Mateja Zver (Þór/KA)

Mateja Zver leikmaður Þór/KA er leikmaður 14.umferðar í Landsbankadeild kvenna að mati Fótbolta.net. Mateja fór á kostum í 5-0 sigri Þór/KA á Fjölni þegar hún skoraði þrjú fyrstu mörk liðsins og kláraði leikinn fyrir sitt lið. Þór/KA er komið á gott skrið og eru nú í 5.sæti deildarinnar með 19 stigum, tveimur stigum á eftir Stjörnunni.

Mateja Zver er tvítugur slóvenskur landsliðsmaður og kom til Þór/KA nú þegar félagaskiptaglugginn opnaðist í júlí. Hún hefur nú spilað 5 leiki fyrir liðið og skorað í þeim 5 mörk.
Eins og áður sagði stóð Mateja sig virkilega vel í leiknum og skoraði þrjú fyrstu mörk Þór/KA í 5-0 stórsigri á Fjölni. Við spurðum Mateja hvort hún væri ánægð með eigin frammistöðu
,,Já ég er ánægð með frammistöðuna en ég held að ég hefði samt getað gert meira“. sagði Mateja Zver
Mateja Zver hefur nú spilað fimm leiki fyrir Þór/KA og skorað í þeim fimm mörk en hún hafði einu sinni áður komið til Íslands, það var í landsleik með Slóveníu gegn Íslandi í júní en Ísland vann þann leik örugglega 5-0.
,,Já ég kom í sumar með landsliði Slóveníu og spilaði á Laugardalsvelli“. sagði Mateja Zver
Mateja Zver kemur úr slóvensku deildinni og við spurðum hana hvað henni fyndist um íslensku deildina.
,,Deildin er líkamlega miklu sterkari en sú deild sem ég kem úr. Í Slóveníu eru tvo sterk lið en hér eru miklu fleiri góð lið, deildin er jafnari hér en úti“. sagði Mateja Zver
Við spurðum Mateja Zver hvernig það hafi komið til að spila á Íslandi og hvort það hafi verið erfið ákvörðun.
,,Já það var svolítið erfið ákvörðun því að ég hafði fengið tilboð frá Rússlandi og Grikklandi. En eftir að hafa verið hér að spila á móti íslenska landsliðinu sá ég hvað þær eru sterkar og var því viss um að hér væri spilaður góður fótolti. Og svo horfði Dragan Stojanovic þjálfari Þór/KA á leikinn og hann hafði svo samband við mig, og vildi endilega að ég kæmi hingað í Þór/KA.“ sagði Zver
Zver bætti síðan við að hún ætlaði kannski að spila hérna á Íslandi næsta sumar en það væri þó ekki ákveðið.
Þór/KA spilar næst gegn Fylki, við spurðum að lokum hvernig sá leikur legðist í hana
,,Ég veit ekki hvernig lið Fylkir er þar sem að ég hef ekki leikið á móti þeim. En ég hef talað við þjálfarann minn og hann segir mér að Fylkir sé með gott lið svo að leikurinn getur orðið erfiður. En við ætlum auðvitað að reyna að vinna leikinn“. sagði Mateja Zver leikmaður 14 umferðar í Landsbankadeild kvenna að lokum í samtali við Fótbolta.net
Sjá einnig:
1. umferð: Katrín Jónsdóttir, Valur
2. umferð: Sophia Mundy, Afturelding
3.umferð: Björk Gunnarsdóttir, Stjarnan
4.umferð: Hólmfríður Magnúsdóttir, KR
5.umferð: Margrét Lára Viðarsdóttir, Valur
6.umferð: Marina Nesic, HK/Víkingur
7.umferð: Vesna Smiljkovic, Keflavík
8.umferð: Dóra María Lárusdóttir
9.umferð: Rakel Hönnudóttir, Þór/KA
10.umferð: Edda Garðarsdóttir, KR
11.umferð: Hólmfríður Magnúsdóttir, KR
12.umferð: Margrét Lára Viðarsdóttir, Valur
13.umferð: Fanndís Friðriksdóttir, Breiðablik
Næsta umferð í Landsbankadeild kvenna hefst með einum af stórleikjum sumarsins þegar KR tekur á móti Val í Frostaskjóli á sunnudaginn kl.16.00. Umferðin klárast síðan á mánudaginn með fjórum leikjum þar sem meðal annars Blikar í þriðja sæti taka á móti Stjörnunni sem er í fjórða sæti.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fylgjast með gangi mála í öllum fimm leikjunum og að lokum velja leikmann 15.umferðar í Landsbankadeild kvenna.
Athugasemdir