Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
   fös 13. maí 2005 07:55
Einkaviðtal við Magnús Gylfason þjálfara KR
Magnús Gylfason er nýráðinn stjóri KR. Hann stýrði ÍBV til 2. sætis í deildinni á síðustu leiktíð og hefur meðal annars stýrt yngri landsliðum Íslands. Við hittum Magnús í fyrirtækinu sem hann rekur í Hafnarfirði en auk þess að vinna þar rekur hann annað fyrirtæki sem staðsett er í Vestmannaeyjum.

Ertu ánægður með undirbúningstímabilið hjá KR?
Já ég er mjög sáttur við undirbúningstímabilið hjá KR. Við fórum rólega af stað og lentum í smá vandræðum með meiðsli framan af en svo hefur þetta gengið mjög vel. Hápunkturinn var þegar við fórum til Tyrklands í æfingaferð sem var mjög vel heppnuð. Svo erum víð núna búnir með Deildabikarinn og tökum svo einn leik á miðvikudaginn þannig að ég er mjög sáttur við undirbúningstímabilið.

Verður þetta síðasti leikruinn gegn Reyni á miðvikudaginn?
Já við spilum minningaleik gegn Reyni í Sandgerði á miðvikudaginn og ég geri ráð fyrir því að það verði síðasti leikurinn nema það verður eitthvað sérstakt sem ég þarf að fara yfir þá get ég sett á einhvern leik í kringum helgina á föstudag eða laugardag. En það eru allar líkur á að leikurinn gegn Reyni verði síðasti leikurinn.

Hvernig er mannskapurinn núna rétt fyrir mót?
Mannskapurinn er rosalega góður. Ég er mjög ánægður með kraftinn sem er í æfingunum hjá okkur og æfingasókn og allt hefur verið 100%. Það hefur verið stígandi í liðinu alveg frá því í nóvember. Við höfum tekið þátt í þessum mótum sem hafa verið og þetta hefur allt verið upp á við. Svo núna eins og menn urðu kannski varir við þarna undir lokin þá var auðvitað ekki alltaf völ á öllum leikmönnunum, það voru leikbönn og meiðsli sem duttu þarna inní.

En það eru engin alvarleg meiðsli í gangi hjá KR. Það eru tveir sem eru ólíklegir fyrir fyrstu umferð en allt annað virðist vera í góðu lagi. Það eru Bjarni Þorsteins og Garðar Jó en að öðru leiti ættu allir að vera klárir. Meira að segja er þetta spurning um þá, þessa tvo, en það er þó kannski ólíklegt en það er stutt í þá.

Við hittum þig niðri í Egilshöll og þá sagðirðu okkur að þú þyrftir að styrkja hópinn um 2-3 nýja leikmenn, síðan þá er komin 1...
Já við erum búnir að semja við einn útlending frá Hondúras sem er með tvöfalt vegabréf. Það er líklegt að það verði bara það síðasta sem við gerðum í þessu. Ég er mjög sáttur við minn leikmannahóp, ég er með að mínu viti mjög góða leikmenn í KR þannig að það þarf að bjóðast ansi góður leikmaður til að ég taki hann. Ég er ekkert kominn í neina örvæntingu og þarf ekkert nauðsynlega á nýjum leikmanni að halda. Við erum að skoða í kringum okkur og erum með augun opin ef það eru einhver nöfn sem eru á lausu þá er alveg möguleiki á að við tökum þá en eins og staðan er í dag þá erum við bara með 22 leikmenn og ég vildi það og hef sagt það alveg frá fyrstu viðtölum að ég ætli að hafa 22 heila leikmenn þegar mótið hefst og það stefnir allt í það.

Hvað geturðu sagt okkur um nýja útlendinginn, Helmut Matute?
Hann er örvfættur leikmaður sem hefur spilað bæði í vinstri bakverði og vinstra megin á miðjunni. Frekar lítill, snöggur, grimmur og er mjög mikill spilari. Hann hefur mjög góðan leikskilning, er með góðar sendingar og er að mörgu leiti Suður-Amerísk týpa. Hann er leikmaður sem ég taldi henta okkar liði. Okkur vantaði svolítið spilandi varnarmann að mínu mati og hann er alveg þess legur. Hann var með okkur í eina viku, spilaði tvo leiki og okkur leist mjög vel á hann. Hann spilaði á móti Skaganum og HK sem voru nú með betri leikjum hjá okkur í vetur, við unnum nokkuð sannfærandi 3-0 og 4-1. En það á eftir að koma í ljós hvernig hann kemur út í vor, ég held að við höfum gert rétt í að semja við hann. Við erum líka með bráðefnilegan strák sem er að spila vinstri bakvörð hjá okkur, Gunnar Kristjánsson, sem er búinn að spila hvern leikinn á eftir öðrum mjög vel þannig að það verður hörku samkeppni hjá þeim tveimur. Þó hann sé að koma frá útlöndum þá er ekkert sjálfgefið en hann er auðvitað líklegur til að spila.

