sun 08. september 2019 21:38
Brynjar Ingi Erluson
Þjálfari Bosníu hættur eftir tapið gegn Armeníu (Staðfest)
Robert Prosinecki greindi frá því að hann væri hættur í viðtali eftir leik
Robert Prosinecki greindi frá því að hann væri hættur í viðtali eftir leik
Mynd: EPA
Robert Prosinecki er hættur með landslið Bosníu og Herzegóvínu en hann greindi frá þessu í viðtali eftir 4-2 tap liðsins gegn Armeníu í undankeppni Evrópumótsins í dag.

Prosinecki tók við Bosníu á síðasta ári en hann þjálfaði liðið í átján leikjum þar sem hann vann 7, gerði 6 jafntefli og tapaði 5 leikjum.

Liðið var með 7 stig í J-riðli fyrir leikinn í dag en Henrikh Mkhitaryan reyndist of erfiður en hann skoraði tvö, lagði upp eitt og átti stóran þátt í fjórða markinu.

Prosinecki greindi frá því í viðtali við fjölmiðla eftir leikinn að hann væri hættur.

„Ég hef talað við alla og verð ekki áfram þjálfari. Ég er hættur," sagði Prosinecki.

„Þegar ég tók við þá trúði ég því að við færum á EM. Við höfum ekki náð góðum árangri og nú hefur arftaki minn tíma til að undirbúa liðið fyrir Þjóðadeildina. Ég er ekki þjálfari liðsins lengur," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner