Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 02. febrúar 2023 10:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Haukar 
Haukar fá tvo á láni frá Fylki og unglingalandsliðsmann frá Blikum (Staðfest)
Torfi Geir.
Torfi Geir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallur Húni.
Hallur Húni.
Mynd: Haukar/Hulda Margrét
Haukar hafa fengið liðsstyrk fyrir komandi átök í 2. deild karla. Tveir leikmenn eru komnir á láni frá Fylki og þá fékk liðið mjög efnilegan markmann frá Breiðabliki.

Milos Peric, sem varði mark Hauka í fyrra, verður ekki áfram og er Torfi Geir Halldórsson kominn frá Breiðabliki.

Torfi er unglingalandsliðsmaður, á að baki einn leik fyrir U17 árið 2020 og var valinn í æfingahóp U19 á dögunum.

Hann er uppalinn hjá Fram en hefur verið á mála hjá Val og svo Breiðabliki síðustu ár. Hann er sonur handboltaþjálfarans Halldórs Jóhanns Sigfússonar.

Frá Fylki koma þeir Hallur Húni Þorsteinsson og Aron Örn Þorvarðarson. Hallur er uppalinn hjá Haukum en hefur verið hjá Fylki í tvö ár.

Hann lék einn leik í Bestu deildinni með Fylkismönnum sumarið 2021 undir stjórn Atla Sveins Þórarinssonar, núverandi þjálfara Hauka. Í fyrra spilaði Hallur níu leiki í Lengjudeildinni og skoraði eitt mark er Fylkir fór með sigur af hólmi í þeirri deild.

Hallur, sem er 19 ára gamall varnarmaður, er spenntur fyrir því að mæta aftur í uppeldisfélag sitt. „Mér líst mjög vel á sumarið sem framundan er. Við stefnum á toppbaráttu og að fara upp. Ég var í burtu í tvö ár og það er mjög fínt að koma aftur á Ásvelli. Hér líður mér mjög vel.”

Aron er tvítugur hægri bakvörður sem lék tvo leiki með Fylki er liðið komst upp úr Lengjudeildinni í fyrra.

Aron lék einnig á láni með Elliða í 3. deild síðasta sumar og skoraði eitt mark í átta leikjum þar.

„Það er gaman að prófa eitthvað nýtt. Ég stefni á að hjálpa Haukum að komast upp í Lengjudeildina. Ég er spenntur fyrir því að fá að spila hérna. Þetta er góður hópur og ég held að þetta verði flott hjá okkur,” segir Aron.

Haukar höfnuðu í níunda sæti 2. deildar í ár en það er alveg ljóst að stefnan hjá félaginu í ár er að gera mun betur en það.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner