mán 10. desember 2018 09:45
Magnús Már Einarsson
Heimir tekinn við Al Arabi (Staðfest)
Heimir er búinn að skrifa undir í Katar.
Heimir er búinn að skrifa undir í Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Hallgrímsson hefur verið ráðinn þjálfari Al Arabi í Katar en þetta staðfesti félagið nú rétt í þessu. Heimir var kynntur með myndbandi sem sjá má í þessari frétt.

Heimir fór til Katar fyrir helgi og á laugardaginn sá hann Al Arabi vinna Umm Salal 3-0. Heimir hefur nú gengið frá samningi við Al Arabi en ekki kemur fram um hversu langan samning er að ræða.

Heimir hætti sem þjálfari íslenska landsliðsins í sumar eftir sjö ár í starfi hjá KSÍ. Heimir hefur verið orðaður við nokkur störf síðan þá og nú hefur hann tekið við Al Arabi.

Tímabilið er í fullum gangi í Katar en Al Arabi er í sjötta sæti af tólf liðum í úrvalsdeildinni eftir fimmtán umferðir. Al Arabi mætir Al Rayyan á fimmtudag og Al Duhail föstudaginn 21. desember áður en tekur við jólafrí í deildinni til 10. janúar.

Al Arabi er frá Doha og spilar heimaleiki sína á velli sem tekur þrettán þúsund áhorfendur í sæti. Liðið hefur sjö sinnum orðið meistari í Katar, síðast árið 1997. Á meðal fyrrum þjálfara liðsins eru Gianfranco Zola og Dan Petrescu fyrrum leikmenn Chelsea.

Flestir leikmanna Al Arabi eru frá Katar en þar má einnig finna brasilísku leikmennina Diego Jardel og Mailson sem og Franco Arizala frá Kolumbíu.

Margir þekktir leikmenn hafa spilað í Katar í gegnum tíðina en í deildinni í dag má finna leikmenn eins og Wesley Sneijder og Samuel Eto´o.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner