Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 21. júní 2019 09:30
Arnar Daði Arnarsson
Álitsgjafar svara - Á Cloé heima í íslenska landsliðinu?
Cloé Lacasse er komin með íslenskan ríkisborgararétt.
Cloé Lacasse er komin með íslenskan ríkisborgararétt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helena Ólafsdóttir er ein af álitsgjöfunum.
Helena Ólafsdóttir er ein af álitsgjöfunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rakel Logadóttir.
Rakel Logadóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Cloé Lacasse leikmaður ÍBV í Pepsi Max-deild kvenna fékk á dögunum íslenskan ríkisborgararétt en Cloé er fædd árið 1993 í Kanada. Hún hefur leikið með ÍBV síðustu fimm tímabil og skorað 59 mörk í 86 leikjum.

Fótbolti.net fékk nokkra álitsgjafa til að svara þeirri spurningu hvort Cloé Lacasse eigi heima í íslenska landsliðinu.

Sjá einnig:
Cloé Lacasse komin með íslenskan ríkisborgararétt (Staðfest)
Jón Þór: Cloé kemur að sjálfsögðu til greina í landsliðið
Freysi: Cloé myndi klárlega koma til greina í landsliðið
Cloé um íslenskan ríkisborgararétt: Yrði heiður að fá tækifæri

Jóhann Kristinn Gunnarsson, Sérfræðingur Fótbolta.net:

Ég held að það sé engin spurning að Cloé Lacasse bætir spennandi valkost á blaðið hjá þjálfurum landsliðsins. Fáir vita það líklega betur en Jeffsie svo það er auðvitað ekkert mál að treysta honum varðandi ákvörðunina um að kalla hana á æfingar.

Hún hefur klárlega gæði, áræðni og drifkraft sem gæti vel átt heima í landsliðinu. Svo er bara spurning hvort og hvernig hún passar inn í rútíneraðan leik í landsliðsklassa. Ég trúi því að svo sé en það er ekkert sjálfgefið.

Helena Ólafsdóttir - Þáttastjórnandi Pepsi Max markanna:

Ég tel að það sé engin spurning að íslenska kvennalandsliðið geti notað leikmann eins og Cloé Lacasse. Cloé hefur verið hér í fjögur ár og spilað virkilega stórt hlutverk hjá liði ÍBV og verið í raun algjör lykilmaður í sóknarleik liðsins og skorað mikið af mörkum.

Cloé er fjölhæf að því leiti að hún getur spilað á báðum köntum og jafnvel í holunni og er mjög fljót og góð að keyra á varnir andstæðingana með boltann á tánum og missir um leið ekki hraðann. Klárlega hlutir sem kvennalandsliðið getur nýtt sér.

Ég held að Jón Þór muni pottþétt taka hana inn í hópinn ef hún spilar eins vel og hún hefur gert núna í upphafi mótsin. Þá erum við líka komin með meiri breidd fram á við sem er bara gott fyrir liðið.

Bjarni Helgason - Morgunblaðið:

Að sjálfsögðu á Cloé Lacasse heima í landsliðinu og það væri í raun galið að velja hana ekki í landsliðið. Cloé hefur verið besti leikmaður úrvalsdeildar kvenna, undanfarin ár, og borið þetta ÍBV lið algjörlega á herðum sér. Hún getur spilað allar stöður, fremst á vellinum, og eins og staðan er í dag er enginn byrjunarliðsmaður í landsliðinu betri en hún. Hún er gríðarlega fljót, sterk og góð að klára færin sín og hún er akkúrat leikmaðurinn sem landsliðið hefur vantað. Það hefur ekki verið afgerandi leikmaður í íslenska kvennalandsliðinu síðan Margrét Lára Viðarsdóttir var upp á sitt allra besta en Cloé hefur alla burði til þess að verða algjör yfirburðarleikmaður í kvennalandsliðinu.

Orri Rafn Sigurðarson - Fótbolti.net:

Það yrði mikill fengur fyrir íslenska kvennalandsliðið að fá Cloe Lacasse inn í hópinn. Cloe býr yfir þeim eiginleika að geta unnið leiki upp á sitt einsdæmi og getur sprengt upp leiki þegar lið hennar þurfa mest á því að halda. Hún skapar mikið af færum sem og skorar mörk. Hún býr yfir miklum hraða og á auðvelt með að fara framhjá varnarmönnum. Fyrir mér er það engin spurning að nú þegar hún er komin með íslenskan ríkisborgararétt að þá á hún að vera valin í landslipshópinn enda hefur hún verið einn af bestu ef ekki besti leikmaður efstu deildar síðustu ár og eiginlega ótrúlegt hún skuli ekki vera spila í stærstu deildum Evrópu þar sem hún færi létt með það.

Mist Rúnarsdóttir - Heimavöllurinn:

Cloé hefur að mínu mati verið einn besti leikmaður efstu deildar frá sumrinu 2015 þegar hún spilaði fyrst með ÍBV. Hún hefur verið algjör lykilmaður í eyjum og tölfræðin hennar talar sínu máli en hún hefur skorað 59 mörk í 86 leikjum. Hún er ótrúlega hröð, áræðin og útsjónarsöm og ég er viss um að hún geti styrkt íslenska liðið. Ég vona innilega að hún fái tækifæri til þess.

Jóhann Ingi Hafþórsson - Morgunblaðið:

Cloé Lacasse á alltaf heima í þessu landsliði ef möguleiki er á að velja hana. Hún virðist sjálf hafa mikinn áhuga á að spila fyrir liðið og það er engin spurning um að hún muni styrkja íslenska landsliðið. Hún er bæði gríðarlega góð innan vallar og svo skemmtileg utan vallar. Hún myndi eflaust smellpassa í þetta landslið og koma með mikilvæg mörk og stoðsendingar. Hún hefur verið fáránlega góð með ÍBV og verður eflaust enn betri með betri liðsfélaga í kringum sig.

Agla María er oft í byrjunarliðinu í þessu landsliði og Lacasse er ekki ósvipaður leikmaður og alls ekki verri leikmaður.

Rakel Logadóttir - Aðstoðarþjálfari HK/Víkings:

Að mínu mati á hún heima þar. Hún hefur getuna amk. svo er bara spurning með samkeppnina. Ef hún er að gera betur í að skora og leggja upp en aðrar í framherja stöðunum þá á hún klárlega heima þarna. Þannig að mínu mati já.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner