Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   mán 31. júlí 2017 19:57
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Uppboð til styrktar Darra - Hæsta boð í skóna 75 þúsund
Uppboðið í skóna lýkur kl. 21:59
Darri Magnússon.
Darri Magnússon.
Mynd: Aðsend
Árituð keppnistreyja Gylfa Þórs Sigurðssonar, sem hann notaði í leik með Swansea í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, var á uppboði á styrktarkvöldi fyrir Darra Magnússon og fjölskyldu hans.

Treyjan fór á 201 þúsund krónur, en það munaði sekúndum á milli síðustu boða.

Aron Jóhannsson, leikmaður Werder Bremen, hefur einnig ákveðið að láta ekki sitt eftir liggja. Hann gaf Nike-keppnisskó sína, sem eru ónotaðir í söfnun fyrir Darra, en skórnir voru með í för á meðan hann keppti með Bandaríkjunum á HM í Brasilíu 2014 og eru sérmerktir JOHANNSSON. Uppboðinu í skóna lýkur klukkan 21:59 í kvöld!

Hæsta boð í skóna er núna 75 þúsund krónur.

Smelltu hér til að fara á Facebook-síðu styrkarkvöldsins og bjóða í treyjuna og takkaskóna.

Darri, sem er aðeins 18 mánaða gamall, glímir við bráðahvítblæði í mergfrumum (AML hvítblæði), en afar sjaldgæft er að börn greinist með þessa tegund hvítblæðis. Meðal einkenna eru æxli sem myndast á höfði og í andliti. Sjúkdómurinn hefur reynt mikið á Darra, en hann hefur varið meirihluta þessa árs í einangrun á spítala.

Fjölskylda hans skiptir tíma sínum milli sín á spítalanum, sem hefur haft í för með sér tilheyrandi tekjutap sem kemur sér illa þegar svo illvígur sjúkdómur á í hlut.

Faðir Darra, Magnús Reynisson, fagnar 20 ára útskriftarafmæli úr Foldaskóla á þessu ári. Gamlir skólafélagar hans ákváðu því að nýta tækifærið, í stað þess að halda hefðbundna skemmtun fyrir árganginn, þá var ákveðið að halda skemmtikvöld í Grafarvogi þar sem allir voru velkomnir. Haldið var happdrætti með glæsilegum vinningum, en auk þess voru veitingar á hagstæðu verði. Allur ágóði happdrættisins og veitingasölunnar rann til Darra og fjölskyldu hans.

Fyrir þau sem vilja styðja við Darra og fjölskyldu hans, en áttu ekki heimangegnt á föstudag, er rétt að minna á styrktarreikning:
0536-26-8389, kt. 130384-8389.

Öll framlög, stór sem smá, eru vel þegin.
Frekari upplýsingar veitir Valgarður Finnbogason, skipuleggjandi, í síma 822 9230.
Athugasemdir
banner
banner