Delap nálgast Man Utd - Rift við Laporte - Arsenal og Liverpool berjast um Huijsen
   mið 09. júlí 2008 15:33
Hafliði Breiðfjörð
Leikmaður 9.umferðar í Landsbankadeild kvenna
Rakel Hönnudóttir - Þór/KA
Kvenaboltinn
Rakel Hönnudóttir í landsleik með Íslandi í síðasta mánuði.
Rakel Hönnudóttir í landsleik með Íslandi í síðasta mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rakel í leik með Þór/KA í fyrstu umferð Landsbankadeildar kvenna er liðið mætti HK/Víking í Kórnum í Kópavogi.
Rakel í leik með Þór/KA í fyrstu umferð Landsbankadeildar kvenna er liðið mætti HK/Víking í Kórnum í Kópavogi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rakel Hönnudóttir framherji Þór/KA er leikmaður níundu umferðar í Landsbankadeild kvenna. Rakel átti frábæran leik með liði sínu sem burstaði Keflavík á Keflavíkurvelli með fimm mörkum gegn engu í gærkvöld. Hún skoraði þrjú mörk í leiknum og var allt í öllu í sóknarleik liðsins og fór oft illa með varnarmenn Keflavíkur.

Rakel Hönnudóttir
Rakel Hönnudóttir er 19 ára gamall framherji. Hún hefur átt sæti í íslenska landsliðshópnum þetta árið og hefur leikið sjö landsleiki fyrir Ísands hönd á árinu og skorað í þeim eitt mark.

Hún hefur allan sinn feril leikið með Þór og samstarfsfélögum félagsins og hóf sinn meistaraflokksferil með Þór/KA/KS sumarið 2004. Samtals hefur hún leikið 68 leiki í deild, bikar og aukakeppni fyrir félagið og skorað í þeim 63 mörk.
,,Ég var mjög ánægð með frammistöðuna í leiknum, það gekk flest upp hjá okkur," sagði Rakel í samtali við Fótbolta.net í dag eftir að við tilkynntum henni að hún hafi verið valin leikmaður 9. umferðar.

Stórsigur Þór/KA í gær, 0-5 á Keflavíkurvelli þótti óvenjulega stór en átti Rakel ekki von á meiri mótspyrnu í gær? ,,Reyndar, en þær voru samt alls ekki lélegar. Við skipulögðum okkur vel og kláruðum færin okkar," sagði hún.

,,Við áttum von á hörkuleik og bjuggum okkur undir að Keflavíkurliðið myndi vera mjög sterkt, við skipulögðum okkur vel og náðum að stoppa þeirra sterkustu leikmenn."

Rakel Hönnudóttir hefur vakið mikla athygli sína fyrir frammistöðu sína með liði Þór/KA. Nú er félagaskiptaglugginn að opna að nýju og við spurðum hana hvort einhver félög hafi haft samband við hana?

,,Ég hef ekki fengið neinar fyrirspurnir núna, ég er náttúrulega á samning hjá Þór. Ég skoða ýmislegt en hef nokkrum sinnum hafnað félögum. Það hefur verið síðustu tvö sumur, það var alls ekki erfitt að hafna því fyrsta sumarið. Ég skoðaði það aðeins síðasta sumar en ákvað svo að vera bara hérna."

,,Ég læri helling á þjálfurunum sem eru hérna hjá Þór/KA, þeir eru mjög góðir, meðan ég er að læra er ég ekki að missa af neinu," sagði þessi mikli markahrókur að lokum í samtali við Fótbolta.net.


Sjá einnig:
1. umferð: Katrín Jónsdóttir, Valur
2. umferð: Sophia Mundy, Afturelding
3.umferð: Björk Gunnarsdóttir, Stjarnan
4.umferð: Hólmfríður Magnúsdóttir, KR
5.umferð: Margrét Lára Viðarsdóttir, Valur
6.umferð: Marina Nesic, HK/Víkingur
7.umferð: Vesna Smiljkovic, Keflavík
8.umferð: Tilkynnt síðar

Næsta umferð Landsbankadeildar kvenna fer fram næstkomandi þriðjudagskvöld, 15. júlí þegar heil umferð verður leikin á sama tíma, klukkan 19:15. Að henni lokinni munum við tilkynna um val á leikmanni tíundu umferðar.

Athugið: Ekki er enn búið að velja leikmann 8. umferðar þar sem enn á eftir að leika leik Þór/KA og Stjörnunnar sem var frestað.
Athugasemdir
banner