Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   lau 09. febrúar 2019 15:15
Magnús Már Einarsson
Jón Rúnar lét í sér heyra: Óþolandi að stjórn KSÍ hafi ekki brugðist við
Jón Rúnar Halldórsson.
Jón Rúnar Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aleksander Ceferin forseti UEFA.
Aleksander Ceferin forseti UEFA.
Mynd: Getty Images
Eftir nokkrar mínútur verður kosið um formann KSÍ á ársingi sambandsins en þeir Guðni Bergsson og Geir Þorsteinsson eru í kjöri.

Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, steig í ræðustól fyrir kosninguna og gagnrýndi þar stjórn KSÍ harðlega fyrir að hafa ekki brugðist við eftir að Aleksander Ceferin, forseti UEFA, lýsti yfir óobinberum stuðningi við Guðna Bergsson í formannsslagnum í viðtali á Vísi.

„Það kemur upp atvik í sambandi við formannskjörið. Það á sér stað símtal út til útlanda þar sem viðmælandinn þeim megin sýnir af sér gríðarlegt dómgreindarleysi. Hann hefur hreinlega afskipti af okkar innri málum," sagði Jón Rúnar í ræðu sinni.

„Ég lít svo á að stjórn sambandsins sé sverð okkar og skjöldur. Ég beið í tvo daga til að sjá hvort stjórnin, sem ver okkur ef á okkur er sótt, myndi verja okkur. Ég beið eftir að eitthvað kæmi fram á heimasíðunni en það gerðist ekki neitt."

„Eins hvatvís og ég er þá hafði ég samband við nokkra stjórnarmenn KSÍ og spurði hvernig á þessu stæði. Það sem mér finnst verst í þessu er það að menn settu þetta svo sterkt í samband við fyrirhugaðar kosningar að það væri í rauninni ekki hægt að gera neitt. Ég talaði líka við félaga mína í ÍTF og þar var sama uppi á teningnum. Að bregðast við gæti túlkast sem einhverskonar stuðningsyfirlýsing við annan af frambjóðendunum."

„Í mínum huga hefur það ekkert með það að gera. Það er óþolandi að mínu viti að okkar stjórn, sem á að passa upp á svona hluti, skuli ekki hafa brugðist við. Þögnin, er sama og samþykkti eins og sagt er. Ég var líka tiltölulega hissa á þeim mæta dreng, Guðna Bergssyni, sem situr sem formaður. Hann fékk tækifæri til þess í sjónvarpsviðtali að fordæma þetta. Þó svo að um leið hefði ágætur Guðni getað þakkað fyrir stuðninginn."

„Hvers konar heigulsháttur er það í stærstu hreyfingu landsins að samþykkja það með þegjandanum einu að afskipti utan frá séu samþykkt. Þau eru samþykkt ef þú segir ekki neitt. Ég vildi koma þessu fram því á morgun er strætóinn farinn og þá þýðir ekki að hugsa, ég hefði átt að segja eitthvað eða gera eitthvað. Þá er það of seint."

Athugasemdir
banner
banner