Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
banner
   sun 19. júní 2011 21:22
Fótbolti.net
Valitor-bikarinn: Shaneka setti þrjú gegn Fjölni
Grindavík heldur áfram í bikarnum
Grindavík heldur áfram í bikarnum
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Elísabet Ósk Gunnþórsdóttir í baráttunni
Elísabet Ósk Gunnþórsdóttir í baráttunni
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Fjölnir 0-5 Grindavík
0-1 Shaneka Gordon (‘3)
0-2 Saga Kjærbech Finnbogadóttir (’25)
0-3 Shaneka Gordon (’38)
0-4 Shaneka Gordon (’44)
0-5 Dernelle L. Mascall (’78)

Fjölnir tók á móti Grindavík í 16-liða úrslitum Valitor-bikarsins fyrr í dag. Fjölnir leikur í 1.deildinni en Grindavík í Pepsi-deildinni og það má segja að leikurinn hafi verið eftir bókinni, Pepsi-deildar liðið vann öruggan 5-0 sigur á 1.deildarliðinu.

Shaneka Gordon var stórhættuleg í dag en það var hún sem að skoraði fyrsta mark leiksins strax á þriðju mínútu. Markið sló heimakonur þó ekki út af laginu og þær spiluðu ágætlega án þess þó að skapa sér opin marktækifæri. Shaneka var hinsvegar dugleg að ógna hinum megin og Sonný Lára Þráinsdóttir í Fjölnismarkinu varði frá henni í þrígang áður en að Grindavík jók forystuna í 2-0.

Annað markið kom eftir hornspyrnu. Sonný virtist ætla að handsama fyrirgjöfina en náði ekki almennilega til boltans sem datt fyrir fæturnar á Sögu Kjærbech Finnbogadóttur og hún setti boltann örugglega í markið.

Dernelle L. Mascall og Shaneka Gordon voru virkilega sprækar í fremstu víglínu Grindavíkur og voru stöðugt ógnandi með hraða sínum. Shaneka skoraði þriðja mark Grindavíkur á 39. mínútu eftir að hafa sloppið í gegnum vörn Fjölnis en mínútu áður hafði Dernelle komist ein gegn Sonný sem varði frá henni.

Aftur var Shaneka á ferðinni á lokamínútu hálfleiksins og aftur skoraði hún eftir að hafa stungið sér inn fyrir Fjölnisvörnina á harðaspretti.

Fjölnir fékk besta marktækifæri sitt strax í kjölfarið en mistókst að minnka muninn. Þær höfðu þá búið til flotta sókn upp hægri kantinn. Boltinn barst fyrir markið á Helenu Ólafsdóttur sem var í upplögðu færi á markteig en hún hitti boltann illa og skotið geigaði.

Fjölnisliðið mætti ákveðið til leiks í síðari hálfleik og tókst að mestu að halda sóknarmönnum Grindavíkur í skefjun. Dernelle og Shaneka voru reyndar töluvert í boltanum en fengu ekki mörg opin færi líkt og í fyrri hálfleiknum. Dernelle þakkaði þó pent fyrir sig á 78.mínútu þegar varnarmenn Fjölnis gleymdu sér. Dernelle fékk þá boltann í vítateignum og gerði virkilega vel í að lyfta honum yfir Sonný í markinu.

Grindavík fékk tvö fín færi til að bæta við marki undir lok leiksins en þau nýttust ekki og lokatölur því 5-0. Lið Grindavíkur verður því í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit Valitor-bikarsins.

Lið Fjölnis: Sonný Lára Þráinsdóttir (m), Jódís Lilja Jakobsdóttir (Helena Konráðsdóttir 46), Saga Guðmundsdóttir (Aníta Björk Bóasdóttir 60), Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, Regína Einarsdóttir, Helena Ólafsdóttir (Kristjana Ýr Þráinsdóttir 70), Sólveig Daðadóttir (f), Ásta Sigrún Friðriksdóttir, Oddný Karen Arnardóttir, Tinna Þorsteinsdóttir, Hrefna Lára Sigurðardóttir.

Lið Grindavíkur: Emma Higgins (m), Jóna Sigríður Jónsdóttir, Sarah Wilson, Shaneka Gordon, Anna Þórunn Guðmundsdóttir (f) (Alexandra Marý Hauksdóttir 83), Sara Hrund Helgadóttir, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir, Elísabet Ósk Gunnþórsdóttir, Ágústa Jóna Heiðdal (Linda Ósk Kjartansdóttir 75), Saga Kjærbech Finnbogadóttir (Katrín Ösp Rúnarsdóttir 78), Dernelle L. Mascall.

Maður leiksins: Shaneka Gordon
banner
banner
banner