lau 25. apríl 2020 18:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Adam: Við Böddi og Árni gætum skrifað bók um þvæluna í Póllandi
Mynd: Adam Örn Arnarson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Adam Örn Arnarson
Mynd: Adam Örn Arnarson
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Adam Örn Arnarson var kominn út í kuldann hjá pólska félaginu Gornik Zabrze þegar Fótbolti.net hafði samband við hann í október. Frá þeim tímapunkti lék Adam ekki mínútu með aðalliði félagsins og í febrúar var Adam búinn að finna sér nýtt félag og samdi við norska félagið Tromsö sem leikur í næstefstu deild.

Fótbolti.net ákvað að heyra í hægri bakverðinum og spyrja hann út í þróun mála. Í október sagði Adam frá samskiptaörðugleikum vegna tungumálsins og var hann spurður hvernig viðskilnaðurinn hafði verið.

Óskiljanlegir hlutir í gangi
Gengi Gornik var langt í frá frábært en sama hvað gerðist þá var Adam á bekknum eða jafnvel utan hóps. Síðasti leikurinn sem Adam spilaði var 6-0 sigur í bikarkeppninni í september. Hvernig voru þessir síðustu mánuðir hjá pólska félaginu?

„Satt að segja þá skildi ég ekkert hvað var í gangi þarna með mína stöðu. Þetta var orðið það fáránlegt að við vorum byrjaðir að grínast með þetta í klefanum, það var líklegra að liðstjórinn byrjaði í hægri bakverði en ég. Ég spilaði einmitt í bikarnum í 6-0 sigri á móti neðrideildarliði og gerði það mjög vel," sagði Adam við Fótbolta.net.

„Liðið vann ekki í tólf leikjum í röð en þjálfarinn gerði enga breytingu, nema í einum leik þar sem hægri bakvörðurinn var í banni en hann ákvað að henda inn stórum varnarsinnuðum miðjumanni í hægri bakvörðinn, í rauninni eins og að henda Fellaini í hægri bak, eftir það þá vissi ég að ég þurfti að fara sama hvað."

Túlknum hent út og engum spurningum svarað - Náði að halda haus
„Ég er ekki nógu sáttur með mína stöðu hérna í klúbbnum. Þar sem allir 3 þjálfararnir tala líka enga ensku þá er erfitt fyrir mig að tjá mig við þá og þeir við mig," sagði Adam við Fótbolta.net í október. Hvernig voru samskiptin við þjálfarann þegar Adam vildi losna frá félaginu?

„Ég náði að tala við þjálfarann einn daginn þegar hann ákvað að velja mig ekki í hóp. Hann talaði ekki ensku og átti styrktarþjálfarinn að vera túlkur í samtalinu. Það fyrsta sem gerist er að þjálfarinn sendir styrktarþjálfarann út og byrjar að tala á pólsku og ég næ engu samhengi í það sem hann er að segja við mig."

„Satt að segja er ég mjög stoltur af því hvernig ég höndlaði þetta allt saman í Póllandi. Það var ekki komið vel fram við mig af þjálfurunum, og ég þurfti að höndla alls konar 'fíaskó' þarna í hverri viku."

„Það er ekki létt að vita að maður er að gera vel á æfingum og varaliðsleikjum en vita að sama hvernig maður stendur sig þá verður maður ekki í liðinu, viku eftir viku hlusta á stuðningsmenn og fólk sem vinnur í félaginu spyrja mig af hverju ég fái ekki að spila og hvað sé að þjálfaranum."

„Meira að segja yfirmaður knattspyrnumála og tveir leikmenn töluðu við þjálfarann um að spila mér en fengu engin svör við því af hverju ég væri ekki að spila. Samt náði ég að halda haus og einbeita mér að því að bæta sjálfan mig."

„Við Böddi (Böðvar Böðvarsson) og Árni Vill (Árni Vilhjálmsson) gætum skrifað alvöru bók um þvælu í Póllandi."


Félagið vildi fyrst fá greitt fyrir Adam
Hvernig var fyrir Adam að fá sig lausan frá Gornik?

„Fyrst ætlaði félagið að reyna að fá pening fyrir mig sem 'meikaði ekkert sense' þar sem það var búið að vera með mig í frystinum í dágóðan tíma. Umboðsmaðurinn minn þurfti að eiga nokkrar rökræður við menn þarna til þess að fá þetta almennilega í gegn."

Voru mörg lið sem sýndu áhuga?

„Ég fékk tilboð frá liðum í efstu deild í Rúmeníu og Króatíu mjög snemma en neitaði þeim báðum þar sem mig langaði meira að finna mér eitthvað á Norðurlöndunum eftir þvæluna í Póllandi."

Fyrsta æfingin draumur eftir tímann í Póllandi
Hvenær kom Tromsö inn í myndina?

