fim 30. júlí 2020 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Salford fær fyrrum úrvalsdeildarleikmann (Staðfest)
Mynd: Getty Images
Salford City er félag í D-deild enska boltans sem er í eigu Peter Lim og nokkurra goðsagna úr '92 árgangi Manchester United.

Bræðurnir Gary og Phil Neville eiga 10% hlut í félaginu hvor ásamt Ryan Giggs, David Beckham, Paul Scholes og Nicky Butt.

Salford hefur því sterkt bakland fjárhagslega og getur leyft sér að krækja í öfluga leikmenn þrátt fyrir erfitt efnahagsástand í knattspyrnuheiminum vegna Covid-19.

Félagið staðfesti komu Ian Henderson í gær, sem hefur undanfarin ár verið meðal bestu leikmanna C-deildarinnar.

Henderson er 35 ára gamall og hefur skorað 35 mörk í 76 deildarleikjum með Rochdale síðustu tvö ár. Hann hóf ferilinn hjá Norwich og spilaði þrjá úrvalsdeildarleiki fyrir félagið tímabilið 2004-05.

Henderson verður væntanlega lykilmaður í liði Salford sem stefnir upp um deild á næstu leiktíð. Salford var með 50 stig þegar hætt var keppni í D-deildinni vegna Covd, átta stigum frá umspilssvæðinu.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner