Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 09. nóvember 2018 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Didier Drogba leggur skóna á hilluna (Staðfest)
Didier Drogba átti magnaðan feril
Didier Drogba átti magnaðan feril
Mynd: Getty Images
Drogba og Eiður Smári Guðjohnsen léku saman hjá Chelsea
Drogba og Eiður Smári Guðjohnsen léku saman hjá Chelsea
Mynd: Getty Images
Didier Drogba, fyrrum framherji Chelsea á Englandi, lagði skóna á hilluna í nótt eftir 1-0 tap Phoenix Rising gegn Louisville í úrslitaleik USL-bikarsins í Bandaríkjunum. Ferill Drogba var glæstur.

Drogba er fæddur árið 1978 og er fæddur á Fílabeinsströndinni en hann hóf atvinnumannaferil sinn með Le Mans í Frakklandi. Hann gerði þar 12 mörk í 64 leikjum áður en hann fór til Guingamp.

24 mörk í 50 leikjum á tveimur tímabilum með liðinu færði honum samning hjá Marseille þar sem hann spilaði aðeins eitt tímabil. Þar skoraði hann 32 mörk í 55 leikjum.

Frammistaða hans vakti mikla athygli og ákvað enska stórliðið Chelsea að kaupa hann árið 2004 fyrir 24 milljónir punda. Þar varð hann að stórstjörnu og að einum besta framherja heims.

Hann var ógnvekjandi í framlínunni hjá Chelsea og skoraði 157 mörk í 341 leik. Hann vann tólf titla yfir átta tímabil en frammistaða hans í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2012 var mögnuð þar sem hann reyndist hetja liðsins. Þá var hann tvisvar markahæsti maður úrvalsdeildarinnar. Árið 2007 var hann þá í fjórða sæti í valinu á besta leikmanni heims.

Hann söðlaði um eftir þessi átta tímabil hjá Chelsea og spilaði með Shanghai Shenhua í Kína og svo Galatasaray í Tyrklandi áður en hann gerði eins árs samning við Chelsea.

Hann var mættur aftur í bláu treyjuna og kláraði ferilinn þar með trompi. Hann skoraði 7 mörk í 40 leikjum og vann bæði ensku úrvalsdeildina og enska deildabikarinn. Titlar hans hjá Chelsea því fjórtán og ákvað hann að yfirgefa félagið eftir tímabilið.

Hann hélt til Kanada og spilaði með Montreal Impact í MLS-deildinni. Yfir tvö tímabil skoraði hann 23 mörk í 41 leik. Eftir það fjárfesti hann í Phoenix Rising í USL-deildinni í Bandaríkjunum og ákvað að taka tvö tímabil með liðinu sem leikmaður og eigandi.

Fyrra tímabilið skoraði hann 10 mörk í 14 leikjum en það síðara tók hann einungis þátt í úrslitakeppninni sem var að ljúka. Hann skoraði meðal annars sigurmarkið í úrslitaleik Vesturdeildarinnar en í sjálfum úrslitaleiknum um bikarinn tapaði liðið 1-0 fyrir Louisville.

Hann lék 104 landsleiki fyrir Fílabeinsströndina og skoraði þar 65 mörk. Hann hjálpaði liðinu að komast í fyrsta sinn í sögunni á HM árið 2006 en hann fór einnig með liðinu á HM 2010 og 2014. Hann lagði svo landsliðsskóna á hilluna eftir HM í Brasilíu.

Drogba er eins og áður segir 40 ára gamall, skórnir komnir á hilluna og eflaust nóg í vændum hjá honum. Það virðast alla vega vera bjartir tímar framundan hjá Phoenix Rising.
Athugasemdir
banner
banner
banner