
Margrét Lára Viðarsdóttir sóknarmaður úr Val er leikmaður fimmtu umferðar í Landsbankadeild kvenna. Margrét Lára ásamt samherjum sínum í Val fór á kostum í 9-1 ótrúlegum sigri á Keflavík suður með sjó þar sem Margrét Lára átti þátt í að minnsta kosti 6 mörkum liðsins. Leikmenn Vals skiptu mörkunum á milli sín en þessi 9 mörk skiptust á alls 8 leikmenn, Margrét Lára skoraði sjötta mark leiksins.
Margrét Lára er markahæsti leikmaður deildarinnar með 6 mörk í 5 leikjum en Valur er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir fimm umferðir.
Margrét Lára er markahæsti leikmaður deildarinnar með 6 mörk í 5 leikjum en Valur er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir fimm umferðir.

Margréti Láru þarf vart að kynna en hún var valin íþróttamaður ársins 2007. Hún er fastamaður í landsliði Íslands og á að baki 41 leik fyrir Íslands hönd og hefur skorað í þeim 37 mörk. Margrét hefur spilað 104 leiki í efstu deild kvenna og hefur skorað í þeim 169 mörk. Hún á núverandi met í fjölda marka á einu tímabili sem hún hefur slegið 2 ár í röð. Metið er hreint ótrúlegt eða 38 mörk í 16 leikjum. Margrét er uppalin í ÍBV en þetta er fjórða tímabil Margrétar með Íslandsmeisturum Vals. Hún fór til þýska úrvalsdeildarliðsins Duisburg haustið 2006 en snéri aftur til Vals vorið 2007.
,,Já, tilnefningin kom mér svo sannarlega á óvart,”, sagði Margrét Lára þegar við spurðum hana hvort tilnefningin hafi komið á óvart
Valur sigraði Keflavík 9-1 í hreint mögnuðum leik þeirra, við spurðum Margréti Láru út í leikinn.
,,Mér fannst við spila þennan leik virkilega vel á móti sterku Keflarvíkurliði. Við vorum vel skipulagðar og þrátt fyrir erfiðar aðstæður, mikið rok og rigningu lögðum við okkur fram við að spila góðan fótbolta,” sagði Margrét Lára
Valur skoraði 9 mörk í leiknum eins og áður sagði og 4 þeirra komu eftir hornspyrnur. Margrét Lára tekur hornspyrnur hjá Val og þær voru hreint magnaðar í þessum leik og ávallt skapaðist hætta eftir spyrnurnar.
,,Ég hef ekkert æft þær sérstaklega en við leggjum mikið upp úr því að vera sterkar í föstum leikatriðum því það hefur gefið okkur mikið í gegnum árin. Við æfum þetta atriði eins og hver önnur að sjálfsögðu,” sagði Margrét Lára þegar við spurðum hana hvort hún væri að æfa hornspyrnur aukalega á undirbúningstímabilinu.
Málfríður Erna Sigurðardóttir skoraði 2 mörk í leiknum og stóð sig frábærlega en hún spilaði fremst á miðjunni hjá Val. Samspil hennar og Margrétar Láru vakti mikla athygli og virtist sem þær þekktu hvor aðra út og inn. Fimmta mark leiksins kom einmitt þegar Margrét átti frábæra hælsendingu á Málfríði sem skoraði fallegt mark.
,,Við höfum lent í ákveðnum erfiðleikum með að leysa stöðu fremasta miðjumanns eftir að Guðný Björk Óðinsdóttir meiddist en Fríða hefur verið að koma gríðarlega sterk inn undanfarið og leyst þetta ásamt Katrínu með stakri prýði. Fríða er frábær leikmaður með mikinn leikskilning sem frábært er að spila með og við náum vel saman eins og allt liðið,” sagði Margrét Lára þegar við spurðum hana hvort að þær tvær væru nýjasta senterapar Vals.
Margrét Lára er sem stendur markahæsti leikmaður Landsbankadeildar kvenna með 6 mörk í 5 leikjum.
,,Jú jú það er gaman að því en það sem skiptir öllu máli er að liðið sé að spila vel og vinna leiki og það er það sem ég er ánægðust með,”, sagði Margrét Lára þegar við spurðum hana hvort hún væri ekki ánægð með að vera markahæst.
Margrét Lára hefur átt við meiðsli að stríða í læri undanfarið og hefur þar af leiðandi ekki náð að æfa 100% síðustu vikur, en er Margrét búin að jafna sig á meiðslunum?
,,Það má segja að ég sé á réttri leið. Ég hef lítið getað æft í nokkrar vikur og einungis getað spilað leikina með mikilli hjálp frábærra sjúkraþjálfara bæði hjá Val og landsliðinu. Ég vona að ég sé að verða laus við þessi meiðsli og get þá farið að einbeita mér að því að koma mér í 100% stand,”sagði Margrét Lára um meiðslin.
Valsstúlkur eru á toppi deildarinnar með fullt hús stiga og frábæra markatölu 25-3.
,,Ég er virkilega ánægð með það en það er mikið eftir enn og hlutirnir geta breyst á stuttum tíma. Við þrufum að vera á tánum í hverjum leik og berjast fyrir hlutunum ef við ætlum okkur að vinna hvern leik.”
Margréti Láru finnst deildin vera orðin jafnari og liðin vera að koma skipulagðari til leiks í ár en áður.
,,Mér finnst deildin vera að spilast mjög skemmtilega. Það virðist sem allir geta tekið stig af öllum. Mér finnst liðin vera skipulagðari í ár en verið hefur undanfarin ár það gerir leikina jafnari og þar með skemmtielgri fyrir vikið,” sagði Margrét Lára aðspurð um deildina.
Næsti leikur Vals verður annar stórleikja sumarsins en þá taka Íslandsmeistararnir á móti Bikarmeisturum KR, þessi tvö lið hafa verið í algjörum sérflokki og má búast við svakalegum leik.
,,Leikurinn leggst bara mjög vel í mig. Það er alltaf gaman þegar Reykjarvíkurstórveldin mætast. KR er með hörkulið og við verðum að eiga okkar besta leik ef við ætlum okkur 3 stig á miðvikudaginn," sagði Margrét Lára um leikinn að lokum við Fótbolta.net en leikurinn verður miðvikudaginn 11. júní á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda.
Sjá einnig:
1. umferð: Katrín Jónsdóttir, Valur
2. umferð: Sophia Mundy, Afturelding
3.umferð: Björk Gunnarsdóttir, Stjarnan
4.umferð: Hólmfríður Magnúsdóttir, KR
Næsta umferð Landsbankadeildar kvenna verður miðvikudaginn 11.júní þar sem 2 leikir fara fram. Þá mætast Valur og KR í stórleik umferðarinnar og Stjarnan tekur á móti Breiðabliki í athyglisverðum leik. Umferðin klárst síðan fimmtudaginn 12.júní með 3 leikjum. Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fylgjast með gangi mála í öllum 5 leikjunum og að lokum velja leikmann 6. umferðar.
Athugasemdir