Hvernig er staðan á Arnari og Bjarka?
Arnar og Bjarki hafa verið að æfa með okkur heilt yfir alveg frá því í nóvember en með smávægilegum meiðslum af og til eins og ferill þeirra hefur verið. Þeir hafa lent í smávægilegum meiðslum. Þeir væru sjálfsagt ekki hérna á Íslandi ef þeir hefðu heilan skrokk í þetta því þeir eru hörku knattspyrnumenn. Arnar hefur þó verið meira heill og verður alveg klár núna frá fyrsta leik. Bjarki á kannski pínulítið í land en ég geri ráð fyrir því að hann verði líka klár fyrir fyrsta leik. Ég myndi segja að Bjarki hefði misst aðeins meira úr og væri því aðeins á eftir.

Þú býst við þeim bara sterkum í sumar?
Já ég býst við þeim mjög sterkum og bind miklar vonir við þá. Þetta eru frábærir knattspyrnumenn og ef þeim tekst að halda sér heilum eins og við stefnum að, að stjórna álaginu þannig að þeir verði alltaf heilir þá býst ég við þeim mjög sterkum í sumar.

Þekkirðu muninn á því hvernig þeir voru fyrir ári síðan samanborið við hvernig þeir eru núna?
Ég veit bara að Bjarki spilaði held ég ekki neitt í fyrra, kannski tvo hálfleika. Arnar kom um vorið að mér skilst inn í þetta hjá KR, lítið búið að vera að æfa um veturinn, spilaði flesta leiki en mér skilst að hann hafi ekki verið í topp formi. Munurinn núna er að ég held að þeir séu báðir í þokkalegu formi og munu nýtast KR liðinu mun betur en í fyrra. Það er mín skoðun en þeir verða auðvitað að sleppa við meiðsli ef þeir eiga að nýtast okkur.

Hvar ætlarðu að nota þá í sumar ef þeir verða í leikhæfu formi?
Það er alveg ljóst að þegar þeir eru heilir og í leikhæfur formi að þá spila þeir fram á við. Bjarki kannski fremst á miðju og hinn uppi á topp. Ég sé Arnar bara fyrir mér sem framherja og Bjarki getur bæði spilað frammi og eins fremst á miðju. Þeir eru sóknarsinnaðir leikmenn sem flestir þjálfarar vildu örugglega hafa í sínu liði.

Hvernig áttu von á að stilla KR liðinu upp?
Það er ómögulegt að segja. Við höfum verið að spila 4-4-2 en það getur verið breytilegt bæði eftir andstæðingum og meiðslum og eins hvernig okkur gengur í upphafi með það sem við erum að gera. Við ætlum auðvitað að spila okkar leik og það hefur gengið vel undanfarna mánuði. Ég geri frekar ráð fyrir að það verði 4-4-2. Ég vil auðvitað eins og flestir þjálfarar spila sóknarbolta en það er auðvitað einfalt að segja bara að við sækjum þegar við höfum boltann og verjumst þegar við missum hann.

Hverjir verða ykkar sterkustu menn í sumar?
Ég held að ég verði bara að svara þessu asnalega og pólitískt og segja að það verði þessir 11 sem byrja. Mér finnst ég hafa alveg hörku góða leikmenn innan minna raða og þessir 11 sem byrja verða sterkastir hjá okkur. Við erum með topp menn þarna í hverri stöðu að mér finnst og ég týni engan út úr því.

Eru einhverjir ungir leikmenn sem maður ætti að fylgjast sérstaklega með?
Já það er enginn vafi á því. Eins og þið sáuð kannski í Deildabikarnum þá vorum við að spila á alveg ótrúlega ungu liði. Ef þessir strákar fá tækifæri, sem er alveg eins líklegt því þeir hafa staðið sig fram að þessu og eins líklegt að þeir fái tækifæri ef eitthvað kemur uppá eða ef þeir eru líklegri en hinir. Það eru þarna strákar eins og Gunnar Kristjánsson sem ég nefndi áðan, örvfættur sem getur spilað bæði frammi og vinstra megin á vellinum, á miðjunni og í vörninni. Hann er vissulega athyglisverður leikmaður síðan erum við með nokkra þarna sem eru ekki gamlir, stráka eins og Sölva Davíðs, Sigmund Kristjáns og fleiri unga stráka sem eru gjaldgengir í U-21 árs landsliðið.

Það er auðvitað ómögulegt að segja hverjir spila í sumar en það eru þarna strákar sem eru að koma upp úr þriðja flokki. Strákar eins og Atli varamarkvörður sem hefur verið að spila síðustu leiki hjá okkur, vissulega athyglisverður leikmaður. Skúli sem kom inná í úrslitaleiknum í Deildabikarnum og skoraði og svona mætti lengi telja. En þessir hafa verið að spila síðustu leiki og hafa verið að standa sig feykilega vel en hvort þeir munu spila í sumar verður allt að koma í ljós.

Það hefur verið smá vandamál hjá Bjarnólfi Lárussyni í spjaldasöfnun á undirbúningstímabilinu....
Já við skulum orða það þannig að hann fékk þarna snemma tvö rauð spjöld. Hvort það var ekki bara í janúar eða mánaðarmótin janúar/febrúar þar sem hann fékk rautt spjald, tók út leikbann,  kom aftur og fékk annað rautt. Það var vissulega verðskuldað og heimskulegt þar sem hann sparkaði í liggjandi mann sem var alveg ótengt fótboltanum og fékk beint rautt. Í hitt skiptið fékk hann tvö gul sem hendir mjög marga leikmenn, hann fékk tvö gul fyrir brot og endaði útaf. Hann var kannski ekki óheppinn, frekar óskynsamur og tók þarna tvö rauð á stuttu tímabili. Síðan hefur hann spilað, kannski ekki spjaldalaust en 1-2 gul spjöld í 7-8 leikjum eða hvað það er. Þannig að ég var alveg sáttur við allt þar til núna á móti Þrótti og ég er nú búinn að skoða þetta aðeins í kjölinn og vissulega var hann kominn með gult spjald fyrir brot í fyrri háfleik og svo þegar þessar stympingar verða og það er gengið á hann, þá stuggar hann þarna við manni sem steinliggur og þar var bara leikaraskapur í gangi held ég en auðvitað átti hann ekkert að gera það. En ég hef engar áhyggjur af Bjarnólfi, ég er búinn að þjálfa hann núna þrjú ár í röð og ég tel að hann muni bara mæta einbeittur til leiks og þá verði þetta ekkert vandamál.

Ræðið þið þessi mál eitthvað sérstaklega?
Já við ræðum hvert einasta atvik sem kemur upp í fótboltaleik hjá mér, sama hvort ég ræði við allan hópinn eða ræði við einhvern í einrúmi, hvort sem menn eru að brenna af dauðfærum, gefa mörk eða að fá rauð spjöld og ég ræði þetta auðvitað við Bjarnólf eins og önnur atvik sem koma upp í okkar leik þannig að þetta verður ekki vandamál í sumar – eða ég ætla að vona ekki.

Hvaða lið heldurðu að verði í toppbaráttunni í sumar?
Ég held að það hafi oft verið auðveldara að giska á stöðu liðanna en í ár. Valur byrjaði rosalega vel í vetur og síðan hafa þeir kannski aðeins gefið eftir sem er bara eðlilegt. FH eru með geysilega sterkt lið, þeir urðu auðvitað Íslandsmeistarar í fyrra og hafa styrkt mannskapinn sinn ef að eitthvað er og hafa gríðarlega stóran hóp. Við erum búnir að vera á ágætri siglingu þannig að við vonumst til að vera í toppbaráttu. Skaginn er alltaf sterkur, ÍBV er spurningamerki, þeir voru í toppbaráttu í fyrra en það hafa orðið miklar breytingar á því liði. Það eru litlar væntingar gerðar til Fylkis í ár og það kannski hjálpar þeim. Ég held að það sé ómögulegt að segja til um það hverjir verða í toppbaráttunni. Síðast þegar Þróttur var í deildinni þá voru þeir í toppbaráttu í fyrri hluta móts þannig að þegar upp er staðið þá held ég að það sé erfitt að meta liðin þegar þau eru að fá sér erlenda leikmenn núna á þessum síðustu stigum. Þeir sem eru heppnir með það getur orðið alveg hörkulið en þeir sem eru óheppnir gætu lent í vandræðum því það mæðir rosalega mikið á þessum útlendingum sérstaklega þegar hóparnir eru þunnskipaðir. En ég vonast til að það verði KR, geri alveg ráð fyrir FH, Fylki og Skaganum.

En hvað um fallbaráttuna?
Það er gjörsamlega ómögulegt að spá fyrir um það hverjir falla eða verða í fallbaráttu því að það veltur mikið á þessum leikmönnum sem eru að koma inn á síðustu stundu. Ég held að ég geti nánast fullyrt að hvert einasta lið er að fá leikmenn inn núna á síðustu metrunum. Það veit enginn hvernig þeir leikmenn líta út nema þeir sem eru að velja þá og það getur alveg breytt sæmilegu liði í að vera í toppbaráttu og eins slöku liði upp að vera miðlungslið þannig að ég sé ekki fyrir mér neitt lið sem er öruggt að verði í toppbaráttu.

Hvaða markmið hafi þið sett ykkur?
Ég hef nú sagt það áður og ætla mér að standa við það að það er leiðinlegt að vera ekki í Evrópukeppni í ár. KR vill vera í Evrópukeppni og við setjum okkur það markmið núna að liðið komist í Evrópukeppni. Það er markmið númer eitt og við metum þetta svo kannski nokrum sinnum á tímabilinu en það er allavega markmið númer eitt eins og staðan er í dag að vera í toppbaráttu og komast í Evrópukeppni.

Finnurðu fyrir pressu frá KR eða stuðningsmönnunum?
Ég er eiginlega handviss um að hún er hörku mikil ef ég myndi leita eftir því eða fara að spjalla í einhverjum hóp en ég finn ekkert fyrir henni í starfi, allavega ekki ennþá. Það kemur sjálfsagt strax í fyrsta leik, í stúkunni eða í einhverjum skrifum eða viðtölum eða einhverju. En eins og staðan er í dag þá held ég að KR aðdáendur og stjórnin og við sem störfum að KR liðinu séum bara nokkuð sáttir. Við erum mjög ánægðir með þá leikmenn sem við höfum fengið og ánægðir með gengi liðsins á síðustu vikum og engin auka pressa í því. Við hlökkum bara til mótsins og svo verður bara að koma í ljós hvar við stöndum.

Hver er munurinn á því að starfa hjá KR þar sem þú ert núna og hjá ÍBV þar sem þú varst í fyrra?
Það er náttúrulega stór munur. Sérstaklega liggur hann í því að eins og allir vita þá er ÍBV liðið tvískipt yfir vetrarmánuðina, síðan eru menn svona að koma endanlega saman í kringum fyrsta leik og síðan er farið til Eyja í frábært umhverfi og fína aðstöðu. Í KR erum við saman allan veturinn, alveg frá fyrsta degi, mjög góð aðstaða og vel staðið að öllum málum. Ég verð örugglega mest var við þetta í sumar, þetta hefur kannski verið svipað hjá mér í vetur og undanfarin ár að ég þjálfa hérna í Reykjavík, ég var líka að gera það með ÍBV, ég var hér yfir vetrarmánuðina. Þá vorum við að vísu með aðstöðu hér og þar þegar ég var hjá Eyjamönnum en núna er aðstaðan öll út í KR þar sem er kominn nýr og glæsilegur gervigrasvöllur og aðstaðan er alveg tipp topp. En ég verð kannski meira var við breytinguna í sumar þar sem ég bý núna á staðnum sem ég er að þjálfa, hérna á ég heima og hérna er mín vinna þó svo að ég hafi auðvitað flutt til Eyja yfir sumartímann. Ég hugsa að þetta verði aðeins öðruvísi en ég ítreka það að það var alveg meiriháttar að flytja til Eyja og starfa þar á sumrin.

Hvernig gekk þér að skilja við ÍBV?
Það var alls ekki auðvelt. Það var smá úlfaþytur þarna í kringum það þegar ég hætti af því Bjarnólfur kom þarna fljótlega yfir í KR og eitthvað svona. En það var í mjög góðri sátt og mér fannst mjög erfitt að hætta að þjálfa ÍBV en þegar KR bauðst þá voru fleiri lið inni í myndinni en þegar KR bauðst þurfti ég ekkert mjög langan umhugsunarfrest útaf því sérstaklega að vinnan mín er í Hafnarfirði og ég bý í Hafnarfirði og ég var búinn að taka tvö góð ár í Vestmannaeyjum. Þetta var auðvitað spurning um að fara af stað í þriðja árið í Vestmannaeyjum og vera þar lengur en ég tók framyfir að vera hérna á Höfuðborgarsvæðinu þar sem mín vinna, fjölskylda og heimilið er. Eftir að þetta bauðst var valið í raun auðvelt og auðvitað er þetta krefjandi verkefni KR og gott framhald af því að hafa þjálfað stórklúbb eins og ÍBV.

