Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 08. maí 2020 20:14
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Beggi Ólafs: Erfiðasta sem ég hef gert í langan tíma
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik á síðustu leiktíð.
Í leik á síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fagnað árið 2013.
Fagnað árið 2013.
Mynd: Björn Ingvarsson
Bergsveinn í leik gegn ÍBV sumarið 2011.
Bergsveinn í leik gegn ÍBV sumarið 2011.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bergsveinn Ólafsson, fyrirliði Fjölnis, tilkynnti i kvöld að hann væri hættur í fótbolta. Bergsveinn er 27 ára gamall varnarmaður sem hefur leikið 100 leiki í efstu deild.

Sjá einnig:
Bergsveinn Ólafsson leggur skóna á hilluna (Staðfest)

Bergsveinn hefur leikið með Fjölni og FH á sínum ferli og var sumarið 2016 Íslandsmeistari með Fimleikafélaginu. Fótbolti.net hafði samband við Bergsvein í kjölfar tilkynningarinnar og spurði hann nánar út í ákvörðunina.

Hluti af einkenni manns
„Þessi tilfinning hefur blundað í mér lengi. Ég hef ekki áttað mig á henni eða þorað að viðurkennna hana fyrir sjálfum mér fyrr en núna," sagði Bergsveinn við Fótbolta.net

„Fyrsta sem maður segir er að maður heitir Beggi og maður er knattspyrnumaður, þetta er í 'identity-inu' manns og maður kannski hræddur við að fara í þessa hugsun. Það voru svolítið margar vísbendingar sem gáfu til kynna að áhuginn og ástríðan fyrir boltanum var löngu farin."

„Ég taldi það óheiðarlegt gagnvart sjálfum mér, strákunum, félaginu og öllum í kringum mig að ég væri til staðar og ekki að gera hlutina 100%. Ástríðan er farin á önnur svið lífsins og sú ástríða gerir meira fyrir mig á þessum tímapunkti. Það hefur verið að banka í mig að ég eigi að sinna þeim sviðum betur."


Meiri tilgangur í því að vera leiðtogi
Hafði komið sá tímapunktur áður hjá Begga að hann íhugaði að hætta og snúa sér að öðru?

„Maður brann fyrir fótbolta öll þessi ár og sérstaklega þegar maður tók skrefið úr Fjölni í FH. Þá fór þessi gífurlegi tilgangur sem maður stefndi alltaf að - að vera kannski atvinnumaður í 8-10 ár. Þá hafði maður þessa extra ástríðu og þennan extra tilgang í fótboltanum. Á þeim tíma var maður tilbúinn að fórna öllu fyrir boltann."

„Svo kom erfitt ár og í fyrra fann ég ákveðin tilgang í því að vera leiðtogi í Fjölni en það var aldrei jafn mikill tilgangur og ég fann áður. Ég fann þar að ég finn meiri tilgang í því að vera leiðtogi heldur en fótboltamaður."

„Ákvörðunin var auðveld fyrir mig en erfið í ljósi þess hversu mikil vonbrigði strákarnir og allir í kringum félagið upplifa."

„Tilfinningin (um að vilja hætta) hefur verið til staðar í lengri tíma en maður hefur reynt að selja sér það að maður eigi að vera í þessu áfram og nú er þetta útkoman. Ég verð að vera heiðarlegur við sjálfan mig, ég verð að labba það eftir sem ég talaði um dags daglega þegar kemur að því að hjálpa fólki í lífinu."


Erfið samtöl við fólk sem honum þykir vænt um
Hvernig voru samskipti við Fjölni í kringum þessa ákvörðun?

„Ég hóa þjálfarana á fund fyrir æfingu í gær og í kjölfarið ræddi ég við stjórnina. Ég ætlaði að tala við leikmennina þar á eftir en við geymdum það aðeins."

„Ég segi á þessum fundi, eins og þruma úr heiðskíru lofti, að ég sé hættur. Auðvitað reyndu þeir að tala þessa ákvörðun til baka og auðvitað kom þeim þetta á óvart. Ég ákvað að taka þessi erfiðu samtal og þetta er það erfiðasta sem ég hef gert í langan tíma, að tilkynna þessu fólki sem mér þykir svo vænt um þessa ákvörðun mína."


Ekki gaman í fótbolta lengur
Kom til greina að færa fótboltann meira í annað sætið og spila jafnvel áfram í neðri deildum Íslands?

„Nei, það kom aldrei til greina. Fótbolti, eins skrítið og það hljómar, þá finnst mér ekki gaman í fótbolta lengur. Ég hef ekki áhuga á fótbolta lengur. Ég kem hreint út fram þegar ég segi það. Ástríðan er ekki lengur til staðar."

Ætlar að nýta þekkingu sína
Kemur til greina að nýta þekkinguna sem Bergsveinn býr yfir til að aðstoða félög og jafnvel leikmenn í framtíðinni?

„Já, alveg hiklaust. Þar finn ég mína ástríðu - í því bæði að hjálpa einstaklingum og stærri hópum með fyrirlestrum og námskeiðum. Það er eitthvað sem brenn fyrir."

„100% mín eigin ákvörðun"
Var einhver einn aðili sem aðstoðaði Bergsvein með ákvörðunina meira en aðrir?

„Nei, ég ræddi þetta auðvitað við mitt nánasta fólk og veltir þessu aðeins fyrir sér. Ég er með það gott fólk í kringum mig að það hlustar á mig og leyfir mér að taka mínar ákvarðanir á mínum forsendum. Ég er með gott bakland og gott fólk sem hjálpaði mér og hlustaði á mig."

„Að lokum var þessi ákvörðun 100% mín eigin ákvörðun."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner