Hólmfríður Magnúsdóttir (KR)

Hólmfríður Magnúsdóttir kantmaður úr KR er leikmaður elleftu umferðar í Landsbankadeild kvenna. Hólmfríður stóð sig frábærlega í 3-1 sigri KR á Þór/KA þegar hún skoraði eitt mark og lagði upp annað. Hólmfríður Magnúsdóttir er fyrsti leikmaðurinn í sumar til að vera tvisvar valin leikmaður umferðanna hjá Fótbolta.net.
Hólmfríður hefur nú skorað 10 mörk í 11 leikjum með KR og er markahæsti leikmaður KR og næst markahæst í Landsbankadeild kvenna.
Hólmfríður hefur nú skorað 10 mörk í 11 leikjum með KR og er markahæsti leikmaður KR og næst markahæst í Landsbankadeild kvenna.

Hólmfríður Magnúsdóttir er 23 ára kantmaður sem spilar hjá KR. Hólmfríður spilar vanalega á vinstri kantinum en hefur einnig spilað fremst á miðjunni hjá KR í sumar. Hólmfríður er fastamaður í landsliðinu og hefur að baki 31 leik fyrir A landslið Íslands og 26 fyrir yngri landslið Íslands.
Hólmfríður var útnefnd besti leikmaður Íslandsmótsins valið af leikmönnum og þjálfurum liðanna á lokahófi KSÍ eftir síðasta tímabil. Hólmfríður hefur spilað fyrir danska úrvalsdeildarliðið Fortuna Hjörring og ÍBV í Vestmannaeyjum en Hólmfríður er uppalin hjá Fylki í Árbænum. Hólmfríður hefur spilað fyrir KR í fjölmörg ár og á að baki 115 leiki í efstu deild og hefur skorað í þeim 96 mörk.
Hólmfríður er fyrsti leikmaðurinn í deildinni sem hefur hlotið þessa tilnefningu tvisvar, við spurðum Hólmfríði hvort valið kæmi henni á óvart.
,,Þetta kom mér nú skemmtilega á óvart og það er alltaf gaman að fá viðurkenningar”sagði Hólmfríður.
Hólmfríður er markahæst í liði KR með 10 mörk, við spurðum hana hvort að Helena Ólafsdóttir þjálfari KR-liðsins ætlaði ekki bara að færa hana ofar á völlinn til að hún myndi skora meira.
,, Nei það held ég nú ekki ég kann best við mig á vinstri kannt og hef alltaf spilað þar nýtist ég best.“ sagði Hólmfríður en hún spilar jafnan á vinstri kanti.
Hólmfríður Magnúsdóttir og Hrefna Jóhannesdóttir hafa skorað samanlagt 19 mörk fyrir KR og verið duglegar að leggja upp hvor á aðra. Við spurðum Hólmfríði hvort að þær æfðu eitthvað sérstaklega saman aukalega.
,,Nei við gerum það reyndar ekki , en við erum búnar að spila saman í mörg ár og þekkjum hvor aðra mjög vel inn á vellinum. Þar af leiðandi náum við mjög vel til hvor annara.” sagði Hólmfríður.
Hólmfríður skoraði þriðja mark KR í leiknum sem var að dýrari gerðinni. Hún tók á rás í átt að markinu og þrumaði boltanum uppi í bláhornið algjörlega óverjandi fyrir markvörð Þór/KA. Markið verður án efa eitt af mörkum sumarsins, auk þess að skora lagði Hólmfríður einnig upp mark, við spurðum hvort að henni líkaði betur að leggja upp eða skora sjálf.
,,Það er alltaf gaman að bæði skora og leggja upp og mér er sama hvort svo lengi sem boltinn endi bara í markinu þá er ég ánægð”. sagði Hólmfríður
KR hefur einungis fengið á sig sjö mörk, fæst allra liða og er Hólmfríður ánægð með vörn og markvörslu liðsins.
,,Við erum með sterka varnamenn í hverri stöðu og þær ná virkilega vel saman. Maja (María B. Ágústsdóttir) markmaður er líka búin að bjarga okkur oft og koma með þvílikt góðar vörslur inn á milli þegar þess þarf og hún er svo sannarlega komin í sitt gamla form” sagði Hólmfríður þegar við spurðum hana út í varnarleik liðsins.
Dómgæslan bæði í Landsbankadeild kvenna og karla hefur verið mikið í umræðunni og því spurðum við Hólmfríði hvernig henni hafi fundist dómgæslan í sumar.
,,Mér finnst dómgæslan hafa verið virkilega léleg. Það er alveg greinilegt að sumir leikmenn komast upp með alltof mikið og það virðist ekki það sama ganga yfir alla. Ég get vel tekið eitt dæmi úr síðasta leik þar sem Embla (S. Grétarsdóttir) var gjörsamlega straujuð niður og er varla farin að stíga í fótinn og það var ekki einu sinni dæmd aukaspyrna. Ég held að það segi allt sem segja þarf. En það eru auðvitað sumir ágætir en það mættu vera mikið fleiri sem geta haldið stjórn á leiknum.“ sagði Hólmfríður um dómgæsluna í sumar.
Við spurðum Hólmfríði hvernig henni hafi fundist umfjöllunin hafa verið í sumar.
,,Mér finnst hún frábær á Fótbolta.net þar sem hver einasti leikur er tekinn fyrir sem er alveg þvílík framför og bara jákvætt. Í Fréttablaðinu er bara tekin einn leikur fyrir sem er alveg sorglegt þeir mættu svo sannarlega bæta sig í því þar sem öll liðin í deildinni eiga skilið meiri umfjöllun. Valur er búið að eiga Blaðið í sumar svolítið finnst mér. Rúv byrjaði með einhverja þætti fyrr í sumar, ég hef ekki séð þá lengi og þeir eru með sýningarréttinn á kvennaknattspyrnu og eru ekki búnir að sýna einn leik sem er mjög dapurt þar sem kvennaknattspyrnan er á svo mikilli uppleið”. sagði Hólmfríður þegar við spurðum hana um umfjöllunina í sumar.
Næsti leikur KR er gegn Breiðabliki en það hafa jafnan verið stórskemmtilegir leikir. KR-liðið hefur lent í nokkrum áföllum fyrir leikinn þar sem Embla Grétarsdóttir og Katrín Ómarsdóttir spila væntanlega hvorugar vegna meiðsla og Ólína G. Viðarsdóttir verður í leikbanni vegna brottvísunar í síðasta leik.
,,Leikurinn leggst mjög vel í mig og KR stelpurnar það er alltaf gaman að fara á Blikavöllinn,og mæta Vöndu gamla þjálfaranum okkar. Það er bara tilhlökkun fyrir morgundeginum.” sagði Hólmfríður þegar við spurðum hvernig leikurinn legðist í hana.
,,Það er ekki vitað um Katríni en ég vona að hún verði klár í slaginn á morgun en það er síðasti leikur hennar fyrir KR liðið í sumar því hún er að fara til Bandaríkjanna í nám. Það er mikill missir af Ólínu og Emblu sem hafa verið að spila frábærlega fyrir KR í sumar, en við höfum sterka menn sem koma inn í þær stöður og ég hef engar áhyggjur, þær munu leysa það” sagði Hólmfríður Magnúsdóttir leikmaður elleftu umferðar að lokum við Fótbolta.net í dag.
Sjá einnig:
1. umferð: Katrín Jónsdóttir, Valur
2. umferð: Sophia Mundy, Afturelding
3.umferð: Björk Gunnarsdóttir, Stjarnan
4.umferð: Hólmfríður Magnúsdóttir, KR
5.umferð: Margrét Lára Viðarsdóttir, Valur
6.umferð: Marina Nesic, HK/Víkingur
7.umferð: Vesna Smiljkovic, Keflavík
8.umferð: Tilkynnt síðar
9.umferð: Rakel Hönnudóttir, Þór/KA
10.umferð: Edda Garðarsdóttir, KR
Tólfta umferð Landsbankadeildar kvenna hefst í dag með stórleik Breiðabliks og KR og endar á miðvikudagskvöld með leik Vals og Fjölnis. Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fylgjast með gangi mála og að lokum velja leikmann 12.umferða.
Athugið: Leikmaður 8.umferðar verður tilkynntur á mánudag en frestaður leikur Þór/KA og Stjörnunnar var spilaður í gærkvöldi
Athugasemdir