Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   fös 22. maí 2015 11:32
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Óli Þórðar: Erfitt að hafa menn sem eru ekki með gleðina
Pape Mamadou Faye.
Pape Mamadou Faye.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Hann tilkynnti okkur það að hann væri orðinn þreyttur og væri ekki lengur með gleðina í þessu," segir Ólafur Þórðarson, annar þjálfara Víkings, um þær fréttir að sóknarmaðurinn Pape Mamadou Faye sé hættur hjá félaginu. Hann segir að Pape hafi ákveðið að taka sér frí því hann finni ekki sömu gleði og áður í fótboltanum.

„Það er erfitt að vera með leikmenn sem eru ekki í þessu af gleði. Þetta snýst um það, ekki er þetta atvinnumennska og menn lifa ekki af þessu."

Gæti Pape snúið aftur í Víking?

„Það var ekkert rætt. Það kemur bara í ljós en ég á ekki von á því," segir Ólafur.

Hann segir þetta alls ekki ákjósanlega stöðu fyrir Víking og þessar fréttir minnka möguleika þjálfarana í sóknarleiknum.

„Það er klárt mál. Við erum ekkert sérstaklega sáttir við að missa hann, þetta er skarð fyrir skildi. Það hefði verið hentugra hefði þetta gerst tveimur vikum fyrr og við getað nýtt það að glugginn var opinn til að fá inn mann."

Fyrir tímabilið lánaði Víkingur sóknarmanninn Viktor Jónsson til Þróttar í 1. deildinni. Ólafur segir ekki möguleika á að kalla hann til baka því samið var við Þróttara um að lánið yrði út tímabilið. Ekki hefði verið samið þannig ef þeir hefðu vitað í hvað stefndi með Pape.

Víkingar eru í fimmta sæti Pepsi-deildarinnar að loknum fjórum umferðum en liðið mætir Leikni í Breiðholti næsta þriðjudag. Pape hefur spilað alla fjóra leiki Víkinga og skorað eitt mark.
Athugasemdir
banner
banner
banner