll á lærisveinum Ásmundar Haraldssonar í sumar en liðið hefur verið ógnarsterkt á undirbúningstímabilinu. Ásmundur hefur þjálfað liðið undanfarin ár en núna virðist loksins vera komið lið sem getur gert tilkall til stórra hluta á næstu árum. Nú á dögunum vann liðið B-deild Lengjubikarsins næsta örugglega og liðið mætir því með bullandi sjálfstraust inn í mótið.

Á síðustu leiktíð sigldi Grótta nokkuð lygnan sjó og endaði að lokum í 7. sæti deildarinnar. Seltirningar eru stórhuga og stefna hærra og til að ná markmiðum sínum ákvað Ásmundur að styrkja sína sveit með nokkrum afar öflugum leikmönnum. Fyrstan ber að nefna Kristján Finnbogason sem hefur leikið með KR og ÍA á sínum glæsta ferli. Kristján hefur verið einn allra besti markvörður landsins um árabil og er koma hans gífurlegur hvalreki í fjörurnar við Gróttu. Hann mun án efa koma til með að loka rammanum í sumar líkt og hann hefur gert í mörgum leikjum á undirbúningstímabilinu.

Árni Ingi Pjetursson er genginn í raðir liðsins frá ÍA þar sem hann fékk fá tækifæri í fyrra. Árni er uppalinn KR-ingur en lék um árabil með Val en lék síðast með Gróttu 2007 þegar liðið lék í 3. deildinni. Edilon Hreinsson kemur frá Haukum þar sem hann hefur leikið undanfarin ár. Edilon á það sameiginlegt með Árna og Kristjáni að vera uppalinn KR-ingur. Þá hefur liðið fengið Pétur Már Harðarson að láni frá KR en Pétur er uppalinn á Seltjarnarnesi og vakti fyrst óskipta athygli árið 2005 þegar hann lék með Gróttu í úrslitakeppninni 3.deildar.

Grótta hefur haldið nánast öllum sínum mannskap frá því á síðustu leiktíð en þeir urðu fyrir mikilli blóðtöku þegar Grétar Ali Khan ákvað að ganga í raðir Víkings. Grétar er uppalinn hjá Gróttu en vildi leita á önnur mið. Fyrir utan brotthvarf Grétars hefur Ásmundi tekist að halda nokkurn veginn sama leikmannahópi og var á síðust leiktíð sem er gífurlega mikilvægt.

Árangur liðsins í vetur hefur verið afar góður og spilamennskan oft á tíðum framúrskarandi. Liðið vann alla sína leiki í riðlinum í Lengjubikarnum og bætti liðið um betur og vann Fjarðabyggð í úrslitaleik B-deildar Lengjubikarsins. Frábær árangur hjá Ásmundi Haraldssyni og hans mönnum. Spilamennska liðsins í vetur gefur góð fyrirheit fyrir komandi sumar en mikilvægt er fyrir liðið að halda sig á jörðinni og halda ótrautt áfram í átt að sínu markmiði.

Styrkleikar: Leikmannahópur liðsins er gífurlega sterkur og breiddin nokkuð góð. Varnarleikur liðsins verður án efa mjög sterkur með Kristján Finnbogason þar fyrir aftan. Liðið fékk aðeins þrjú mörk á sig í 7 leikjum í Lengjubikarnum sem er frábær árangur. Leikmannahópurinn er nánast sá sami og í fyrra sem á eftir að reynast þeim vel í sumar.

Veikleikar: Það er erfitt í fljótu bragði að sjá veikleikana í liði Gróttu. Liðið er reynslumikið og skoraði mikið í Lengjubikarnum. Samt sem áður vantar liðinu annan eiginlegan markaskorara fyrir utan Brynjólf Bjarnason. Gæti orðið slæmt ef hann lendir í meiðslum.

Þjálfari: Ásmundur Haraldsson hefur verið lengi með liðið og hann setur markið hátt. Í haust gæti allt erfiðið undanfarinna ára skilað sér en til þess að það gerist þarf liðið að sýna stöðugleika í sumar.

Lykilmenn: Kristján Finnbogason, Siguvin Ólafsson og Sölvi Davíðsson.

Komnir: Ari Elísson frá Fram, Árni Ingi Pjetursson frá ÍA, Edilon Hreinsson frá Haukum, Kristján Finnbogason frá KR, Óli Andri Hermannsson frá Fram, Pétur Már Harðarson frá KR.

Farnir: Grétar Ali Khan í Víking R., Grétar Brynjólfsson í Þrótt, Rúnar Nielsen í KV, Ögmundur Rúnarsson til Svíþjóðar.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. Grótta 229 stig
2. Njarðvík 226 stig
3. Hvöt 175 stig
4. Reynir Sandgerði 169 stig
5. Víðir Garði 150 stig
6. Tindastóll 127 stig
7. Höttur 126 stig
8. Magni 100 stig
9. KS/Leiftur 85 stig
10. BÍ/Bolungarvík 83 stig
11. ÍH/HV 63 stig
12. Hamar 51 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner