Phillips, Toney, Guirassy, Vlahovic, Thuram, Mbappe og fleiri koma við sögu.
   mið 13. maí 2009 07:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 4. sæti
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M Einarsson
watermark
Mynd: Vilbogi M. Einarsson
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Jón Örvar Arason
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í fjórða sæti í þessari spá var Reynir Sandgerði sem fékk 169 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Reyni.


4. Reynir
Búningar: Hvít treyja, bláar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.reynir.is

Liði Reynis er spáð 4. sæti af fyrirliðum og þjálfurum deildarinnar en sú spá er væntanlega byggð á þeim leikmannahópi sem félagið hefur yfir að ráða frekar en árangri og spilamennsku á undirbúningstímabilinu. Nýr þjálfari er í brúnni hjá Reyni en það er hinn gamalreyndi refur Kristófer Sigurgeirsson en hann tók við liðinu síðasta haust af Elvari Grétarssyni sem stýrði liðinu tímabundið á síðustu leiktíð.

Síðasta tímabil voru ákveðin vonbrigði hjá Reyni en liðið féll úr 1. deildinni 2007. Liðinu gekk illa að ráða þjálfara og réðu á endanum Bryngeir Torfason. Sú ákvörðun átti eftir að reynast slæm og illa gekk hjá liðinu. Nú vonast Reynismenn til að ráðning Kristófers Sigurgeirssonar verði skref í rétta átt og vonandi fyrir þá til frambúðar. Kristófer tekur við ágætis búi þannig séð en hans verk er að skapa góða liðsheild úr þeim mannskap sem fyrir er í Sandgerði.

Einhverjar mannabreytingar eru á liðinu frá því á síðustu leiktíð en nokkrir eru horfnir á braut. Darko Milojkovic sem lék stórt hlutverk á síðustu leiktíð hélt til Serbíu og mun ekki leika með liðinu í sumar.. Þá er Sigurður Donys Sigurðsson genginn í raðir Fjarðabyggðar. Til að styrkja liðið fyrir komandi sumar fór Kristófer um víðan völl í vetur.

Sinisa Valdimar Kekic mun leika með liðinu í sumar en Kekic þarfnast ekki frekari kynningar. Kristján Óli Sigurðsson kemur frá Selfossi en hann lék vel með Sunnlendingum á síðustu leiktíð. Kristófer sjálfur hefur fengið félagaskipti og líklegt er að hann leiki eitthvað með liðinu í sumar. Þá hefur Ólafur Þór Berry gengið aftur í raðir félagsins en hann lék síðast með liðinu 2006.

Undirbúningstímabilið hefur gengið frekar brösuglega hjá Reynismönnum. Liðið byrjaði afar illa í Lengjubikarnum og tapaði fyrstu þremur leikjunum. Slæmt tap gegn Hvöt í fyrsta leik gaf tóninn því liðið tapaði Berserkjum og Reyni í kjölfarið. Liðið vann sig til baka með því að leggja Hamar að velli en fékk svo agalegan skell þegar liðið tapaði fyrir KR 9-1 í minningarleik um Magnús Þórðarson heitinn. Tapið kom á vondum tíma þar sem liðið virtist vera á ágætis siglingu fram að því. Mannskapurinn er til staðar og ef Kristófer nær að þétta liðið og búa til öfluga liðsheild eru þeim allir vegir færir.

Styrkleikar: Leikmannahópur liðsins er einn sá allra sterkasti í deildinni. Liðið hefur haldið nokkurn veginn þeim leikmannahópi sem var á síðustu leiktíð og hafa bætt við sig öflugum leikmönnum. Ef hægt er að búa til öfluga liðsheild úr þeim hópi sem er til staðar er ljóst að Reynisliðið gæti orðið ansi öflugt í sumar. Heimavöllur liðsins er öflugur þar sem Hvíti Herinn ræður ríkjum.

Veikleikar: Varnarleikur liðsins virkar ansi ótraustur og hefur verið það mest megnis í vetur. Kristófer þarf að þétta varnarleik liðsins ætli liðið sér að vera í efri hlutanum í sumar.

Þjálfari: Kristófer Sigurgeirsson hefur verið aðstoðarmaður Ásmundar Arnarssonar undanfarin ár en tekur nú við stjórnartaumunum einn sins liðs. Er reynslumikill leikmaður og lék á árum áður með Fram, Breiðablik og einnig sem atvinnumaður í Grikklandi.

Lykilmenn: Sinisa Kekic, Guðmundur Gísli Gunnarsson og Hafsteinn Ingvar Rúnarsson.

Komnir: Aleston Raimundo Gomes Brito frá Grænhöfðaeyjum, Anton Ingi Sigurðsson frá FH, Hafsteinn Ingvar Rúnarsson frá Keflavík, Hjörvar Hermannsson frá Hvöt, Kristján Óli Sigurðsson frá Selfyssingum, Ólafur Þór Berry frá Þrótti, Sigurður Ingi Vilhjálmsson frá KFS, Sinisa Valdimar Kekic frá HK.

Farnir: Alexander Hafþórsson í Aftureldingu, Darko Milojkovic til Serbíu, Garðar Eðvaldsson í Víking Ó, Milos Misic til Bosníu/Herzegóvínu, Páll Guðmundsson í Grindavík, Sigurður Donys Sigurðsson í Fjarðabyggð, Þorfinnur Gunnlaugsson í Grindavík.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. Reynir Sandgerði 169 stig
5. Víðir Garði 150 stig
6. Tindastóll 127 stig
7. Höttur 126 stig
8. Magni 100 stig
9. KS/Leiftur 85 stig
10. BÍ/Bolungarvík 83 stig
11. ÍH/HV 63 stig
12. Hamar 51 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner