Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 21. mars 2019 11:30
Arnar Daði Arnarsson
Bjarni Jó um viðskilnaðinn hjá ÍBV: Gerði mistök
Bjarni Jó.
Bjarni Jó.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Avni Pepa var fyrirliði ÍBV á þessum tíma.
Avni Pepa var fyrirliði ÍBV á þessum tíma.
Mynd: Raggi Óla
Bjarni Jóhannsson er einn reynslumesti meistaraflokksþjálfari á Íslandi frá upphafi og hann er enn að. Þjálfaraferill Bjarna spannar rúmlega 30 ár.

Bjarni er gestur Miðjunnar í þessari viku og fer hann yfir þjálfaraferilinn frá upphafi til dagsins í dag. Sumarið 2016 hætti hann skyndilega með lið ÍBV í Pepsi-deildinni. Ákvörðun sem aldrei hefur verið rætt um í fjölmiðlum.

„Þetta var erfitt í Eyjum. Ég var að kenna í bænum og var flakkandi á milli aðallega með Herjólfi. Þetta var svipuð tilfinning og þegar ég var með Breiðablik 2006. Ég fékk einhvernvegin bara nóg eftir bikarúrslitaleikinn," sagði Bjarni Jó sem hætti viku eftir 2-0 tap gegn Val í bikarúrslitum.

„Ég tel að ég hafi brugðist svolítið sjálfur í bikarúrslitaleiknum. Mér fannst vanta traust á milli mín og einhverja stjórnarmanna og leikmanna. Ég baðst því lausnar," sagði Bjarni sem sagðist hafa gert mistök í vali á byrjunarliðinu í bikarúrslitaleiknum.

„Við reyndum að undirbúa leikinn vel. Að mínu mati gerði ég smá mistök með val á liðinu. Síðan brást svolítið fyrirliðinn (Avni Pepa), ég þurfti að taka hann af velli eftir sex mínútur. Hann var ekki heill heilsu og ég átti aldrei að láta hann byrja. Síðan setti ég Aron Bjarnason á bekkinn og ég átti aldrei að gera það. Það voru lítil mistök sem ég gerði þegar maður hugsar til baka. Svona reyndur þjálfari eins og ég átti auðvitað aldrei að láta þetta spyrjast á mig."

En afhverju vildi hvorki hann né ÍBV ræða þetta við fjölmiðla á sínum tíma?

„Mér fanns þetta vont. Liðið var á viðkvæmum stað á þessum tíma í deildinni. Ég lagði það mat á það að ræða þetta ekkert í fjölmiðlum og þegar ég var búinn að ræða við bæði formanninn og framkvæmdastjórann þá töldum við að þetta væri best fyrir alla."

„Við töpuðum á heimvelli eftir bikarúrslitin og þar fannst mér þetta vera komið. Mér fannst vera komin þreyta og pirringur. Ég var rosalega pirraður eftir bikarleikinn."

„Við fórum í gegnum þetta og hvað hafði gengið á. Þegar upp var staðið þá skyldu þetta allir. Auðvitað vildu allir að ég myndi klára tímabilið en ég tel að það hafi verið rétt fyrir alla að klára þetta á þessum tímapunkti. Það var ljóst að minni hálfu að ég yrði ekki áfram næsta sumar, þetta var of erfitt að vera alltaf að flakka á milli lands og eyjanna," sagði Bjarni Jó sem neitar því ekki að það hafi verið erfitt að geta ekki tjáð sig um þetta þegar allskonar sögusagnir voru komnar um brotthvarf Bjarna frá ÍBV.

„Ég varð bara að fara í gegnum það. Þetta er kröftugt samfélag í Eyjum og menn eru stundum samherjar og stundum eru menn ekki samstíga og ég ákvað að hafa þetta svona," sagði Bjarni í Miðjunni.

Hægt er að hlusta á Miðjuna með Bjarna Jó í heild sinni hér.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner