Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 17. maí 2012 17:23
Magnús Már Einarsson
Þjálfari Snæfells eftir 0-31 tap: Þetta var mjög gaman
Páll Margeir Sveinsson (til hægri).
Páll Margeir Sveinsson (til hægri).
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Snæfellingum gekk illa að eiga við Guðmund Viðar Mete.
Snæfellingum gekk illa að eiga við Guðmund Viðar Mete.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
,,Þetta var mjög gaman, ég hafði allavega gaman að þessu. Grasið var í fínasta lagi og það var slatti mikið af áhorfendum," sagði Páll Margeir Sveinsson spilandi þjálfari Snæfells léttur í bragði í samtali við Fótbolta.net í dag eftir 31-0 tap liðsins á heimavelli gegn Haukum í bikarnum í gær.

Þetta stóra tap hefur vakið mikla athygli en Páll Margeir segir að fastamenn hafi vantað í lið Snæfellinga og það hafi haft mikil áhrif.

,,Ég bjóst við að vera með allt annað lið í höndunum fyrir leikinn. Það vantaði sjö menn í byrjunarliðið og við vorum ekki að spila á okkar sterkasta liði. Þetta er erfitt hjá okkur út af vinnu og síðan eru einhverjir leikmenn í Reykjavík."

,,Lokahófið hjá körfuknattleiksdeildinni var í gærkvöldi og það hafði áhrif, það voru leikmenn þar sem ætluðu að spila. Allir bestu íþróttamennirnir á svæðinu á milli tvítugs og þrítugs eru í körfunni en mér heyrist að þeir hafi áhuga á að koma og styrkja okkur í sumar og ég vona að þeir komi. Það eru margir þar 1.90 á hæð, góðir hafsentar,"
sagði Páll en hann spilaði sjálfur í gær auk þess sem margir ungir leikmenn voru í liðinu.

,,Það var einn strákur úr 9. bekk sem spilaði allan leikinn og sjálfur spilaði allan leikinn en ég verð 42 ára á árinu. Það má kannski segja að það hafi verið amateur bragur á þessu. Ég hafði vonast til að Haukar myndu mæta ellefu íþróttamönnum í toppstandi en það var ekki út af þessum afföllum."

Litum ekki illa út á kafla í fyrri hálfleik:
Haukar voru 13-0 yfir í leikhléi og í síðari hálfleik héldu mörkin áfram að hrúgast inn.

,,Við spiluðum 4-5-1 og þetta var í raun eltingarleikur. Ef við hefðum verið með okkar sterkasta lið hefði þetta verið allt annað. Það hefði kannski verið betra að spila 5-4-1 eða eitthvað svoleiðis en það voru í raun allir varnarmenn nema þessi fremsti," sagði Páll en Snæfellingar áttu nokkrar álitlegar sóknir.

,,Það var kafli í fyrri hálfleik þar sem við litum alls ekkert svo illa út og það var meira segja klappað fyrir okkur eftir leik. Við fengum 5-6 sinnum nálægt vítateignum í hraðaupphlaup en við náðum ekki opnum færum."

Haukarnir komu drengilega fram:
Haukar höfðu eins og tölurnar gefa til kynna mikla yfirburði og þeir náðu oft að vinna boltann strax eftir miðju og skora.

,,Guðmundur Viðar Mete var eins og refur í hænsnakofa þegar síðari hálfleikurinn byrjaði. Hann óð alltaf upp frá miðjunni í gegnum þríhyrningsspil og sendi á einhvern sem skoraði. Þetta var eins og létt æfing fyrir þá. Ég hef samt ekki trú á öðru en að þeir eigi eftir að gera góða hluti í sumar, þeir hljóta að vera í úrvalsdeildarklassa, það getur ekki annað verið," sagði Páll sem hrósar Haukum mikið fyrir leikinn.

,,Ég er rosalega ánægður með hvað Haukarnir komu drengilega fram við okkur. Þeir sýndu virðingu, þeir voru aldrei að gera grín að einhverjum."

Hef ekki trú á öðru en að við höldum þetta út:
Snæfell er með á nýjan leik lið í þriðju deildinni í sumar eftir fjögurra ára hlé. Liðið mætir Þrótti Vogum í fyrsta leik sínum í deildinni á sunnudag.

,,Ég hef ekki trú á öðru en að við náum að halda þetta út. Það eru fleiri leikmenn hérna en var árið 2008 og það er ný kynslóð ungra leikmanna frá 15-20 ára að koma upp," sagði Páll brattur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner