Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 18. desember 2018 11:05
Magnús Már Einarsson
Álitsgjafar svara - Hver á að taka við Manchester United?
Hver tekur við Pogba og félögum?
Hver tekur við Pogba og félögum?
Mynd: Getty Images
Pochettino er talsvert nefndur til sögunnar.
Pochettino er talsvert nefndur til sögunnar.
Mynd: Getty Images
Carrick gæti tekið við út tímabilið.
Carrick gæti tekið við út tímabilið.
Mynd: Getty Images
Zinedine Zidane.
Zinedine Zidane.
Mynd: Getty Images
Jose Mourinho var í morgun rekinn úr starfi sem knattspyrnustjóri Manchester United.

Manchester United ætlar að ráða tímabundinn stjóra út tímabilið áður en nýr stjóri tekur við næsta sumar til frambúðar. Hver á að stýra skútunni út tímabilið og hver á að taka við næsta sumar?

Fótbolti.net fékk nokkra álitsgjafa til að svara þessari spurningu.



Tómas Þór Þórðarson, Stöð 2 Sport
Ég veit ekki hvort það skipti nokkru máli hver tekur við United út tímabilið. Ef liðið hefði fallið í Evrópudeildina hefði það skipt meira máli því þar hefði verið tækifæri að komast aftur í Meistaradeildina á næsta tímabili en liðið mun í staðinn falla út í 16 liða úrslitum og verður ekki nálægt fjórum efstu sætunum. Því er Michael Carrick örugglega bara fín ráðning út tímabilið. Skynsamur gaur sem spilað eins og gaur sem gæti síðar meir þjálfað og veit um hvað það snýst að spila fyrir Manchester United.

Ég held að Mauricio Pochettino væri draumurinn fyrir Manchester United. Er ekki alltaf verið að bíða eftir því að hann fái endalaus fjárráð? Hann er allvega að gera leikmenn betri, spila flottan fótbolta og fjölbreyttan og virðist negla flest kaupin sín. Flottur karakter líka sem þekkir svo auðvitað enska boltann.

United verður bara að hætta að hugsa um að vinna NÚNA! Það er ekkert í boði því liðið er svo langt á eftir City og Liverpool. Það verður að hugsa til lengri tíma og því væri Eddie Howe eflaust ekkert galin ráðning heldur.

Númer eitt, tvö og þrjú þarf samt að koma Ed Woodward ljósárum frá öllu því sem heitir að taka ákvörðun um nokkuð sem tengist fótboltamálum félagsins. Sá búálfur er búinn að sanna að hann kann ekkert í þeim fræðum. Annað hvort verður næsti stjóri að fá allt vald eða ráða yfirmann knattspyrnumála því þetta rugl gengur ekki lengur.

Hallbera Gísladóttir, landsliðskona
Ég væri til í að sjá Roy Keane taka tímabundið við liðinu og berja smá old school united anda í þennan bugaða hóp. Í sumar myndi ég vilja fá Pochettino eða Zidane.

Guðmundur Hilmarsson, Morgunblaðið
Verður ein af betri jólagjöfum mínum í ár að losna við Mourinho! Ég teldi það góða lausn ef það væri hægt að plata Ryan Giggs til að taka við til bráðabirgða og hann fengi Michael Carrick með sér í lið. Tveir súper góðir leikmenn sem ættu að geta miðlað einhverju góðu til niðurbrotinna leikmanna. Fyrir næsta tímabil er Mauricio Pochettino efstur á óskalista mínum. Frábær argentínskur þjálfari sem myndi henda United-liðinu vel. Hefur náð miklu út úr Tottenham-liðinu undanfarin ár en þarf nýja áskorun og hún verður varla stærri en hjá Manchester United.

Doddi litli, Rás 2
Ég hef náttúrulega verið lestarstjóri á Joseout vagninum frá því að hann kom svo þetta er gleðidagur á mínu heimili. Ég vorkenni honum lítið enda að fá 7 þúsund miljarða fyrir að fara. Ef minn maður Eddie Howe kemst ekki strax þá væri ég til í Giggs með G. Neville með sér til að sparka Man U anda í liðið. Eins og fyrra svar segir, ég væri til í Eddie Howe og gefa honum séns. Ef það verður eyðimerkurganga þá verður það skemmtileg ganga.... #Sexyfootball. Er ekki viss um að Pochettino verði í boði.

Tryggvi Páll Tryggvason, raududjoflarnir.is
Það verður vandasamt verk fyrir Woodward að fylla í þetta skarð af tveimur ástæðum.

