Edda Garðarsdóttir, KR

Edda Garðarsdóttir miðjumaður KR er leikmaður tíundu umferðar í Landsbankadeild kvenna. Edda átti frábæran leik með liði sínu sem burstaði Keflavík með fjórum mörkum gegn engu í Frostaskjóli á þriðjudagskvöld.
Edda lagði upp þrjú mörk af fjórum auk þess lagði hún upp fullt af færum fyrir félaga sína. Hún var óheppin síðan að skora ekki sjálf í leiknum en hún átti afmæli þennan dag.
Edda lagði upp þrjú mörk af fjórum auk þess lagði hún upp fullt af færum fyrir félaga sína. Hún var óheppin síðan að skora ekki sjálf í leiknum en hún átti afmæli þennan dag.

Edda Garðarsdóttir er 29 ára miðjumaður og ein þekktasta knattspyrnukona okkar Íslendinga. Hún hefur verið fastamaður í A-landsliði Íslands í rúmlega áratug og á að baki 60 leiki og hefur skorað í þeim 2 mörk.
Edda hefur spilað lengst af með KR en tímabilin 2005 og 2006 spilaði hún með liði Breiðabliks sem varð tvöfaldur meistari fyrra árið hennar. Hún hefur nú spilað 111 leiki í efstu deild og skorað í þeim 33 mörk og á þeim tíma hefur hún orðið sex sinnum Íslandsmeistari og fjórum sinnum Bikarmeistari.
KR sigraði Keflavík 4-0 eins og áður hefur komið fram og Eddu fannst KR jafnvel hafa getað unnið leikinn enn stærra en hún hafði mjög gaman af leiknum.
,,KR - völlurinn var pínu blautur og þungur, einsog örugglega allsstaðar á Íslandinu á þriðjudaginn eftir vætusama helgi. Annars var þetta leikur glataðra tækifæra hjá okkur, hefðum getað skorað mun fleiri mörk ef við hefðum nýtt færin okkar. En spilamennskan hjá okkur var fín og léttari en vananlega framan af leik. Ég veit að ég skemmti mér mjög vel meiripart leiks, finnst alltaf gaman að fá að spila leikina með KR. En það verður allt auðveldara þegar það er létt yfir fólki og þegar við spilum fótbolta.” sagði Edda aðspurð út í leikinn
Edda átti virkilega góðan leik á miðjunni og lagði upp þrjú síðustu mörk KR af fjórum en hvað fannst Eddu sjálfri um frammistöðuna?
,,Semi, ég vil alltaf gera betur. Ég var ekki 100% ánægð með minn leik þarna á þriðjudaginn, enda átti ég að skora, átti nokkur skot á markið sem ég hefði mátt vanda mig betur með – þó það sé frábært að geta lagt upp fyrir félagana. Var svekkt yfir því að Dagmar hafi ekki náð að skora í meistaraflokknum á þriðjudaginn, en hún er búin að vera iðin við kolann sem framherji í öðrum flokki. KR stelpur kláruðu 4 af fjölmörgum færum sem var frábært fyrir okkur á þriðjudaginn og fín afmælisgjöf! 4 er góð tala.” sagði Edda um eigin frammistöðu í leiknum.
KR sigraði Keflavík 2-1 í fyrsta leik sínum í sumar en burstuðu þær síðan 4-0 núna í seinni umferð, við spurðum Eddu hvort að KR liðið væri búið að bæta sig svona mikið á þessum tíma.
,,Leikur seinni umferðar var áþekkur þeim í þeirri fyrri. En fyrri leikurinn við Keflavíkurstúlkur var mikill baráttuleikur, enda Keflavíkurstúlkur mjög fastar fyrir og erfiðar heim að sækja. Þetta er einsog í körfunni, Keflavík – KR er alltaf baráttuleikur. Þar vorum við spjaldaðar fyrir kjaft þegar við vældum einsog kerlingar undan harkalegum tæklingum, enda miklar „dívur“? En við áttum fjölmörg færi í þeim leik sem ekki nýttust og Jelena fór á kostum, þó að ekki hafi mikið verið fjallað um það eftir leik. Ætli við séum ekki orðnar ákveðnari fyrir framan markið bara” sagði Edda.
Nú er mótið rétt hálfnað og KR er þremur stigum á eftir Val sem leiðir mótið, en býst Edda við því að mótið ráðist á markatölu að því gefnu að KR vinni heimaleik sinn gegn Val?
,,Ef ég vissi það bara, Valur er í 1. sæti einsog er og hafa ekki stigið feilspor. Eitt veit ég að við lesum um það á www.fotbolti.net í haust þegar mótið er búið hvernig þetta fer allt saman.” sagði Edda
Edda er einn leikjahæsti leikmaður mótsins frá upphafi, finnst henni deildin hafa breyst mikið á þessum árum?
,,já, algjör kúvending frá því ég spilaði minn fyrsta leik, allt önnur íþrótt. Það er komin mun meiri alvara í túttuboltann en var áður. Því er að þakka betri umgjörð í kvennaboltanum hjá félagsliðum og landsliðum kvenna, betri alhliða þjálfun leikmanna í mörgum liðum, reynslan er að skila sér hjá þjálfurum í efstu deild kvenna, og breyttu hugarfari leikmanna. "
,,Við spilum betri knattspyrnu, enda margir leikmenn sem eru að skila sér upp í meistaraflokk úr yngri flokkum félaganna sem hafa fengið góða/rétta þjálfun, eru topp íþróttakonur í góðu líkamlegu formi og eru með góðan leikskilning. Flottar stelpur þessi spútnik knattspyrnukvendi.”
,,Mörg félaganna eru farin að gera uppeldissamninga við leikmenn yngri flokka og það er ávísun á enn bjartari og betri framtíð í kvennaboltanum, jibbí. Kvennaboltinn er áferðafegurri en karlaboltinn að mörgu leyti því það er minna um „kick-and-run“ lið í kvennadeildinni í ár, en í karlaboltanum, já og hana nú. Þeir sem halda öðru fram hafa ekki komið á kvennaleik / né heldur kvennalandsleik í ár. “ sagði Edda um hversu mikið kvennaknattspyrnan hefur breyst á síðustu árum.
KR liðið er núverandi bikarmeistariog spilar gegn Fylki í bikarnum í kvöld í Árbænum. Hvernig leggst leikurinn í Eddu?
,,Vel, það er alltaf gaman að spila á Fylkisvelli. Stelpurnar spila fast og eru vinnusamar, og það vantar aldrei baráttu í lið sem Bubbi er að þjálfa, aldrei neitt gefins. Við KR stelpur komum ákveðnar til leiks og ætlum að spila góðan fótbolta í kvöld.” Sagði Edda Garðarsdóttir leikmaður tíundu umferðar í Landsbankadeild kvenna að lokum við Fótbolta.net í dag.
Sjá einnig:
1. umferð: Katrín Jónsdóttir, Valur
2. umferð: Sophia Mundy, Afturelding
3.umferð: Björk Gunnarsdóttir, Stjarnan
4.umferð: Hólmfríður Magnúsdóttir, KR
5.umferð: Margrét Lára Viðarsdóttir, Valur
6.umferð: Marina Nesic, HK/Víkingur
7.umferð: Vesna Smiljkovic, Keflavík
8.umferð: Tilkynnt síðar
10.umferð: Rakel Hönnudóttir, Þór/KA
Næsta umferð Landsbankadeildar kvenna fer fram næstkomandi þriðjudagskvöld, 22. júlí þegar heil umferð verður leikin á sama tíma, klukkan 19:15. Að henni lokinni munum við tilkynna um val á leikmanni elleftu umferðar.
Athugið: Ekki er enn búið að velja leikmann 8. umferðar þar sem enn á eftir að leika leik Þór/KA og Stjörnunnar sem var frestað.
Athugasemdir