Hvernig gengur þér að sameina vinnuna hérna?
Jújú ég er með þetta fyrirtæki hérna og svo er ég með annað alveg eins fyrirtæki í Eyjum, fiskvinnslu líka sem ég setti upp þar. Það hefur gengið vonum framar því ég er með frábæra samstarfsmenn sem er faðir minn og bróðir minn og við höfum skipt með okkur verkum. Ég hef reynt að stjórna álaginu á mér sjálfur og get þar af leiðandi verið laus alveg eins og ég vil á sumrin, en þá þarf ég auðvitað að vinna meira á öðrum tímum. En það hefur gengið mjög vel að vera með sitt eigið fyrirtæki og þjálfa, ég held að það sé lykilatriði þegar maður er að þjálfa. Við höfum oft rætt það, bæði við og aðrir þjálfarar og kannski menn sín á milli að það sé alveg fullt starf að vera þjálfari og maður ætti í raun ekki að vera að gera neitt annað en ef maður hefur sjálfur stjórn á vinnutímanum og öðru þá tel ég að það sé alveg hægt að gera þetta saman. Þannig að það má segja að það gangi bara mjög vel að sameina vinnu og þjálfun hjá mér.

Hvað ertu að vinna mikið á sumrin?
Ég vinn bara fullt starf hérna hjá fyritækinu en ef ég þarf að fara á hádegi, eða ef ég þarf að taka mér frí allan daginn fyrir KR þá er það bara gert og aðrir leysa mín mál eða þá að ég geymi þau. Þannig að þetta gengur bara mjög vel en ég vinn alveg fullt starf við mitt fyrirtæki.

Hver eru þín persónulegu markmið i þjálfuninni?
Ég tek eiginlega hvern daga bara fyrir í einu. Eins og ég var að tala um áðan þá er ég í fullu starfi hérna og þetta er ekki mitt eina lífsviðurværi þannig að ég hef litið á það sem stóran kost að þjálfunin er í raun aukastarf þú hún sé í raun alls ekkert aukastarf, þetta er fullt starf að vera þjálfari. Ég hef ekki sett mér nein háleit framtíðarmarkmið í þessu, meðan gengur vel og ég hef gaman að því að þjálfa þá held ég áfram að þjálfa. Eins og þið vitið líka þá er ég nú ekkert gamall í þjálfuninni en meðan ég hef gaman að þessu og það gengur vel þá held ég áfram en það er í raun ekkert stórmál fyrir mig að hætta. Ég er búinn að þjálfa í nálægt 20 ár þar sem ég hef þjálfað yngri flokka og annað. Þetta er bara alltaf jafn gaman og þessvegna held ég áfram í þessu.

Alla leikmenn langar út fyrir landsteinana, hvernig er með þjálfarann?
Ég verð að viðurkenna að ég hef ekkert hugsað út í það. Ég hef þjálfað bæði hjá KSÍ, U-17 ára landsliðið í 5 ár og síðan var ég aðstoðarþjálfari hjá U-21 árs landsliðinu þannig að það var mjög gaman að starfa þar og núna er ég kominn í KR sem er mjög spennandi verkefni. Þegar ég fór að þjálfa ÍBV á sínum tíma var mörgum sem fannst það stórt stökk með alla pressuna sem var þar en mér fannst það bara gaman og krefjandi. Ég er ekkert að hugsa um næsta starf eða eitthvað meira heldur er ég bara að einbeita mér að því sem ég er að gera í dag. En vissulega myndi maður örugglega líta á það ef það kæmi eitthvað ótrúlega spennandi tilboð erlendis á myndi maður örugglega líta á það eins og allar áskoranir í lífinu.

Langar þig til að þjálfa landsliðið í framtíðinni?
Ég er búinn að starfa hjá KSÍ og það er mjög gott að starfa þar. En ég sæi það alveg fyrir mér ef það byðist og ég væri nógu hægur í það þá myndi ég örugglega velta því rækilega fyrir mér.