Ef það er rétt að liðið ætli sér að taka sér tíma í að ráða nýjan stjóra sem taki við næsta sumar myndi ég halda að listinn yfir þá sem séu tilbúnir til þess að taka við liðinu í millibilinu sé ekkert sérstaklega langur. Stór nöfn á borð við Zinedine Zidane og fleiri stór nöfn sem eru á lausu núna eru varla að fara að samþykkja eitthvað reynslutímabil í von um að fá starfið í lok tímabils. Það er því hæpið að einhver toppþjálfari mæti á svæðið á næstunni.

Ef til vill væri bara best að leita inn á við í félagið til þess að fylla þetta tímabundna starf. Einhver blanda af Michael Carrick, Nicky Butt og jafnvel Gary Neville væri kannski ekki svo galin. Þetta væri auðveld ráðning fyrir Woodward en gallinn við þetta er að þó þeir félagar þekki klúbbinn inn og út hafa þeir mjög takmarkaða reynslu af því að stýra knattspyrnuliði. Butt gerði ágæta hluti með yngri liðin og hefur verið að standa sig vel sem yfirmaður akademíunnar. Carrick er búinn að vera þjálfari í örfáa mánuði og við vitum öll hvernig Neville gekk hjá Valencia og Englandi.

Ég hugsa að best sé fyrir United að taka sér smá tíma í þetta, leyfa Carrick og co. að taka mögulega 1-2 leiki og sjá hvernig það gengur, áður en að reynt er að fá einhver stærri nöfn til þess að fylla þetta tímabundna skarð. Þar dettur mér kannski helst í hug gamli United-maðurinn Laurent Blanc, sem ég er þó ekkert sérstaklega spenntur fyrir, ef ég á að segja eins og er.

2) Hér er bara eitt rétt svar. Mauricio Pochettino, knattspyrnutjóri Tottenham. Woodward er núna búinn að reyna þrjár ráðningar af gamla skólanum. Það virkaði ekki og því er kominn tími til þess að reyna nýja skólann. Tottenham-liðið hans spilar magnaðan bolta og það sést glögglega að honum tekst að gera það sem Moyes, Van Gaal og Mourinho hafa ekki tekist að gera, að bæta þá leikmenn sem fyrir eru í hópnum.

Ef United hefur áhuga á því að ná að jafna spilamennsku Manchester City og Liverpool um þessar mundir þarf einhvern stjóra á borð við Pochettino, enda er hann keimlíkur þeim Klopp og Guardiola þó það sé auðvitað áherslumunur á milli þeirra. Poch passar líka vel inn í þá hefð United að nýta unga og efnilega leikmenn líkt og hann hefur sýnt hjá Tottenham.

Umfram allt lætur hann liðið sitt spila skemmtilegan bolta og eftir fimm ár af leiðindum er bara kominn tími á einhvern sem geti skemmt áhorfendum á Old Trafford. Það verður hins vegar ekki auðvelt að næla honum frá Tottenham en ef það freistar hans ekki að taka við stærsta liði í heimi, með nánast ótakmörkuð fjárráð til að skapa lið í hans mynd, þá getur hann bara haldið áfram að hanga í titlaleysinu í Norður-London.

Siggi Dúlla, liðsstjóri landsliðsins
Ég er reyndar mjög ánægður með það hvernig þetta er að ganga hjá UTD þessa dagana þannig að ég hefði valið að breyta ekki neinu. Enn ef ég set mig í stól spámanns þá held að eina vitið fyrir UTD að ráða einhverja innanbúðarmenn til að leysa af þessa törn sem er að fara í gang núna, eigum við að ekki að segja að nýi besti vinur Guðjóns Baldvins hann Michael Carrick taki við allavega tímabundið og fái með sér Nicky Butt, þeir félagar geta hafið þá vinnu að byggja upp nýtt lið og hreinsa út strax í janúar. Næsta sumar þá held ég að Mauricio Pochettino gefist upp á því að vera hjá Tottenham. Því miður held ég að hann gæti gert mjög góða hluti við Man Utd.

Sjá einnig:
Mourinho rekinn frá Manchester United (Staðfest)
Carrick stýrir æfingum næstu dagana
Nýr stjóri tekur við Man Utd í dag eða á morgun
Twitter um Mourinho - Ég kemst í hátíðarskap
Neville vill að Pochettino taki við Manchester United
Mourinho fær rosalegan starfslokasamning
Pogba birti mynd eftir Mourinho frétt - Eyddi henni strax
Carrick og Zidane líklegastir til Man Utd samkvæmt veðbönkum
Álitsgjafar svara - Hver á að taka við Manchester United?
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner