Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 09. desember 2008 08:00
Hafliði Breiðfjörð
Ásta Árnadóttir: Ákvað að prófa eitthvað nýtt
Ásta í leik með Val í sumar. Hún yfirgefur nú félagið.
Ásta í leik með Val í sumar. Hún yfirgefur nú félagið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásta Árnadóttir samþykkti í gær að ganga til liðs við sænska 1. deildarfélagið Tyresö og skrifar undir samning við félagið í dag. Hún kemur til félagsins frá Val þar sem hún hefur leikið undanfarin ár. Við ræddum við hana um vistaskiptin.

,,Ég ákvað að kanna möguleikann á að fara í lið í Stokkhólmi. Kærastinn minn er flugmaður og hann er að vinna fyrir Ryan Air og getur flogið frá Stokkhólmi. Því ákvað ég að skoða möguleikana þar og komst í samband við þetta félag. Það var allt mjög jákvætt og mikill metnaður hjá þeim svo ég ákvað að prófa nýja hluti," sagði Ásta í samtali við Fótbolta.net í gær.

Hún sagðist ekki hafa farið út til að skoða aðstæður hjá félaginu eins og svo algengt er en hún flytur út um miðjan janúar og hefur þá æfingar með liðinu.

,,Þetta hefur verið svolítið öðruvísi en venjulega er. Ég hef bara verið í sambandi við fólk sem þekkir til þarna og tengist öllu í kringum félagið. Ég er búin að heyra allt gott og byggi mikið á því. Það kemur svo í ljós í janúar þegar ég fer út hvernig mér líkar þetta," sagði hún en vildi félagið ekkert fá hana á reynsluæfingar?

,,Nei, þeir skoðuðu leiki með mér á DVD og voru mjög áhugasamir eftir það. Svo forvitnuðust þeir um mig við tengiliði sína í Svíþjóð og fengu þá að heyra álit þeirra á mér," svaraði hún.

Þrír liðsfélagar Ástu úr Val, Margrét Lára Viðarsdóttir, Guðbjörg Gunnarsdóttir og Guðný Björk Óðinsdóttir auk þjálfarans Elísabetar Gunnarsdóttur eru farnar til liða í sænsku deildinni. Ásta segir það ekki hafa spilað inn í ákvörðun sína.

,,Það hafði ekki áhrif, ég var að klára samninginn hjá Val og þá var spurningin að framlengja eða að prófa eitthvað nýtt. Ég ákvað að prófa eitthvað nýtt. Það er reyndar mjög gaman að ég og Gugga verðum þarna nágrannar," sagði hún.

Aðrar knattspyrnukonur sem hafa farið héðan hafa farið í sænsku úrvalsdeildina sem er ein af þeim bestu í heimi, en hvernig er 1. deildin þar í landi að styrkleika?

,,Það sem ég hef heyrt þá er deildin í sama styrkleikaflokkki og úrvalsdeildin hér heima," sagði Ásta sem hefur tekið ákvörðun um að vinna lítillega með boltanum í Svíþjóð.

,,Ég hef ákveðið að vinna eitthvað þarna að hluta en ég fékk mjög fínan samning sem ég er ánægð með. En ég vil vinna með fótboltanum til að komast betur inn í tungumálið," sagði hún en hún getur æft meira í Svíþjóð þrátt fyrir það og verður tilbúin í Evrópumót kvennalandsliða í Finnlandi í ágúst og september.

,,Ég mun búa rétt hjá æfingasvæðinu og mér býðst að æfa aukalega eins og ég vil. Það er mikill metnaður hjá félaginu að komast upp um deild svo það verður mikil harka sett í æfingarnar. Svo spilum við 22 leiki á tímabilinu, sem eru fleiri en heima svo ég verð klár í öll verkefnin með landsliðinu. Ég varð klárari en áður því núna get ég gefið mér meiri tíma í þetta. Heima þarf ég að vinna fulla vinnu og gera margt annað."

Ásta hefur verið fastamaður í byrjunarliði Íslandsmeistara Vals undanfarin ár en var samningslaus eftir að tímabilinu lauk hér heima. En voru mörg lið sem sýndu henni áhuga eftir tímabilið?

,,Ég gaf engan kost á að ræða við önnur lið en Val. Ef ég hefði verið hér heima þá hefði ég ekki farið í annað lið en Val," sagði Ásta en íhugaði hún ekkert að fara heim á Akureyri þar sem hún ólst upp hjá Þór?

,,Nei, ekki ennþá, en ég kalla reyndar heim Valssvæðið. Ég er með stórt Valshjarta. Það var mjög erfið ákvörðun að þurfa að fara héðan. Ég mun sakna þess að vera í Val. En ég kem bara aftur seinna."
Athugasemdir
banner
banner