Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   fim 30. nóvember 2017 16:30
Magnús Már Einarsson
Axel Óskar: Aldrei verið góður í þolinmæði
Axel fagnar marki með U21 árs landsliðinu.
Axel fagnar marki með U21 árs landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér líst mjög vel á að fara til Torquay á láni út þennan mánuðinn," sagði Axel Óskar Andrésson, varnarmaður Reading og U21 árs landsliðsins, við Fótbolta.net í dag.

Axel er á leið til Torquay á láni til áramóta en liðið er í fallbaráttu í efstu utandeildinni á Englandi. Hann spilar sinn fyrsta leik á þriðjudaginn og nær sex leikjum með liðinu.

„Þessi deild er mikið sterkari en U23 deildin og fannst mér mikilvægt að ég gæti nýtt mér allan þann tíma sem ég hef til að þróast sem leikmaður. Torquay er sofandi risi og er ég spenntur að hjálpa þeim að rífa sig upp. Ég talaði við þjálfarann í gær í síma og þeir eru með mikið stærri áform en að vera í fallbaráttu út þetta tímabil."

Axel spilaði sína fyrstu aðalliðsleiki með Reading í enska deildabikarnum fyrr á tímabilinu en hann hefur einnig verið á bekknum í Championship deildinni.

„Ég er ánægður með hvernig tímabilið hefur þróast í heild sinni. Markmiðið mitt fyrir þetta tímabil var að vera búinn að spila minn fyrsta aðalliðsleik fyrir 2018. Það tókst fyrr sem var bónus. Ég hef verið mikið inn og út úr aðalliðshópnum og finnst mér betra að fá að fara á lán og spila reglulega til að þróast betur."

Eftir áramót fer Axel í ensku C-deildina eða D-deildina á lán eins og Brian Tevreden, yfirmaður knattspyrnumála hjá Reading, sagði við Fótbolta.net fyrr í dag.

„Ég er mjög spenntur að fara í deildarkeppnina eftir áramót og því hærra sem ég kemst því ánægðari verð ég. Þolinmæði er eitthvað sem ég hef aldrei verið góður í og langar mig sem fyrst að komast á toppinn. Ég er með stór áform með framtíðina en geri mér grein fyrir því að ég þarf að vinna gríðarlega hart að mér til að komast þangað," sagði Axel að lokum.
Athugasemdir
banner
banner