
Sophia Andera Mundy miðjumaður úr Aftureldingu er leikmaður annarrar umferðar í Landsbankadeild kvenna. Sophia stóð sig frábærlega á miðju Aftureldingar í 2-0 sigri liðsins á Fylki. Sophia lagði upp fyrsta mark leiksins og var yfirburðarleikmaður á vellinum en þetta var fyrsti sigur nýliðanna frá Mosfellsbænum í Landsbankadeildinni.

Sophia Andrea Mundy er skapandi miðjumaður frá Houston/Texas í Bandaríkjunum og var af mörgum talin yfirburðarleikmaður í 1.deildinni í fyrra.
Hún skoraði 13 mörk í 14 leikjum fyrir Aftureldingu á síðasta tímabili og var langmarkahæsti leikmaður liðsins. Hún spilar í ár sitt fyrsta tímabil í Landsbankadeild kvenna.
Sophia Mundy sagði í gær við Fótbolta.net að tilnefningin hefði komið sér á óvart
“Það kemur mér virkilega á óvart að hafa verið valin. Ég frétti af því í gegnum síman við þjálfarann minn og ég var hissa. Það eru svo margir góðir leikmenn í þessari deild. Þannig að hafa verið valin leikmaður annarrar umferðar er mikill heiður og ég er mjög þakklát fyrir það.”
Aðspurð um leikinn gegn Fylki hafði Sophia þetta að segja
“Mér fannst bæði lið sýna mikil gæði í leiknum. Við börðumst vel og skoruðum tvö mörk og héldum áfram að berjast þar til lokaflautið kom. Það var frábær tilfinning að fá þrjú stig úr leiknum. Vörnin stóð sig vel og sóknarlega kláruðum við okkar. Þetta var ekki auðveldur leikur því Fylkir er með gott lið. “
En hvað finnst leikmanni 2.umferðar um íslensku deildina?
“Ef ég á að vera hreinskilin þá vissi ég ekki hvers ég átti að vænta þegar ég kom hérna í fyrsta skiptið. Þegar ég byrjaði að spila þá byrjaði ég að skilja hvernig fótbolti er spilaður hérna. Leikmenn eru mjög klárir með góðan leikskilning og eru ekki hræddir við að spila fast. Vellirnir og aðstæðurnar eru mjög góðar, allavega það sem ég hef séð, þannig að liðin og leikmennirnir hafa allt til að undirbúa sig og ná árangri. Það eru gæði í fótboltanum og liðin eru vel skipulögð með góða leikmenn. Ég er mjög ánægð að vera hluti af þessari deild"
“Ég spilaði í 1.deild í sumar og mér fannst gæði í deildinni. Betri liðin voru á toppnum með betri leikmenn. En núna geri ég mér grein fyrir því að það er mikill munur þar sem við spilum núna í Landsbankadeildinni. Ég reyndar bjóst alveg við því en ég sé muninn núna. Hraðinn í leiknum er miklu meiri, það er spilað með 1-2 snertingum og boltinn gengur hratt á milli manna. Ég býst við því að hver einasti leikur í Landsbankadeildinni verði erfiður og við verðum að einbeita okkur vel að hverjum og einum leik ef við ætlum að fá eitthvað útúr þeim."
En hvaða lið eru líklegust að vinna deildina að mati Sophiu
“Það sem ég hef heyrt og veit um liðin, þá býst ég við því að Valur, Breiðablik og KR muni berjast um sigurinn. Þetta eru mjög vel skipulögð lið með góða leikmenn. Ég hef trú á því að ef okkar lið Afturelding, heldur einbeitingu og vinnur vel í hverri viku, þá munum við standa okkur og veita efstu liðunum mikla samkeppni.”
Afturelding spilar næsta leik núna á föstudag kl. 19.15 og er hann á móti Stjörnunni á heimavelli Aftureldingar
“Markmið okkar í hverjum leik er að vinna og fá þrjú stig. Það er gott að spila heima og hafa stuðningsmenninar á okkar bandi. Við erum búnar að þjappa okkur enn betur saman núna en í fyrsta leiknum og það sýndi sig í næsta leik á móti Fylki. Við höldum áfram að stilla liðið saman á æfingum og þegar Stjarnan kemur á Varmárvöll á föstudag þá verðum við tilbúnar og skipulagðar. Við verðum tilbúnar að spila við gott lið og ná góðum úrslitum þar af leiðandi. “
Sagði Sophia Andrea Mundy í lokin við Fótbolta.net
Næsta umferð Landsbankadeildar kvenna verður föstudaginn 23.maí þar sem fjórir leikir fara fram og endar 24.maí með leik HK/Víkings og Þór/KA.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fylgjast með gangi mála í öllum 5 leikjunum og að lokum velja leikmann 3. umferðar.
Athugasemdir