fim 11. október 2018 11:17
Arnar Helgi Magnússon
Ásgeir Börkur yfirgefur Fylki (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Ásgeir Börkur Ásgeirsson mun ekki leika með Fylki í Pepsideildinni að ári en þetta kemur fram á Facebook síðu hans. Hér má síðan sjá yfirlýsingu frá Fylki:

Knattspyrnudeild Fylkis og Ásgeir Börkur Ásgeirsson hafa komist að samkomulagi um starfslok hjá félaginu. Samvinna þessara tveggja aðila hefur verið frábær í mörg ár. Ásgeir Börkur er uppalinn hjá félaginu og hefur staðið sig frábærlega, verið fyrirliði liðsins og alltaf gert sitt allra besta.
Eftir að hafa rætt mikið saman síðustu daga þá komst félagið og Ásgeir Börkur sameiginlega að þeirri niðurstöðu að hann fengi að skoða aðra möguleika. Þess ber að geta að Ásgeir Börkur mun halda áfram að þjálfa yngri flokka hjÁ Fylki en hann hefur verið að standa sig mjög vel sem þjálfari hjá félaginu.



Ásgeir hefur stærstan hluta feril síns leikið með Fylki en hann lék með liðinu frá 2007-2013 en var á láni hjá Selfyssingum í tvö tímabil á þessum árum.

Hann hélt síðan út í atvinnumennsku þar sem hann spilaði með Sarpsborg í eitt tímabil. Þaðan fór hann til GAIS í Svíþjóð og lék 16 leiki fyrir þá.

Ásgeir kom síðan aftur til Fylkis árið 2015 og hefur verið þar síðan þá. Hann lék 21 leik fyrir Fylki í sumar.

Hann segist ekki vera hættur í fótbolta en að framhaldið sé óljóst.

Hér að neðan má sjá yfirlýsingu Ásgeirs:

„Ég held að þessi mynd lýsi vel sirka 26 ára ferli mínum sem fótboltamanni hjá Fylki. Endalaust að rífa kjaft hvort sem það var inn á vellinum eða utan og ég hefði ekki viljað hafa það neitt öðruvísi! Það voru fáir sem hefðu trúað því að ég, gjörsamlega óuppalandi og óferjandi á yngri árum, myndi enda með að spila 274 meistaraflokksleiki fyrir klúbbinn minn og bera fyrirliðabandið stoltur í tæp þrjú ár. En það gerðist. Ef til vill skrifast það meira á þrjósku og ástríðu, en hæfileika 😀

Það sem stendur helst upp úr á þessum 26 árum er hversu mörgu góðu fólki ég hef kynnst á leiðinni. Fyrst og fremst fékk ég að spila fótbolta með bestu vinum mínum og það eitt og sér eru forréttindi. Auk þess fékk ég að læra af mörgum ólíkum einstaklingum hvort sem það voru uppaldir og ungir Fylkismenn, goðsagnir hjá klúbbnum eða aðkomumenn. Að fá að þroskast og dafna sem einstaklingur hjá mínu uppeldisfélagi er þakkarvert og verð ég að eilífu þakklátur fyrir það!

En ég á nóg eftir og er spenntur fyrir næstu áskorun! Framhaldið er óljóst, en ég verð einhverstaðar að sparka í fótbolta næstu árin. Það er klárt!

Vil óska þjálfurum, starfsliði og leikmönnum Fylkis áframhaldandi góðs gengis! Það er allt til alls í Árbænum, nú er bara, svo ég vitni í Einar Ásgeirsson vin minn: “KOMA SVO. TAKA’ETTA NÚ!”

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner