Delap nálgast Man Utd - Rift við Laporte - Arsenal og Liverpool berjast um Huijsen
   fös 13. júní 2008 15:44
Fótbolti.net
Leikmaður 6.umferðar í Landsbankadeild kvenna
Marina Nesic (HK/Víkingur)
Kvenaboltinn
Marina Nesic í leiknum í gærkvöldi
Marina Nesic í leiknum í gærkvöldi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hin serbneska Marina Nesic sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir HK/Víking í gærkvöldi á móti Keflavík er leikmaður sjöttu umferðar í Landsbankadeild kvenna. Marina Nesic átti fantagóðan leik á miðjunni hjá HK/Víking og skoraði 2 stórglæsileg mörk þar af eitt beint úr aukaspyrnu. HK/Víkingsliðið átti í heild mjög góðan leik og vann sinn fyrsta sigur í deildinni en þær gjörsigruðu Keflavík 4-1.

Marina Nesic
Marina Nesic er nýorðin tvítug og var að spila sinn fyrsta leik í Landsbankadeild kvenna í gærkvöldi. Hún er sókndjarfur miðjumaður sem skorar mikið af mörkum og leggur mikið upp fyrir samherja sína. Hún er serbneskur landsliðsmaður og spilaði meðal annars í leik Serba og Íslendinga þegar Ísland lagði þær með fjórum mörkum gegn engu 28.maí síðastliðinn.
,,Ég er mjög hissa yfir valinu, þetta kemur mér virkilega á óvart. Ég hef bara spilað einn leik og er bara nýkomin til landsins. Þetta er mjög gaman og ég er ótrúlega ánægð með þetta”, sagði Marina aðspurð hvort hún væri hissa á valinu en hún kom til landsins aðeins fyrir tveimur dögum.

Eins og áður sagði þá vann HK/Víkingur sinn fyrsta sigur í deildinni þegar þær lögðu Keflavík 4-1, hvað fannst Marinu Nesic um leikinn?

,,Hann var mjög erfiður í byrjun og mikil barátta á vellinum. Þær skoruðu fyrsta markið þannig þetta var mjög erfitt. Mér fannst við samt fá betri færi og kannski vorum við heppnar en kannski ekki. Þær fengu líka nokkur færi en við fengum fleiri færi. Við vorum samt bara betri í leiknum fannst mér” sagði Marina.

Marina Nesic skoraði tvö mörk í leiknum. Það fyrra eftir stórglæsilega aukaspyrnu sem verður að teljast eitt af mörkum sumarsins og það síðara með frábæru skoti fyrir utan teig.

,,já ég skoraði úr aukaspyrnu og síðan bara úr skoti. Ég hef áður skorað úr nákvæmlega eins aukaspyrnu. Ég sendi einmitt Sigga (Sigurður Víðisson þjálfari HK/Víkings) dvd þar sem ég skoraði nákvæmlega eins mark frá nánast alveg sama stað,” sagði Marina aðspurð um mörkin tvö.

,,Við erum auðvitað mjög ánægðar með sigurinn, það var frábært fyrir liðið að fá þrjú stig.”

Jovana Cosic og Lidija Stojkanovic eru auðvitað búnar að segja mér alveg fullt um deildina. Annars veit ég voða lítið, ég er náttúrlega bara nýkomin til landsins. Ég veit að deildin er mjög erfið og sterkari en sú serbneska. Það eru kannski betri aðstæður í Serbíu en fótboltinn er betri hérna,” sagði Marina þegar við spurðum hana út í deildina.

Marina Nesic spilaði með serbneska landsliðinu á móti Íslandi þann 28.maí þegar íslenska liðið sigraði með fjórum mörkum gegn engu í Serbíu.

,,Íslenska landsliðið er svakalega gott lið. Þær eru svakalega sterkar. Þær unnu okkur 4-0 í Serbíu. Þær eru mjög líkamlega sterkar og rosalega tilbúnar í svona leiki. Það besta við liðið er að þær hafa 4-5 svakalega leikmenn eins og Dóru Maríu og Margréti Láru sem eru rosalega góðir sóknarmenn.

Þær eru vel skipulagðar og einbeittar og ég er sannfærð um að þær geta komist upp úr riðlinum og komist í lokakeppnina í Finnlandi á næsta ári. Þær spila mjög mikilvæga leiki núna í júní og ég er sannfærð um að Ísland vinni. Ég bara veit að þær vinna”
sagði Marina um íslenska landsliðið en hún hefur greinilega mikla trú á liðinu.

HK/Víkingur spilar á móti KR í Frostaskjóli í næsta leik en KR liðið er í öðru sæti deildarinnar með 15 stig eftir 6 leiki. Telur Marina að HK/Víkingur geti sigrað lið eins og KR?

,,Já ég held það. Ég er vongóð, við ætlum allavega að stríða þeim og reyna að koma á óvart. Ég veit að þær eru með mjög gott lið og margar í landsliðinu spila með KR. En við stefnum að sjálfsögðu á sigur og sjáum hvað gerist.” Sagði Marina Nesic að lokum við Fótbolta.net í dag.

Sjá einnig:
1. umferð: Katrín Jónsdóttir, Valur
2. umferð: Sophia Mundy, Afturelding
3.umferð: Björk Gunnarsdóttir, Stjarnan
4.umferð: Hólmfríður Magnúsdóttir, KR
5.umferð: Margrét Lára Viðarsdóttir, Valur

Næsta umferð Landsbankadeildar kvenna verður sunnudaginn 15.júní þar sem 2 leikir fara fram. Þá mætast Afturelding og Þór/KA og Breiðablik fær Íslandsmeistara Vals í heimsókn.

Umferðin klárst síðan mánudaginn 16.júní með 3 leikjum. Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fylgjast með gangi mála í öllum 5 leikjunum og að lokum velja leikmann 7. umferðar.
Athugasemdir
banner
banner
banner