Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 31. maí 2016 23:04
Alexander Freyr Tamimi
Mexíkóski framherjinn yfirbugaði mannræningjana
Alan Pulido sýndi mikið hugrekki.
Alan Pulido sýndi mikið hugrekki.
Mynd: Getty Images
Um það bil sólarhring eftir að mexíkóski landsliðsmaðurinn Alan Pulido var numinn á brott af mannræningjum var hann blessunarlega kominn í leitirnar.

Þessi fyrrum liðsfélagi Alfreðs Finnbogasonar sýndi mikið hugrekki þegar hann réðst á einn af mannræningjunum, náði af honum byssunni og farsímanum og hringdi í mexíkósku neyðarlínuna. Mínútum síðar var hann frjáls maður.

Associated Press hefur komist yfir formlega skýrslu yfir þrjú símtöl sem neyðarlínunni barst frá þessum 25 ára gamla framherja. Hann heyrist meðal annars hóta mannræningjanum barsmíðum ef hann upplýsir ekki hvar þeir eru staddir.

Upphaflega var greint frá því að Pulido hefði verið bjargað af lögreglunni en ljóst er að hann sá alfarið um að bjarga sér sjálfur. Í fyrsta símtalinu leit Pulido út um glugga eftir að hafa yfirbugað mannræningjann og lýsti tveggja hæða húsi með tveimur bílum, gráum og rauðum, lagt fyrir framan það.

Í næsta símtali greindi Pulido starfsmanni neyðarlínunnar frá því að lögreglan væri fyrir utan húsið. Starfsmaðurinn sagði honum að skjóta einu skoti úr byssunni svo þeir vissu að þeir væru á réttum stað, en Pulido sagði engar kúlur vera í byssunni. Hann sagði að lögreglan væri sjálf byrjuð að skjóta á húsið og lýsti klæðnaði sínum svo hún tæki hann ekki í misgripum fyrir þjófinn, sem var á þessum tíma meðvitundarlaus.

Þegar lögreglan mætti á svæðið hringdi hann í þriðja skiptið til að staðfesta að þeim væri treystandi, en gífurleg spilling ríkir innan mexíkósku lögreglunnar.

Fjórir vopnaðir menn rændu Pulido á þjóðvegi í Mexíkó þegar hann var á leið heim úr veislu rétt fyrir miðnætti á laugardagskvöld. Kærustu hans var einnig rænt en hent út úr bílnum skömmu síðar. Hún lét lögreglu vita.
Athugasemdir
banner
banner
banner