Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   fim 04. desember 2008 08:00
Hafliði Breiðfjörð
Þórunn Helga hjá Santos í viðtali: Hef áhuga á að spila erlendis
Þórunn Helga í leik með Santos þar sem hún leikur í samskonar búningum og með KR, röndóttum svörtum og hvítum.
Þórunn Helga í leik með Santos þar sem hún leikur í samskonar búningum og með KR, röndóttum svörtum og hvítum.
Mynd: Pedro Ernesto Guerra Azevedo
,,Flugfélagið tók passann minn ekki gildan (hann hafði lent í þvotti daginn áður) og mér var sagt að ég þyrfti að mæta með nýjan passa.''
,,Flugfélagið tók passann minn ekki gildan (hann hafði lent í þvotti daginn áður) og mér var sagt að ég þyrfti að mæta með nýjan passa.''
Mynd: Pedro Ernesto Guerra Azevedo
,,Það tók smátíma að venjast ólíku aðstæðunum hérna; hitanum, æfingavöllunum, sem eru þurrir og moldugir.''
,,Það tók smátíma að venjast ólíku aðstæðunum hérna; hitanum, æfingavöllunum, sem eru þurrir og moldugir.''
Mynd: Pedro Ernesto Guerra Azevedo
,,Nei, þær vita ekkert um Ísland en munu kannski vita eitthvað meira eftir að ég fer héðan.''
,,Nei, þær vita ekkert um Ísland en munu kannski vita eitthvað meira eftir að ég fer héðan.''
Mynd: Pedro Ernesto Guerra Azevedo
,,Ég hef áhuga á að spila erlendis en ég á eftir að skoða það betur. Ef ég verð á Íslandi mun ég spila fyrir KR.''
,,Ég hef áhuga á að spila erlendis en ég á eftir að skoða það betur. Ef ég verð á Íslandi mun ég spila fyrir KR.''
Mynd: Pedro Ernesto Guerra Azevedo
Þórunn Helga Jónsdóttir gekk í síðasta mánuði í raðir brasilíska félagsins Santos þar sem hún leikur tímabundið út þetta ár. Santos er fornfrægt félag og helst þekkt fyrir að einn besti knattspyrnumaður allra tíma, Pele lék með þessu sama félagi. Við ræddum við Þórunni Helgu um liðið og framhaldið hjá henni. Hún hefur áhuga á að spila erlendis á næstu leiktíð en ef hún verður hér heima mun hún verða áfram hjá KR.

Þurfti að koma mér út sem fyrst
Atburðarrásin áður en Þórunn Helga fór til Brasilíu var nokkuð hröð en aðeins leið vika frá því stúlka að nafni Maile sem spilaði með Santos fyrir tveimur árum hafði samband við Þórunni Helgu með tölvupósti. Maile þessi var nemandi við Harvard háskólann ásamt Maríu B. Ágústsdóttur markverði KR og íslenska landsliðsins er hún var þar. Þórunn Helga þekkti einnig til hennar því hún hafði spilað gegn henni í bandarísku háskóladeildinni.

,,Þjálfari Santos hafði haft samband við hana því að sex leikmenn liðsins eru að spila með u-20 landsliði Brasilíu í heimsmeistrakeppni yngri landsliða sem er í gangi í Chile um þessar mundir, þannig að liðið vantaði leikmenn fyrir tvö mót sem það er að taka þátt í. Annars vegar er það ”Copa do Brasil” (Brasilíubikarinn) og hins vegar "Jogos Abertos” (”opna mótið”)," sagði Þórunn Helga.

,,Ég hafði ekki mikinn tíma til umhugsunar. Ég þurfti að senda út ýmis gögn samdægurs og koma mér út sem allra fyrst," bætti hún við en ferðalagið sem hún átti eftir að eiga fyrir höndum var miklu lengra en hún gat átt von á þegar hún lagði af stað.

Nýþveginn passi olli miklum vandræðum
,,Það gekk reyndar ekki áfallalaust að komast á leiðarenda. Ég flaug til Boston frá Íslandi og daginn eftir átti ég flug gegnum Newark í New Jersey til Sao Paolo," útskýrði Þórunn Helga.

,,Allt gekk vel þangað til ég var að stíga um borð í vélina í New Jersey. Flugfélagið tók passann minn ekki gildan (hann hafði lent í þvotti daginn áður) og mér var sagt að ég þyrfti að mæta með nýjan passa."

,,Þar sem þá var laugardagur þurfti ég að bíða fram á mánudag og fara til Washington DC í íslenska sendiráðið. Frá Newark fékk ég far til Delaware með viðkomu í Pennsylvaniu, tók rútu þaðan til Baltimore þar sem að ég gisti um nóttina og fór svo til Washington snemma morguninn eftir. Þaðan tók ég svo lest aftur til New Jersey þar sem að ég hafði millilent tveimur dögum áður!"


Gæti hugsað mér að koma aftur
Þórunn Helga verður aðeins í sex vikur í heildina hjá Santos en það er sá tími sem áætlað var að liðið yrði án þessara sex leikmanna vegna HM U20 ára landsliða. Brasilía lék þar sinn síðasta leik á sunnudag er liðið tapaði í átta liða úrslitum gegn Þjóðverjum. En hvernig mat hún möguleika sína í liðnu áður en hún fór út.

,,Ég renndi auðvitað blint í sjóinn með það. Þó að það vanti sex unglingalandsliðsstelpur sem eru að keppa í Chile þá er hópurinn stór. Það eru yfir 30 leikmenn á leikmannalistanum en auðvitað er alltaf eitthvað um meiðsli," svaraði hún.

,,Nú eru búnir fjórir leikir. Ég spilaði ekki nema 10 mínútur eða svo í þeim fyrsta, enda var ég nánast nýlent. Ég kom svo inn á í fyrri hálfleik í fyrri leiknum á móti Atlético-MG og spilaði allan seinni leikinn."

,,Leikur við Corinthians var felldur niður, þar sem þær höfðu teflt fram ólöglegum leikmanni í fyrri umferð og voru dæmdar úr keppni. Við spiluðum því á móti Saad EC og þar spilaði ég allan leikinn,"
hélt hún áfram en eftir að við töluðum við hana í gær átti liðið eftir útileikinn gegn Saad sem er langt inni landinu í Sao Paolo fylki. Því miður höfum við ekki enn upplýsingar um þann leik.

Þórunn Helga verður hjá Santos til jóla en eins og áður sagði var hún aðeins fengin til liðsins á meðan ungu landsliðsstúlkurnar voru í Chile. Aðspurð hvort möguleiki væri á að hún yrði lengur sagði hún ekkert ljóst en hún hefur áhuga á því sjálf.

,,Eins og er, er stefnan bara að klára þessi tvö mót, sem lýkur fyrir jól. Mér líkar hins vegar rosalega vel hérna og gæti alveg hugsað mér að koma aftur. Ég verð bara að sjá hvernig mér gengur næstu vikurnar og athuga það svo síðar," sagði hún.

Þvotturinn þveginn í höndum
Hér á landi hefur Þórunn Helga sem er 24 ára gömul aðeins leikið með KR og fyrir utan KR er Santos eina félagið sem hún hefur leikið með auk háskólaboltans í Bandaríkjunum. Hún kynntist gerólíkum aðstæðum þegar hún kom til Brasilíu.

,,Aðstæður eru ólíkar því sem ég þekki frá Bandaríkjunum og Íslandi. Nánast allt liðið býr saman í húsi beint á móti Santos leikvanginum. Stelpurnar koma alls staðar að úr Brasilíu og mér skilst að aðstæðurnar hér hjá Santos séu með þeim betri hjá kvennaliðum í landinu. Félagið útvegar húsnæði fyrir alla leikmenn liðsins og einnig er eldað fyrir okkur í öll mál."

,,Það tók smátíma að venjast ólíku aðstæðunum hérna; hitanum, æfingavöllunum, sem eru þurrir og moldugir, og svo þvær maður þvottinn sinn í höndum, svo einhver dæmi séu nefnd. Reyndar hef ég líka komist í þvottavél, sem betur fer. Páfuglar í hótelgarðinum í einum útileiknum voru líka sérstök reynsla."

,,Æfingarnar eru annars mjög góðar og ég tel öruggt að ég geti bætt mig hérna. Til þess var líka leikurinn gerður. Það tekur auðvitað meira en sex vikur að tileinka sér allt sem maður gæti lært af leikmönnum og þjálfaranum hérrna, en maður gerir það sem maður getur á þeim tíma sem maður hefur."


Fær fyrirmæli frá þjálfaranum í gegnum túlk
Sem fyrr sagði hefur hún alltaf spilað með KR hér á landi þar sem hún hefur vanist hefðbundinni liðsuppstillingu, 4-3-3 eða 4-4-2. Santos leikur eftir allt öðruvísi kerfi en þegar við báðum hana að bera liðið saman við KR átti hún efitt með það.

,,Ég á svolítið erfitt með að bera liðið saman við KR. Liðið er mjög sterkt þó. Eins og ég sagði eru sex leikmenn liðsins að spila fyrir u-20 ára landslið Brasilíu, og þess vegna er ég hér, en hér eru eftir nokkrir leikmenn sem spila fyrir A-landslið Brasilíu," sagði hún.

,,Boltatæknin hjá öllu liðinu er mjög góð og gaman að æfa og spila með þeim. Við spilum með ólíka liðsuppstillingu frá því sem ég þekki á Íslandi og USA. Við spilum með þrjá í vörn, tvo miðjumenn, tvo framliggjandi miðjumenn, tvo kanta og framherja. Þessu skipulagi fylgja flóknar færslur sem ég fæ fyrirmæli um í löngu máli frá þjálfaranum gegnum túlk," sagði hún en þekkja liðsfélagar hennar eitthvað til Íslands?

,,Nei, þær vita ekkert um Ísland en munu kannski vita eitthvað meira eftir að ég fer héðan," sagði hún. ,,Þar sem enskukunnáttan er ekki mikil hérna og portúgalskan mín er ekki upp á marga fiska þá eru samskiptin öll í einfaldari kantinum."

Hef áhuga á að spila erlendis næsta sumar
Þórunn Helga var í landsliðshópi Íslands sem æfði fyrir umspilsleikina gegn Írlandi í október en var ekki í endanlegum hóp sem fór í leikina. Þó má gera ráð fyrir að hún sé sterklega í myndinni fyrir Evrópumótið í Finnlandi þar sem stærri hópur fer þangað. En hefur hún tekið ákvörðun um hvort hún komi aftur í KR fyrir næstu leiktíð?

,,Ég hef ekkert ákveðið með næsta sumar. Ég hef áhuga á að spila erlendis en ég á eftir að skoða það betur. Ef ég verð á Íslandi mun ég spila fyrir KR," sagði Þórunn Helga að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner