Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
banner
   lau 20. apríl 2024 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Arteta: Timber lítur mjög vel út á æfingum
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Arsenal heimsækir Wolves í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og þarf sigur í titilbaráttunni.

Allir leikirnir sem eru eftir á lokakafla tímabilsins eru gríðarlega mikilvægir en Arsenal er búið að tapa síðustu tveimur leikjum sínum í röð án þess að skora mark.

„Þetta er frábær reynsla fyrir strákana, þeir setja þetta í reynslubankann og læra af þessu. Núna er ég eingöngu að einbeita mér að því sem er framundan, við erum tveimur stigum á eftir Manchester City og ætlum að láta vaða," sagði Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, á fréttamannafundi í gær, degi eftir að Arsenal var slegið út í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu af FC Bayern í München.

Arteta var spurður út í áform enska fótboltasambandsins að hætta að endurspila leiki sem enda með jafntefli.

„Það eru nokkur sjónarhorn og ég tel mig skilja þau öll. Mitt sjónarhorn snýst um að vernda mína leikmenn og þetta leikjaálag er óhollt. Ef ég horfi á hversu margar mínútur þeir hafa spilað síðustu tvö ár og hversu margar þeir munu spila næstu tvö ár, þá er þetta hættulegt. Þetta er vandamál sem þarf að laga."

Arteta var að lokum spurður út í hollenska varnarmanninn Jurriën Timber sem hefur verið fjarverandi vegna meiðsla nánast allt tímabilið.

„Timber lítur mjög vel út á æfingum en það er of snemmt fyrir hann að spila með aðalliðinu. Hann mun spila næsta leik með varaliðinu og þá getum við séð betur hvar hann er staddur. Ég sé hann fyrir mér spila bæði sem hægri og vinstri bakvörð. Við munum nýta fjölhæfnina hans."
Athugasemdir
banner
banner
banner