Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 08. október 2018 16:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Björn Bergmann spilaði sig út úr landsliðinu"
Icelandair
Björn Bergmann Sigurðarson. Hann er ekki í landsliðshópnum vegna meiðsla.
Björn Bergmann Sigurðarson. Hann er ekki í landsliðshópnum vegna meiðsla.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Kristján Guðmundsson.
Kristján Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Arnór Sigurðsson.
Arnór Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Guðmundsson, nýráðinn þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar, var á línunni í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X-inu 977 á laugardag. Þar ræddi hann um íslenska landsliðið.

Íslenski landsliðshópurinn var tilkynntur á föstudag. Ísland mætir Frakklandi í vináttulandsleik í Guingamp þann 11. október en sami hópur mun svo leika gegn Sviss á Laugardalsvelli í Þjóðadeildinni þann 15. október.

Tveir leikmenn sem voru í síðustu leikjum U21-landsliðsins eru valdir; Albert Guðmundsson og Jón Dagur Þorsteinsson. Jón Dagur er valinn í fyrsta sinn í A-landsliðið en hann skoraði um helgina beint úr aukaspyrnu þegar lið hans, Vendsyssel, vann 2-1 sigur gegn Kaupmannahöfn. Jón Dagur er á láni frá Fulham.

Ekkert pláss er þó fyrir Arnór Sigurðsson, leikmann CSKA Moskvu.

Kristján tjáði sig um val Erik Hamren og Freys Alexanderssonar í útvarpsþættinum.

Allt í lagi að hafa Kolbein
„Mér finnst þetta val nokkuð eðlilegt þar sem við erum að spila við bestu lið í heimi. Engar stórar breytingar en það er verið að setja inn tvo unga og aðeins verið að hreyfa þetta til."

Valið á Kolbeini Sigþórssyni var gagnrýnt en hann hefur ekkert spilað fyrir Nantes í Frakklandi á tímabilinu. Hann er algjörlega út í kuldanum þar.

„Sú hugsun að hann sjái Kolbein í liðinu þegar við förum að spila um sæti á Evrópumótinu, mér finnst sú hugsun nokkuð eðlileg. Kolbeinn er búinn að vera meiddur lengi en hann er búinn að vera æfa á fullu að undanförnu. Hann virðist vera búinn að brenna allar brýr að baki hjá félaginu sínu."

„Ef hann er heill er hann okkar besti sóknarmaður. Vonandi byrjar hann að spila aftur í janúar."

„Við Íslendingar erum ekki vanir að hugsa svona langt fram í tímann en ég bjó og vann í Svíþjóð og þar hugsar maður alltaf langt fram í tímann. Ef að þetta er staðan, að hann er að fara að taka allar æfingar þá finnst mér þetta allt í lagi."

„Björn Bergmann og Jón Daði eru meiddir, en mér fannst Björn Bergmann stimpla sig út úr landsliðinu með frammistöðu sinni í seinustu tveimur leikjum. Alfreð er að koma úr meiðslum og spurning hvað hann spilar mikið. Ég trúi því alveg að Kolbeinn spili meira en 15 mínútur."

Af hverju ekki Arnór?
Arnór Sigurðsson (19), leikmaður sem var að spila í Meistaradeildinni með CSKA Moskvu gegn Real Madrid, er ekki í hópnum. Hann er þess í stað í U21 landsliðinu.

„Þeir geta örugglega notað Arnór í hóp, en eigum við ekki aðeins að leyfa honum að halda áfram að vaxa?"

„Þetta er búið að gerast mjög hratt hjá honum. Það var talað um það í apríl að hann væri ekki tilbúinn í sænsku úrvalsdeildinni. Hann er ekki að byrja hjá CSKA, hann er í verkefni með U21 og mér finnst það allt í lagi. Ef Arnór hefði komið inn í hópinn þá hefði Albert Guðmundsson spurt hvort hann ætti ekki að vera aftar í röðinni, Albert er búinn að bíða lengur."

„Mér finnst allt í góðu að taka inn Albert og Jón Dag, og leyfa Arnóri að spila með U21 landsliðinu. Þeir hafa örugglega drenginn í huga fyrir framtíðina."

„Ég myndi ekki taka neinn úr hópnum núna til að láta hann vera á bekknum, æfa með liðinu og missa af tveimur leikjum með U21 landsliðinu."

Hlusta má á umræðuna hérna. Þar fer Kristján meðal annars yfir þá pælingu að breyta í þriggja manna vörn.
Athugasemdir
banner
banner
banner