Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 04. nóvember 2014 17:30
Magnús Már Einarsson
Jóhannes gæti fengið leikmenn frá Noregi til ÍBV
Jóhannes var kynntur til sögunnar sem þjálfari ÍBV á dögunum.
Jóhannes var kynntur til sögunnar sem þjálfari ÍBV á dögunum.
Mynd: Eyjafréttir - Júlíus Ingason
Úr leik hjá ÍBV í sumar.
Úr leik hjá ÍBV í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórarinn Ingi Valdimarsson.
Þórarinn Ingi Valdimarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lítið hefur heyrst af leikmannamálum ÍBV eftir að Pepsi-deildinni lauk. Jóhannes Harðarson var ráðinn þjálfari ÍBV í haust og hann segir leikmannamálin vera í skoðun.

,,Við erum að fara yfir í hvaða stöður okkur vantar leikmenn. Við ætlum að nýta næstu vikur vel. Við höfum rætt við leikmenn en það sem er mikilvægast er að semja við þá leikmenn sem eru til staðar og hafa þá áfram," sagði Jóhannes en Andri Ólafsson, Agnar Bragi Bergsson og Bjarni Gunnarsson eru allir samningslausir.

Hafa skoðað liðsstyrk
Jóhannes segir að leit standi einnig yfir að liðsstyrk. ,,Við höfum rætt um mörg nöfn en við höfum ekki verið í beinu sambandi við marga leikmenn. Við ætlum að vanda valið þegar kemur að því."

,,Ég er búinn að nýta tímann síðustu vikur í að fara yfir hluta af leikjunum hjá ÍBV í sumar. Ég vildi kynnast leikmönnunum til að sjá hvaða leikmenn ég vil halda og hvar við þurfum að styrkja okkur. Þetta lítur vel út eins og staðan er núna."

Gæti leitað til Noregs
Jóhannes hefur undanfarin ár þjálfað Flöy í norsku C-deildinni og hann segir koma til greina að fá liðsstyrk frá Noregi.

,,Það kemur alveg til greina. Við skoðum það í rólegheitum. Ég ætla að koma heim og fá tilfinningu fyrir styrkleikanum á strákunum heima áður en ég fer út í eitthvað svoleiðis. Ég er með ágætis sambönd hérna úti og kem til með að nýta þau ef á þarf að halda. Það er ekki tímabært að skoða það ennþá finnst mér."

Jóhannes telur að Pepsi-deildin sé svipuð að styrkleika og norska B-deildin. ,,Mér finnst þetta líkjast því svolítið. Bestu liðin á Íslandi gætu plummað sig í efstu deild í Noregi ef þau myndu fá að æfa við sömu aðstæður. Þetta (Pepsi-deildin) er líkt 1. deildinni og neðri hlutanum í efstu deild. Þrjú bestu liðin á Íslandi eru virkilega góð og gætu plummað sig ágætlega í efstu deildinni hérna úti."

Standa ekki í vegi fyrir Þórarni
Dean Martin og Jökull Elísabetarson eru farnir frá ÍBV og líklegt er að Atli Fannar Jónsson, og Brynjar Gauti Guðjónsson fari sömuleiðis. Þá vill Þórarinn Ingi Valdimarsson fara út í atvinnumennsku en staða hans er í óvissu.

,,Hann er með samning út næsta ár og er sem stendur leikmaður ÍBV. Hann hefur áhuga á að fara út og við munum ekki standa í vegi fyrir honum ef hann fær tækifæri til að fara erlendis," sagði Jóhannes um Þórarinn.

Jóhannes kemur til Íslands frá Noregi á morgun en hann mun flytja til Eyja. Stærri hluti leikmannahópsins verður í Eyjum en oft áður.

,,Það verða einhverijr strákar í bænum en við vonumst til að stærsti hópurinn verði í Eyjum. Ég verð búsettur þar og þá er eðlilegt að stærsti hópurinn sé úti í Eyjum. Við reiknum með að það verði einhverijr strákar í bænum en við leysum það á skynsamlegan máta," sagði Jóhannes.
Athugasemdir
banner
banner
banner