Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 07. júlí 2019 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Sampdoria kaupir Jankto og selur Andersen (Staðfest)
Andersen er farinn til Lyon.
Andersen er farinn til Lyon.
Mynd: Getty Images
Búið að ganga frá kaupum á Jankto.
Búið að ganga frá kaupum á Jankto.
Mynd: Getty Images
Massimo Ferrero forseti Sampdoria staðfesti í gærkvöldi að danski varnarmaðurinn Joachim Andersen er farinn til Lyon fyrir 30 milljónir punda.

Andersen var eftirsóttur af ýmsum stórliðum og var ofarlega á blaði hjá Arsenal. Kaupverðið var þó of hátt.

Lyon er með sterkan leikmannahóp og endaði í 3. sæti frönsku deildarinnar í fyrra. Liðið vann Manchester City á Etihad leikvanginum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og eru leikmenn á borð við Nabil Fekir og Memphis Depay hjá félaginu.

Andersen er þó ekki eini varnarmaðurinn sem Lyon var að krækja í því Youssouf Koné kom á dögunum frá Lille fyrir 9 milljónir evra. Miðjumaðurinn Thiago Mendes gekk einnig í raðir félagsins fyrir 25 milljónir.

Sampdoria var þá að staðfesta komu Jakub Jankto frá Udinese. Jankto er tékkneskur miðjumaður sem hefur gert góða hluti í ítalska boltanum.

Hann stóð sig vel að láni hjá Sampdoria á síðustu leiktíð og ákvað félagið að nýta kaupréttinn sem hljóðaði upp á 15 milljónir evra.

Þá er varnarmaðurinn Alex Ferrari einnig kominn frá Bologna. Hann var einnig hjá Sampdoria að láni á síðustu leiktíð en fékk lítinn spiltíma.

Ferrari er 25 ára gamall og kostar 5 milljónir evra. Hann á 8 leiki að baki fyrir yngri landslið Ítalíu.

Samp endaði í níunda sæti Serie A deildarinnar en var lengst af í Evrópudeildarbaráttu. Marco Giampaolo, þjálfari liðsins, er tekinn við AC Milan og hefur Eusebio Di Francesco verið ráðinn í staðinn.
Athugasemdir
banner
banner