„Ég heyrði af áhuga frá liðum hér og þar en svo kom Tromsö inn í þetta af alvöru krafti og sýndi mikinn áhuga. Þeir höfðu séð mig spila mikið með Álasundi og vissu hvernig leikmaður ég er og það hjálpaði mér mikið að taka ákvörðun að vita hvernig fótbolta þeir vilja spila. Fyrsta æfingin mín var draumur eftir það sem ég hafði upplifað á æfingum í Póllandi."

Var aldrei spurning um að skoða aðra möguleika eða var Tromsö strax ákjósanlegur áfangastaður?

„Ég vissi það strax á fyrstu æfingunni að mig langaði að skrifa undir hjá Tromsö, hvernig liðið spilaði og hvernig þjálfarinn var. Þeir vildu einmitt fá mig í viku til þess að æfa vegna þess að ég var ekki búinn að spila almennilegan fótboltaleik í hálft ár og gekk sú vika mjög vel."

„Það var létt að falla inn í hópinn þar sem ég tala norsku og það skemmdi ekki fyrir að leggja upp mark á móti Viking Stavanger í æfingaleik. Ég hefði getað beðið lengur og séð hvort eitthvað annað myndi koma upp en mér leist það vel á Tromsö og var það 'desperate' að losna frá Górnik að þetta small vel saman."


Sérstök byrjun en skilur félagið vel
Heimsfaraldurinn var að ná miklum styrk um það leyti og Adam var að skrifa undir hjá Tromsö. Stuttu eftir undriskrift sögðu norsk félög upp samningum sínum við leikmenn. Hvernig var þróunin varðandi samning Adams?

„Byrjunin í Tromsö er einmitt búin að vera mjög sérstök. Viku eftir að ég kom til Tromsö þá var allt stöðvað. Öllum leikmönnum var ''sagt upp'' tímabundið eins og í flestum félögum í Noregi og það var ekkert öðruvísi með mig þó ég hafi skrifað undir samning aðeins einni viku áður."

„Eins og er þá fáum við 62% borgað frá ríkinu á mánuði þangað til félagið fær að vita hvenær tímabilið byrjar og við getum byrjað að æfa venjulega með stefnu fyrir mót. Þetta er auðvitað ekki eitthvað sem maður er ánægður með en ég skil félagið 100% að gera þetta til þess að halda sér gangandi almennilega."


Var gott að hafa náð að semja áður en faraldurinn var orðinn þetta öflugur? Hefði verið vesen að vera án liðs?

„Fyrir mig var mjög gott að geta skrifað undir áður en þetta byrjaði allt saman. Ég hugsa að það hefði ekki verið létt að finna sér lið eftir að hafa ekki spilað í ég veit ekki hvað langan tíma því við vitum ekki hvenær þetta tekur enda allt saman."

Óljóst með tímabilið - Engir áhorfendur út ágúst
Við tökum Adam á orðinu með hans síðustu setningu. Hvernig er æfingum hjá félaginu háttað og hvað er vitað á þessum tímapunkti með framhaldið?

„Liðið reddaði “Fífunni” í Tromsö og við erum með hana frá klukkan 10-13 á hverjum degi. Við erum 5 og 5 saman í hóp og mega bara vera 5 á hvorum vallarhelmingi. Það er starfsmaður sem sótthreinsar alla bolta, keilur og allan annan æfingabúnað milli æfingahópa."

„Það komu svo fréttir í dag að það verði enginn leikur með áhorfendum fyrr en 1. september í fyrsta lagi. Það er ekki búið að setja neina dagsetningu á hvenær deildarkeppnin byrjar."


Aldrei nálægt því að gerast
Í nóvember í fyrra var Lukas Podolski, fyrrum þýskur landsliðsmaður og fyrrum leikmaður Bayern Munchen og Arsenal, orðaður við Gornik. Varð Adam var við þann orðróm?

„Ég varð var við orðróminn en þetta var allt saman byggt á einhverju loforði sem hann lofaði fyrir löngu: að hann myndi enda ferilinn hjá Górnik Zabrze, heimaliðinu sínu. Ég held að það hafi samt aldrei verið nálægt því að gerast."

Þess má geta að Podolski samdi við tyrkneska félagið Antalyaspor í janúar eftir veru í Japan.

Fékk skot frá pabba sínum
Við endum þetta á léttari nótum. Adam er fæddur á Akureyri og var hann spurður út í sína tengingu við höfuðborg Norðurlands.

„Öll ættin hans pabba er að norðan og á ég ættingja þar. Hann er harður Þórsari og lét mig heyra það þegar ég nefndi það ekki í ''Hin hliðin'' hérna um daginn að ég myndi aldrei spila fyrir KA þannig ég vil fá að enda þetta á þessum orðum:

Ég mun aldrei spila fyrir KA,"
sagði Adam Örn að lokum.

Tengdar greinar:
Adam Örn: Ekki nógu sáttur með stöðu mína hjá félaginu (24.10.19)
Adam Örn æfir með Tromsö
Adam Örn í Tromsö (Staðfest)
Hin hliðin - Adam Arnarson (Tromsö)
Athugasemdir
banner
banner