Kane, Rashford, Osimhen, Guehi og Alonso eru meðal þeirra sem koma við sögu í slúðrinu
   fim 14. maí 2009 11:32
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 3. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M. Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M. Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hanna Símonardóttir
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í þriðja sæti í þessari spá var Hvöt sem fékk 175 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Hvöt.


3. Hvöt
Búningar: Hvít treyja, rauðar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.hvotfc.is

Hvöt frá Blönduósi er spáð góðu gengi í ár og skyldi engan undra. Liðið hafnaði í 4. sæti deildarinnar í fyrra eftir frábæran endasprett undir stjórn hins kyngilmagnaða Páls Einarssonar. Hann tók við þjálfun liðsins af Kristjáni Óla Sigurðssyni sem hafði ekki gert miklar rósir og blés nýju lífi í liðið. Þegar uppi var staðið munaði aðeins fjórum stigum á Hvöt og Aftureldingu sem komst upp í 1. deild.

Páll var aðeins ráðinn tímabundið og því þurfti Hvöt að leita sér að nýjum þjálfara. Eftir töluverða leit réð liðið Jens Elvar Sævarsson sem þjálfara. Jens er 29 ára gamall en hann lék með Hvöt sem lánsmaður á síðustu leiktíð en er uppalinn hjá Þrótti. Hann hefur einnig leikið með Fylki og Fjarðabyggð á undanförnum árum. Jens hefur enga reynslu af þjálfun meistaraflokks eins og gefur að skilja en hann hefur komið að þjálfun yngri flokka hjá Þrótti. Hann fær krefjandi verkefni að fara með Hvöt í toppbaráttuna í deildinni en metnaður félagsins er mjög mikill.

Jens hefur verið duglegur við að sækja nýja leikmenn til liðsins og hefur náð í heilu bílfarmana af leikmönnum. Það tæki nokkra daga að fara yfir allan þann fjölda sem genginn er í raðir félagsins og því verður aðeins stiklað á stóru. Jens hefur náð í fjóra unga stráka úr Þrótti til að styrkja sína sveit fyrir komandi tímabil en þetta eru þeir Egill Björnsson, Brynjar Guðjónsson, Kristinn Steinar Kristinsson og Vignir Örn Guðmundsson. Nú rétt fyrir mót gekk Jón Björgvin Hermannsson frá félagaskiptum og verður hann gífurlegur styrkur. Jón á leiki að baki með Fylki og Víkingi í efstu deild og mun hann eins og áður segir styrkja liðið gífurlega í þeirri harðri baráttu sem framundan er í sumar. Halldór Fannar Halldórsson kemur frá ÍH en hann er öflugur leikmaður sem hefur látið lítið fyrir sér fara á undanförnum árum. Hann lék á sínum tíma með Fjölni við ágætan orðstýr.

En það er ástæða fyrir því að Hvöt hefur þurft að sækja marga leikmenn fyrir komandi tímabil þar sem liðið hefur misst stóran hluta á leikmannahópi liðsins. Calum Bett sem var á láni á síðustu leiktíð sneri aftur til HK. Mirnes Smajlovic sem var helsti markaskorari liðsins snýr ekki aftur en hann gerði 10 mörk í 16 leikjum í fyrra. Annar öflugur sóknarmaður, Bjarni Pálmason er genginn í raðir KA og þá gekk Ragnar Heimir Gunnarsson í raðir Fjölnis. Þetta er aðeins brot af þeim leikmönnum sem hvarf á braut og það eru því miklar breytingar á liði Hvatar í sumar.

Hvöt hefur leikið afar vel á undirbúningstímabilinu og unnu meðal annars riðilinn sinn í Lengjubikarnum nokkuð örugglega. Liðið geislaði af sjálfstrausti og sýndu oft á tíðum lipra takta. Liðið beið svo lægri hlut gegn Gróttu í undanúrslitum, 2-0. Í Lengjubikarnum fór Hjörvar Hermannsson mikinn og skoraði 5 mörk í 5 leikjum en rétt fyrir mót ákvað hann að söðla um og ganga í raðir Reynis. Mikil blóðtaka fyrir Hvöt þar sem liðið er búið að missa tvo helstu sóknarmenn liðsins frá því í fyrra. En eins manns dauði er annars brauð og það verða nýjir markakóngar hjá Hvöt í sumar sem fá tækifæri til að blómstra og láta ljós sitt skína.

Styrkleikar: Karakterinn í liði Hvatar er engum líkur og þeir sýndu það á síðustu leiktíð. Eftir arfadapra byrjun þá rifu þeir sig upp og spiluðu sem englar það sem eftir lifði móts. Heimavöllur liðsins er sterkur og þá býr liðið vel að því að hafa ennþá nokkra heimamenn innan sinna raða sem hafa leikið lengi með liðinu.

Veikleikar: Leikmannahópurinn kemur úr öllum áttum og miklar breytingar hafa átt sér stað á milli ára. Slíkt rót er aldrei gott en því miður nauðsynlegt. Gæti orðið vandi að búa til öfluga liðsheild í sumar.

Þjálfari: Jens Elvar Sævarsson. Hans fyrsta verkefni sem þjálfari og það mun mikið mæða á honum. Hann á 45 leiki að baki með Þrótti og Fylki í efstu deild. Nýtur aðstoðar bróður sins, Hans Sævarssonar í sumar.

Lykilmenn: Jens Elvar Sævarsson, Gissur Jónasson og Nezir Ohran

Komnir: Andri Már Óttarsson frá Fylki, Eyjólfur Fannar Eyjólfsson frá ÍR, Halldór Fannar Halldórsson frá ÍH, Halldór Ingi Skarphéðinsson frá Færeyjum, Jón Björgvin Hermannsson frá Víkingi R., Egill Björnsson frá Þrótti, Brynjar Guðjónsson frá Þrótti, Kristinn Steinar Kristinsson frá Þrótti, Jónas Guðmannsson frá Aftureldingu, Muamer Sadikovic frá Bosníu/Herzegóvínu, Orri Rúnarsson frá KS/Leiftri, Sigurður Heiðar Baldursson frá ÍH, Sverrir Rafn Sigmundsson frá Fylki, Valur Ingi Johansen frá Fylki, Vignir Örn Guðmundsson frá Þrótti

Farnir: Ágúst Þór Ágústsson í Fjölni, Bjarni Pálmason í KA, Calum Þór Bett í HK, Guðmundur Kristinn Vilbergsson í Tindastól, Hjörvar Hermannsson í Reyni S., Mirnes Smajlovic til Bosníu/Herzegóvínu, Ragnar Heimir Gunnarsson í Fjölni, Sigurjón Jónsson í Augnablik, Sigmar Ingi Sigurðarson í Breiðablik, Trausti Eiríksson í Þrótt.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. Hvöt 175 stig
4. Reynir Sandgerði 169 stig
5. Víðir Garði 150 stig
6. Tindastóll 127 stig
7. Höttur 126 stig
8. Magni 100 stig
9. KS/Leiftur 85 stig
10. BÍ/Bolungarvík 83 stig
11. ÍH/HV 63 stig
12. Hamar 51 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner