Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 11. apríl 2019 15:35
Hafliði Breiðfjörð
KA spilar á Akureyrarvelli í sumar (Staðfest)
Frá Akureyrarvelli í fyrrasumar. Grasið er langt frá því að vera svona fallegt í dag.
Frá Akureyrarvelli í fyrrasumar. Grasið er langt frá því að vera svona fallegt í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Sævar Pétursson.
Sævar Pétursson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Nú er það staðfest að KA verður áfram á grasvelli í Pepsi Max-deildinni í sumar þar sem ekki tókust samningar við bæjaryfirvöld þess efnis að flytja liðið á gervigrasvöllinn á KA svæðinu.

Sævar Pétursson framkvæmdastjóri félagsins staðfesti þetta við Fótbolta.net í dag en ljóst er að það verður kapphlaup um tímann því völlurinn er langt frá því að vera tilbúinn þegar þetta er skrifað.

Sævar sagði að félagið hafi verið í samningaviðræðum við bæinn að undanförnu og búið hafi verið að gefa heimild fyrir bráðabirgðastúku við KA völl en þá kom babb í bátinn.

„Í viðræðum við bæinn um kostnað gekk þetta ekki upp. Það voru ákveðnar forsendur sem félagið var ekki tilbúið í," sagði Sævar við Fótbolta.net í dag.

Þar sem engin áhorfendaaðstaða er við gervigrasvöllinn er hann ekki löglegur í efstu deild og það sama má segja um fótboltahúsið Bogann á Akureyri og ljóst að liðið hefur mótið ekki þar. Fyrsti heimaleikurinn er 5. maí gegn Val og svo tíu dögum seinna gegn Breiðabliki en bæði lið leika á gervigrasi í sumar og þeirra vellir verða tilbúnir.

„Ef völlurinn verður ekki tilbúinn væri okkar eina von að semja við Val og Breiðablik um að skipta. Við tökum þó stöðuna eftir páska og verðum raunsæir um hvort þetta verði hægt. Það er búið að dreifa sandi yfir völlinn og setja dúk yfir. Það er sól og blíða núna og fínasta veður í kortunum," sagði Sævar.

Hann sagði að félagið muni svo taka upp málið aftur með bæjaryfirvöldum í haust en miðað við stöðu málsins núna nær félagið ekki saman við bæinn. Þó sé ljóst að verið sé að byggja upp hverfið svo iðkendum muni fjölga í framtíðinni. Því sé uppbygging á svæðinu nauðsynleg.

Helmingur liðanna í Pepsi-deildinni munu því spila á grasi í sumar. Auk KA eru það FH, Grindavík, ÍA, ÍBV og KR.

Hin liðin sex spila á gervigrasi, það eru Breiðablik, Fylkir HK, Stjarnan, Valur og Víkingur.
Athugasemdir
banner
banner