Núna ertu búinn að fá til þín nokkra leikmenn til KR, finnurðu fyrir því að það sé auðveldara að fá leikmenn þangað en til ÍBV?
Já ég hugsa að það sé hægt að segja það en ég verð nú þó að viðurkenna það að þegar ég fór til ÍBV þá gekk mér bara nokkuð vel að fá leikmenn. Það voru ekki mikil vandamál. Ég ætlaði mér að ná í ákveðna leikmenn fyrir bæði tímabilin og það tókst. Við fórum líka út og tókum leikmenn þar en við tókum líka leiki innanlands, í fyrra og hittifyrra og það voru allt hörku leikmenn. Tryggvi kom með mér úr KR í ÍBV á sínum tíma og er núna kominn aftur til KR, Einar Þór, Magnús Lúðvíks, Jón Skapta, Steingrímur kom til baka þannig að við vorum ekki í neinum leikmannavandamálum þegar ég var í ÍBV. Vissulega veit ég að það er kannski ekki eins auðvelt að fá leikmenn til ÍBV eins og til KR og þá er það kannski aðallega útaf því að menn þurfa að rífa sig upp og flytja og það er oft erfitt gagnhvart vinnu eða skóla að rífa sig upp og flytja til Vestmannaeyja enda held ég að þeir hafi verið að lenda í þessum erfiðleikum í ár. Þannig að jú vissulega er það aðeins erfiðara að fá leikmenn til ÍBV en til KR.

Hvernig er samstarfi Celtic og KR háttað?
Þegar við seljum Theodór Elmar og Kjartan Henry til Celtic þá ræddum við við Celtic um hugsanlegt samstarf og að við myndum hugsanlega fá leikmenn lánaða frá þeim og það er uppi á teningnum ef við höfum áhuga. Við höfum ekkert farið þangað ennþá en eins og ég sagði áðan þá erum við nokkuð sáttir við leikmannahópinn en ef það kæmu til dæmis upp meiðsli núna á síðustu dögunum eða við teldum okkur ekki vera með nægilega sterkan hóp þá er tímabilið nú að klárast hjá þeim og það væri alveg möguleiki að heimsækja þá og fá leikmenn hugsanlega lánaða en það er gott samstarf milli klúbbanna.

Kæmi til greina að fá Theodór og Kjartan lánaða?
Það hefur nú ekki verið rætt, ég verð nú að viðurkenna það. Eins og þið hafið kannski heyrt frá mér þá eru vandamálin kannski ekki fram á við hjá okkur. Við teljum okkur vera með ansi sterka framherja og þar af leiðandi kæmu þeir ekkert endilega til greina en jú jafnvel. En þessi lið, bæði Celtic og önnur eru farin að fara í miklar æfingaferðir á sumrin. Þau taka lungað af sumrinu í þetta, fara fyrst í hvíld og svo fara þeir í góða ferð til Ameríku eða eitthvað og ég veit að bæði Kjartan og Theodór eru að fara í slíkar ferðir í sumar. Þeir hafa staðið sig mjög vel og líkar lífið mjög vel hjá Celtic.

Hvar sérðu fyrir þér að nota Rógva Jacobsen? Hann hefur verið að spila vel bæði á miðju og í vörn.
Já ég er mjög sáttur með hann. Hann kemur hingað upphaflega sem framherji en við höfum prófað hann bæði á miðju og í vörninni og ég sé alveg fyrir mér að nota hann þar ef ég þarf á því að halda. Þetta verður bara að koma í ljós en hann hefur alveg burði til að spila hvort sem er hafsetn, miðjumaður eða framherji og við erum mjög sáttir við hann.

Hvernig gengur honum að aðlagast hérna á Íslandi?
Bara mjög vel. Hann er að vinna sem smiður og líka það sem við fengum hæstu einkunn á er að hann er frábær karakter og það er eitthvað sem við fundum strax og hann er að pluma sig mjög vel hérna. Við lítum nú ekkert á Færeyjinga sem útlendinga, ef þið ætlið að fara að telja upp útlendinga hjá KR þá er það bara einn því hann er enginn útlendingur. Hann er bara eins og við hinir og þessvegna nær hann að aðlagast vel hérna, hann skilur allt sem við segjum og við tölum bara íslensku við hann.

Einhver skilaboð að lokum til stuðningsmanna KR?
Bara mætum á völlinn allir sem einn og áfram KR!

Athugasemdir
banner
banner
banner