Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   fim 02. júní 2016 09:30
Þórður Már Sigfússon
Belgía vill fá íslenskan unglingalandsliðsmann
Jónatan Ingi Jónsson.
Jónatan Ingi Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Unglingalandsliðsmaðurinn Jónatan Ingi Jónsson sem er á mála hjá AZ Alkmaar í Hollandi gæti klæðst belgísku landsliðstreyjunni innan skamms en þar á bæ vilja menn fá miðjumanninn til að spila fyrir yngri landslið Rauðu Djöflanna.

Jónatan, sem gekk til liðs við AZ frá FH í fyrra, er einn efnilegasti leikmaður Íslands í sínum aldursflokki og hefur verið áberandi með U17 ára landsliðinu en glæsilegt aukaspyrnumark hans gegn Norður-Írum vakti töluverða athygli á síðasta ári.

Hann þykir gríðarlegt efni og var t.a.m. í leikmannahópi FH í Pepsi-deildinni síðasta sumar, einungis 16 ára gamall.

Hann á belgíska móður en sjálfur viðraði hann þann möguleika að spila fyrir Belgíu í viðtali á heimasíðu AZ Alkmaar í janúar síðastliðnum.

„Mig langar að dvelja lengi hjá AZ og vonandi skrifa ég undir lengri samning. Það yrði síðan frábært ef ég gæti bráðlega valið á milli þess að spila fyrir Ísland eða Belgíu,“ sagði Jónatan meðal annars.

Belgíska knattspyrnusambandið bauð Jónatani að taka þátt í þriggja daga æfingabúðum með U17 ára landsliðinu í síðasta mánuði og spilaði hann m.a. æfingaleik gegn varaliði Gent.

U17 ára landslið Belgíu er gríðarlega sterkt en það hafnaði í þriðja sæti á HM U17 ára landsliða í fyrra auk þess sem það komst í undanúrslit á þarsíðasta Evrópumóti.

Þó svo að Jónatan ákveði að spila fyrir unglingalandslið Belgíu er ekki útilokað að hann spili fyrir A-landslið Íslands síðar en ljóst er að það yrði nokkuð áfall fyrir KSÍ að missa þennan hæfileikaríka leikmann.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner