
Katrín Jónsdóttir miðjumaður úr Val er leikmaður fyrstu umferðar í Landsbankadeild kvenna. Katrín Jónsdóttir stóð sig frábærlega á miðju Vals í 5-1 sigri liðsins á Þór/KA en Íslandsmeistararnir eru á toppi deildarinnar eftir fyrsta leik. Katrín skoraði tvívegis í leiknum, eitt með skalla og annað með vinstri.

Katrín Jónsdóttir er þrítugur miðjumaður og er fyrirliði Íslandsmeistara Vals og íslenska kvennalandsliðsins. Hún spilaði á árum áður með norsku liðunum Kolbotn og Amazon Grimstad og íslensku liðunum Breiðablik og Stjörnunni. Katrín á landsleikjamet kvenna en hún hefur nú spilað 72 leiki fyrir A landslið Íslands og skorað í þeim 10 mörk.
Katrín sagði í gær við Fótbolta.net að tilnefningin hefði komið sér á óvart. ,,Já, verð að segja það. Það hafa ekki verið svona útnefningar áður í kvennaboltanum. Skemmtileg tilbreytni hjá Fótbolti.net,” sagði hún.
Katrín skoraði 2 mörk í leiknum á fyrstu 5 mínútum leiksins og það má segja að Katrín hafi klárað leikinn fyrir sitt lið strax í byrjun.
,,Ég skoraði eitt með vinstri af stuttu færi eftir sendingu frá Dagnýju, og seinna var með skalla eftir hornspyrnu frá Margréti,” sagði Katrín um mörkin tvö.
Katríni fannst Valur byrja leikinn vel en tempóið detta örlítið niður eftir því sem leið á leikinn og telur ástæðuna líklega vera spennufall þar sem þetta var fyrsti leikur liðsins.
,,Ég var ánægð með fyrri hálfleikinn. Við komum einbeittar til leiks og byrjuðum af fullum krafti. Var hinsvegar ekki nógu sátt með seinni hálfleikinn. Tempóið datt mikið niður."
,,Vorum ekki eins hættulegar sóknarlega og vorum ekki nógu nálægt mönnunum varnarlega. Tel þetta samt ekki vera óeðlilegt, og vil skrifa þetta á spennufall eftir mikla bið og tilhlökkun fyrir fyrsta leik í Íslandsmóti.”
En hvað fannst Katríni um aðra leiki í umferðinni, kom henni eitthvað á óvart?
,,Leikirnir voru jafnir, og í Keflavík réðust úrslitin ekki fyrr en á lokamínútunum. Greinilegt að liðin koma vel undirbúin til leiks. Lofar góðu fyrir sumarið.”
Íslandsmeisturum Vals var spáð öðru sæti í mótinu, hvað fannst Katríni Jónsdóttir fyrirliða liðsins um það?
,,Þessi spá er tekin allt of hátíðlega að mínu mati og verð að segja að ég spái lítið í þetta,” sagði Katrín Jónsdóttir, leikmaður 1.umferðar, að lokum við Fótbolta.net.
Næsta umferð Landsbankadeildar kvenna verður sunnudaginn 18.maí þar sem fjórir leikir fara fram og endar 19.maí á Akureyri með viðureign Þór/KA og KR.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fylgjast með gangi mála í öllum 5 leikjunum og að lokum velja leikmann 2. umferðar.
Athugasemdir