Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
   mán 16. janúar 2017 11:19
Magnús Már Einarsson
Enski boltinn
Gulli Gull um Bravo: Ótrúlegt að hann sé að spila
Claudio Bravo hefur verið í basli á þessu tímabili.
Claudio Bravo hefur verið í basli á þessu tímabili.
Mynd: Getty Images
Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gulli vill fá Joe Hart eða Willy Caballero í markið.
Gulli vill fá Joe Hart eða Willy Caballero í markið.
Mynd: Getty Images
„Miðað við þann metnað og hug sem er í klúbbnum þá er ótrúlegt að þeir séu að láta þennan mann spila," segir Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks og stuðningsmaður Manchester City, aðspurður út í Claudio Bravo markvörð City.

Bravo hefur fengið á sig 14 mörk í síðustu 22 markskotum en hann hefur legið undir mikilli gagnrýni í vetur. Sú gagnrýni minnkaði ekki eftir 4-0 tapið gegn Everton í gær.

„Það er kannski ekki sanngjarnt hjá mér að gagnrýna fyrirliða Síle. Hann var í Barcelona og er búinn að eiga flottan feril en það sem hann hefur sýnt hjá Manchester City er fyrir neðan allar hellur. Frammistaðan er léleg og maður hefur aldrei á tilfinningunni að hann sé að fara að verja þegar andstæðingurinn fær færi."

„Varnarleikurinn er slakur en það er ekki endalaust hægt að tala um það. Markvörðurinn er stór hluti af varnarleiknum og þegar vörnin klikkar þá reddar hann stundum málunum. Markvörðurinn hjálpar líka til við að binda saman vörnina en Bravo getur ekki talað við varnarmennina sína. Það kom strax í ljós í fyrsta leik hans á móti Manchester United þegar hann gat ekki látið (John) Stones vita að hann ætlaði að grípa fyrirgjöfina."


„Maður er með hjartað í buxunum þegar þetta gerist"
Það vakti athygli í sumar þegar Pep Guardiola ákvað að kaupa Bravo og lána enska landsliðsmarkvörðinn Joe Hart til Torino. Guardiola taldi sig þurfa að fá betur spilandi markvörð í markið.

„Guardiola keypti Bravo því hann vill fá leikmennina til að senda boltann þegar þeir eru búnir að fá mann í sig, til að vinna mann. Markvörðurinn er engin undantekning þar á. Hann bíður oft lengi eftir andstæðingnum og þá er komin pressa á hina leikmennina líka. Maður er með hjartað í buxunum þegar þetta gerist. Hann lendir oft í veseni og mér finnst það vera óþarfi."

„Ef að það er pressa á Guardiola að vinna titilinn núna, sem ætti eiginlega að vera, þá þarf að kaupa markmann og þá markmann sem ver markið sitt fyrst og fremst. Flestir af þessum gæjum eru góðir í að koma boltanum í leik og senda hann með innanfótarspyrnum. Hjörvar Hafliðason er góður í innanfótaspyrnum."

Vill fá Hart aftur í markið
Gunnleifur sendi Pep Guardiola, stjóra City, tóninn á Twitter í gær eins og sjá má neðst í fréttinni. Hvað myndi Gunnleifur gera ef hann fengi að ráða markmannsmálunum hjá City í dag?

„Ég veit ekki hvernig staðan er á Joe Hart en ég myndi vilja fá hann til baka. Ég myndi meira segja taka (Willy) Caballero á undan. Ég hef ekkert álit á Bravo sem markverði og samt er ég mjög jákvæð manneskja."

Manchester City er eftir tapið í gær í 5. sæti, tveimur stigum frá 4. sætinu. Er Gunnleifur farinn að óttast að City missi af Meistaradeildarsæti?

„Manchester United, Liverpool, Arsenal, Tottenham og Chelsea eru lið sem eru að spila frábærlega og eru í þvílíkum gír. Auðvitað breytist þetta á milli mánaða en þetta verður vesen með Claudio Bravo í marki, John Stones og fleiri gæja sem eru alls ekki að spila nógu vel," sagði Gunnleifur.



Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner