Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 16. maí 2020 17:21
Ívan Guðjón Baldursson
Anna Björk í Selfoss (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Selfoss er búið að ganga frá samningi við varnarjaxlinn Önnu Björk Kristjánsdóttur. Hún gengur í raðir félagsins eftir að hafa leikið fyrir PSV Eindhoven í toppbaráttu hollensku deildarinnar undanfarið ár.

Anna Björk gerði garðinn frægan með Stjörnunni og íslenska landsliðinu áður en hún hélt erlendis. Hún lék fyrir Örebro og Bunkeflo og skipti svo yfir til PSV.

Hjá Selfossi gengur Anna Björk til liðs við stöllur sínar úr landsliðinu þær Hólmfríði Magnúsdóttur og Dagnýju Brynjarsdóttur.

„Um leið og ég fór að tala við þjálfarana og fólkið í kringum liðið á Selfossi þá heyrði ég hvað það er mikill metnaður hérna og það heillaði mig. Það tala allir vel um Selfoss og það eru skýr markmið og mikill uppgangur hjá liðinu," sagði Anna Björk við undirritunina.

„Síðan ég fór erlendis að spila hef ég alltaf fylgst vel með Pepsi Max deildinni og veit hvað er í gangi hérna þannig að ég er mjög spennt að spila aftur á Íslandi. Um leið og það kom í ljós að ég væri ekki að fara út aftur þá er ég búin að telja niður mínúturnar að komast aftur út á völlinn. Um leið og maður fer af stað aftur finnur maður hvað fótboltinn hefur mikla þýðingu fyrir mann. Það er mikill hugur í mér og ég hlakka til að taka slaginn hérna á Selfossi.“

Selfoss vann Mjólkurbikarinn í fyrra og mun Anna Björk reynast mikill liðsstyrkur.

Anna Björk er þrítugur miðvörður með 43 A-landsleiki að baki.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner